| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Sem fyrr voru lánsmenn Liverpool að leika með liðum sínum um helgina, skoðum hvernig þeim gekk.

Varnarmaðurinn Lloyd Jones kom heldur betur við sögu hjá Swindon Town í leik gegn Oxford United en liðin mættust í League One um helgina í nágrannaslag.  Jones fékk sitt annað gula spjald eftir 65 mínútna leik þegar staðan var 2-0 fyrir Oxford og var því rekinn af velli.  Í raun var seinna gula spjaldið það ljótt brot að það eitt og sér hefði mátt vera beint rautt spjald ef marka má fréttir af leiknum.  Leikurinn endaði 2-0 og Swindon sitja í 16. sæti deildarinnar með 2 sigra, 2 jafntefli og 2 töp eftir 6 leiki.

Danny Ward stóð sem fyrr í markinu hjá Huddersfield í 1-0 sigri á Leeds United í næst efstu deild.  Sigurinn tryggði liðinu toppsætinu í deildinni og Ward stóð sig vel í leiknum þó svo að hann hafi oft haft meira að gera en í þessum leik.

Í sömu deild spilar Adam Bogdan með Wigan og hans menn töpuðu 2-1 fyrir Sheffield Wednesday.  Bogdan gat lítið gert í mörkunum sem Wigan fékk á sig en fréttir segja að hann hafi verið frekar óöruggur milli stanganna og Wigan sitja nú í 21. sæti deildarinnar og þurfa að gera betur ef þeir ætli sér ekki að sogast niður í fallbaráttu.

Við höldum áfram í næst efstu deild þar sem Ryan Kent spilaði með Barnsley í 2-1 sigri á Preston North End á laugardaginn var.  Hann spilaði eins og vant er á hægri kanti og hafði sig lítið í frammi, var svo skipt útaf eftir klukkutíma leik.  Sá sem kom inná fyrir Kent skoraði sigurmark leiksins þannig að mögulega gæti hann verið að horfa uppá harða baráttu um að halda sæti sínu í byrjunarliðinu.  Barnsley eru í 3. sæti deildarinnar og eru sem stendur í toppbaráttu þó svo að of snemmt sé að segja til um hvort þeir haldi velli þar eður ei.

Í League One spilaði Ryan Fulton með Chesterfield í markalausu jafntefli gegn Oldham Athletic.  Fulton hafði nóg að gera í leiknum, varði oft mjög vel og fékk góða umsögn hjá fréttamiðlum eftir leikinn.  Chesterfield eru í 14. sæti deildarinnar.

Þá víkur sögunni til Evrópu þar sem þrír lánsmenn félagsins spiluðu með liðum sínum.

Í Portúgal spilaði Lazar Markovic sinn fyrsta leik fyrir Sporting er hann kom inná sem varamaður í 3-0 sigri á Moreirense á laugardaginn.  Staðan var 3-0 þegar Markovic kom inná og hann sigldi heim öruggum sigri með liðsfélögum sínum.  Sporting hafa unnið alla fjóra leiki sína í deildinni til þessa.

Í Austurríki spilaði Andre Wisdom einnig sinn fyrsta leik fyrir Red Bull Salzburg á sunnudaginn var.  Líkt og Markovic kom Wisdom inná sem varamaður í seinni hálfleik og spilaði síðustu 12 mínútur leiksins.  Staðan var 2-0 þegar Wisdom kom inná og leikurinn endaði með 4-0 sigri liðsins.  Red Bull sitja í 3. sæti deildarinnar eftir 7 leiki með 14 stig.

Taiwo Awoniyi var svo þriðji leikmaðurinn sem spilaði sinn fyrsta leik með liði sínu NEC Nijmegen í Hollandi.  Leikið var gegn PSV og var það leikur sem Awoniyi vill sennilega gleyma sem fyrst en lokatölur voru 4-0 fyrir PSV.  Honum var skipt útaf þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum og kom ekki mikið við sögu í framlínunni hjá sínum mönnum.

Í neðstu atvinnumannadeild Englands, League Two spilaði sóknarmaðurinn Jack Dunn í 5-1 tapi gegn Doncaster Rovers.  Dunn var ekki atkvæðamikill í leiknum frekar en samherjar sínir og var skipt útaf þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum.

Þrír lánsmenn sátu svo allan tímann á varamannabekknum með liðum sínum, Sam Hart horfði á samherja sína í Port Vale gera 2-2 jafntefli við Peterborough United og Brasilíumaðurinn Allan Rodrigues var áhorfandi af bekknum þegar Hertha Berlin sigruðu Ingolstadt í þýsku Bundesligunni.  Að lokum má svo nefna að Jon Flanagan gerði slíkt hið sama og fylgdist með Burnley gera 1-1 jafntefli við Hull City í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn var.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan