| Grétar Magnússon

Jafntefli í London

Niðurstaðan úr heimsókn Liverpool til Tottenham varð 1-1 jafntefli í fjörugum leik þar sem gestirnir voru mun beittari en heimamenn.

Það kom á óvart að Jurgen Klopp stillti Philippe Coutinho upp í byrjunarliðinu en óttast var að hann myndi ekki ná leiknum vegna smávægilegra meiðsla aftaní læri.  Einnig var Divock Origi í leikmannahópnum en Emre Can var hinsvegar ekki orðinn góður af sínum meiðslum.  Daniel Sturridge sat á bekknum og kom það einnig svolítið á óvart en í framlínunni voru þeir Firmino, Coutinho og Mané, á miðjunni þeir Henderson, Wijnaldum og Lallana og í vörninni spilaði Joel Matip sinn fyrsta deildarleik með félaginu og með honum stóðu vaktina þeir Lovren, Clyne og Milner.  Sem fyrr stóð Mignolet í markinu.

Það var kominn tími til að leikmenn Liverpool byrjuðu leiki frá fyrsta flauti dómara og í þessum leik voru menn á tánum strax.  Góð pressa á varnarmenn Tottenham skapaði dauðafæri strax á 4. mínútu þegar Firmino fékk sendingu innfyrir, lék áfram inná teiginn og sendi út til vinstri á Coutinho sem var aleinn.  Hann þrumaði að marki en Vorm í marki Tottenham varði glæsilega og hélt boltanum.  Þarna fór gott færi forgörðum.

Heimamenn fengu svo aukaspyrnu við vítateigslínuna vinstra megin ekki svo löngu síðar.  Christian Eriksen þrumaði að marki en Mignolet varði vel og sló boltann í innkast.  En það voru gestirnir sem voru ávallt líklegri til að skora og það þurfti tvö snögg úthlaup hjá Vorm til þess að koma í veg fyrir að stungusending inná Mané skilaði árangri.  Eitt skiptið þegar Liverpool átti hornspyrnu teikaði Vertonghen treyju Matip og dómarinn sá ástæðu til að stöðva leikinn.  Flestir héldu að nú myndi hann dæma vítaspyrnu en hann gaf Vertonghen bara tiltal og leikurinn hélt áfram.  Það var greinilegt að Jurgen Klopp fannst þessi ákvörðun frekar skrýtin.

Sóknarþungi Liverpool var töluverður og Vorm gerði aftur vel í markinu þegar hann varði fast skot Coutinho sem var reyndar beint á markvörðinn.  Ekki svo löngu síðar kom markið sem gestirnir biðu eftir.  Matip sendi út á vinstri kant þar sem Firmino tók við boltanum og lék uppað endamörkum og svo á teiginn.  Erik Lamela felldi Firmino og Madley dómari var ekki lengi að dæma vítaspyrnu.  Milner fór á punktinn og skoraði örugglega.  Heimamenn náðu ekki að ógna markinu það sem eftir lifði hálfleiks.

Flestir héldu að heimamenn myndu mæta grimmir til leiks í seinni hálfleik en áfram voru það leikmenn Liverpool sem voru beittari.  Matip skallaði boltann ofaná stöngina eftir hornspyrnu og Mané skoraði flott mark sem var dæmt af vegna rangstöðu en það þótti mörgum vafasamur dómur.  Adam Lallana var dæmdur rangstæður þegar sending kom innfyrir en hann virtist vera samsíða aftasta varnarmanni Tottenham, auk þess virtist línuvörðurinn alls ekki vera á réttum stað til að meta hvort Lallana væri rangstæður eða ekki en hann flaggaði samt.  Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn óx heimamönnum ásmegin og það endaði með marki 18 mínútum fyir leikslok þegar há sending kom inná teiginn.  Clyne fór í skallaboltann ásamt Lovren og það þýddi að Danny Rose var einn og óvaldaður á fjærstöng, hann náði að taka boltann niður og skjóta honum framhjá Mignolet sem kom út á móti og í bláhornið fór boltinn.  Áður en markið kom höfðu þeir gert sig líklega með skotum frá Eriksen og Lamela og Mignolet varði stórvel skalla frá Alderweireld útvið stöng.

Divock Origi kom inná sem varamaður skömmu fyrir mark heimamanna setti því miður ekki mark sitt á leikinn og komst alls ekki í takt við neitt sem samherjar hans voru að reyna.  Að ósekju hefði Klopp svo mátt setja Sturridge inná fyrr en hann kom til leiks á 88. mínútu.  Bæði lið sóttu til sigurs en það voru gestirnir sem voru líklegri til að skora, skot frá Wijnaldum fór í hönd Alderweireld en það hefði verið hart að dæma víti þar, skotið endaði svo í höndunum á Vorm.  Í blálokin bjargaði svo Alderweireld þegar Firmino reyndi að senda Lallana einan í gegn.  Því miður kom ekki annað mark Liverpool í þessum leik og niðurstaðan því 1-1 jafntefli sem verður að segjast frekar svekkjandi miðað við gang leiksins en fyrir leik hefðu nú flestið tekið þessum úrslitum og þótt stig ágætt á erfiðum útivelli.

Tottenham:  Vorm, Walker (Janssen, 28. mín.), Alderweireld, Vertonghen, Rose, Dier, Wanyama, Lamela, Alli, Eriksen (Winks, 90+3. mín.), Kane (Onomah, 83. mín.).  Ónotaðir varamenn:  McGee, Carter-Vickers, Davies, Son Heung-min.

Mark Tottenham:  Danny Rose (72. mín.).

Gul spjöld:  Vertonghen, Rose, Alli.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Lovren, Matip, Milner, Henderson, Wijnaldum, Lallana (Stewart, 90+4. mín.), Coutinho (Origi, 69. mín.), Firmino, Mané (Sturridge, 88. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Manninger, Moreno, Grujic, Lucas.

Mark Liverpool:  James Milner (43. mín. víti).

Gul spjöld:  Matip, Lovren, Henderson, Mané, Coutinho.

Áhorfendur á White Hart Lane:  31.211.

Maður leiksins:  James Milner var virkilega flottur í vinstri bakverði í þessum leik og skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni.  Í heildina stóð liðið sig mjög vel í þessum leik en Milner stóð kannski uppúr.

Jürgen Klopp:  ,,Ég er enn svolítið vonsvikinn, jafnvel þó að við höfum tekið stig gegn Tottenham.  Með þessari spilamennsku sem við sýndum fannst mér við hafa geta unnið leikinn en svona er þetta stundum.  Við verðum að sætta okkur við þá hluti sem gerðust í leiknum.  Við gerðum ein mistök í markinu sem þeir skora og þeir fengu eitt frábært færi þegar Mignolet varði mjög vel frá Alderweireld.  Það voru í raun ekki fleiri færi sem þetta góða Tottenham lið skapaði sér.  Það segir margt um varnarleik okkar.  En á hinn bóginn fengum við færi, meira að segja eitt á 92. mínútu en því miður náðum við ekki að nýta það.  Þessi leikur sýnir vel hvað við getum gert, hvernig við getum spilað.  Þetta snerist ekki endilega bara um að pressa og svoleiðis þó svo að við gerðum þann hlut mjög vel einnig."

Hér má sjá myndir úr leiknum.

Fróðleikur:

- James Milner skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni.

- Hann hefur nú skorað 6 deildarmörk fyrir félagið í 30 leikjum.

- Milner hefur skorað í 42 úrvalsdeildarleikjum á ferlinum og aldrei tapað, aðeins Darius Vassell er með betri árangur en hann skoraði í 46 leikjum og tapaði aldrei.

- Liverpool hefur ekki haldið hreinu í útileik í síðustu 8 leikjum en það hefur ekki gerst síðan í nóvember 2006.

- Liverpool eru nú með 4 stig eftir 3 leiki í deildinni.

- Landsleikjahlé tekur nú við en næsti leikur er þann 10. september þegar Leicester koma í heimsókn.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan