| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v Leicester City

Eftir býsna langa bið er komið að fyrsta leik Liverpool á Anfield Road á þessari leiktíð. Nýja Aðalstúkan verður endanlega vígð fyrir framan leikmenn Liverpool og Englandsmeistara Leicester. Hver hefði trúað því fyrir ári að Liverpool myndi mæta Leicester sem enskum meisturum á Anfield í fyrsta heimaleik leiktíðarinnar? Staðreyndin er samt þessi og það verður sannarlega spennandi að sjá hvernig Liverpool vegnar á móti þeim bestu frá síðustu leiktíð. 

Liverpool þarf á því að halda að byrja vel á Anfield fyrir framan nýju Aðalstúkuna. Það er þekkt að það getur tekið tíma fyrir leikmenn að venjast nýjum leikvöngum og jafnvel þó aðeins hafi verið gerðar breytingar á leikvelli sem þeir eru vanir. Gamla Aðalstúkan var nokkuð reisuleg en þessi nýja er risavaxinn í samanburði og reyndar mun stærri en hinar þrjár. Það var ekki nein tilviljun að Jürgen Klopp lét leikmenn sína æfa fyrir framan stúkuna núna í vikunni.


Nýja stúkan var reyndar vígð í gær að viðstöddum forráðamönnum Liverpool og fyrrum leikmönnum. En með leiknum í dag má segja að vígslunni ljúki. Það að stúkan sé risin er gríðarlega merkilegur áfangi í sögu Liverpool. Eigendur félagsins hafa staðið við að endurbyggja leikvanginn og stúkan er sönnun þess að þeir hafa látið verkin tala. Stúkan á ekki bara eftir að gefa fleiri stuðningsmönnum Liverpool kost á að horfa á liðið sitt á Anfield heldur á hún líka eftir að auka tekjur félagsins. 


Á síðustu leiktíð var Liverpool eitt fárra liða sem náði að leggja Leicester að velli. Christian Benteke skoraði eina markið þegar Liverpool vann á Anfield á öðrum degi jóla. Liverpool lék prýðilega í leiknum og verðskuldaði sigur. Hvort það spilar inn í það álit Claudio Ranieri, framkvæmdastjóra Leicester, að Liverpool geti unnið deildina skal ósagt látið. En Liverpool hefur það sama með sér á þessu keppnistímabili sem Leicester hafði á því síðasta að þurfa ekki að þreyta sig í Evrópuferðum. 



Liverpool hefur átt misjafna leiki það sem af er leiktíðar en það er ekki vafi á að liðið getur spilað geysilega vel á góðum degi. Liðið sýndi það á móti Arsenal og eins gegn Tottenham. En leikurinn í Burnley sýndi óstöðugleika liðsins. Það getur þó vel verið að sá leikur sé undantekning en það kemur ekki í ljós fyrr en lengra líður á. Ég held að það sé á hreinu að Jürgen Klopp ætlar sér að þróa liðið og koma leikmönnum betur inn í það kerfi sem hann vill spila. Þetta gerði hann með frækilegum árangri í Dortmund. Hann er þjálfari og tæpti oftar en einu sinni á því á síðustu leiktíð, þegar leikjaálagið var mikið, að það gæfist enginn tími til að þjálfa liðið. Nú hefur hann og samverkamenn hans fengið tíma til þess og það ætti að skila sér í betri leikjum og stöðugleika. 

Jürgen bað stuðningmenn Liverpool, nú á dögunum, um að láta heyra hressilega í sér í vígsluleiknum. Þeir munu gera það og hvetja liðið sitt til sigurs á móti Englandsmeisturunum. Liverpool vinnur 2:0 með mörkum Roberto Firmino og Jordan Henderson.

YNWA

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan