| Grétar Magnússon

Frábær sigur á Brúnni !

Okkar menn héldu áfram góðu gengi sínu í Lundúnaborg í gærkvöldi þegar flottur 1-2 sigur vannst á Chelsea.  Fáir hefðu tippað á markaskorara liðsins í leiknum en það skiptir engu máli hverjir skora mörkin svo lengi sem þrjú stig eru í húsi.

Jurgen Klopp þurfti að gera breytingu á liðinu á síðustu stundu en Roberto Firmino átti við einhver smávægileg meiðsli að stríða og gat ekki verið með.  Philippe Coutinho kom inn í hans stað og eins og allir bjuggust við kom Dejan Lovren inní vörnina að nýju.  Simon Mignolet hélt stöðu sinni í markinu og að öðru leyti var liðið óbreytt frá sigrinum á Leicester City.

Það var fín stemmning á Stamford Bridge á föstudagskvöldi en gestirnir sáu hinsvegar til að stuðningsmenn heimaliðsins hljóðnuðu fljótt því þeir byrjuðu leikinn mun betur.  Chelsea menn héldu boltanum illa og áttu margar misheppnaðar sendingar, oftar en ekki útaf góðri pressu Liverpool manna.  Daniel Sturridge átti fyrstu tilraun á markið strax á þriðju mínútu en Courtois varði skotið.

Á 17. mínútu fengu gestirnir aukaspyrnu vinstra megin við vítateiginn og voru snöggir að taka hana.  Boltinn var sendur á kantinn og svo aftur til baka á Coutinho sem sendi boltann yfir á fjærstöngina.  Þar var Dejan Lovren mættur og hann skaut boltanum í markið, einstaklega vel klárað hjá miðverðinum þarna og menn fögnuðu markinu mjög vel.  Leikmenn Chelsea virtust ekki vakna upp við þetta mark og spilamennska þeirra batnaði lítið.

Á 24. mínútu komst Sturridge upp að endamörkum inní vítateig og sendi hann fastan bolta fyrir markið sem enginn samherji eða mótherji náði að snerta, ef það hefði gerst hefði boltinn sennilega endað í markinu því sendingin var það föst.  Eftir hálftíma leik náðu Chelsea menn kannski sinni fyrstu alvöru sókn þegar Willian lék upp hægri kantinn og hugðist senda fyrir markið en varnarmaður Liverpool náði að renna sér í boltann og heimamenn uppskáru hornspyrnu.  Sendingin kom fyrir markið og Luiz náði skallanum utarlega í teignum en Mignolet náði að kasta sér og slæma hendi í boltann áður en Matic náði til hans en Matic var svo dæmdur rangstæður og hættan liðin hjá.  Þrem mínútum síðar fengu svo Chelsea menn aukaspyrnu úti vinstra megin, Willian sendi boltann fyrir en aftur var Chelsea maður dæmdur rangstæður en hættan var svosem engin því Mignolet greip skalla frá Luiz örugglega.

Mínútu síðar kom glæsilegasta mark kvöldsins.  Innkast var tekið vinstra megin og boltanum kastað inná vítateiginn þar sem varnarmaður Chelsea hreinsaði frá.  Boltinn barst beint til Jordan Henderson sem var vel fyrir utan teiginn vinstra megin.  Hann hugsaði sig ekki lengi um, tók við boltanum og þrumaði að marki.  Skotið var hnitmiðað og boltinn hafnaði efst í fjærhorninu, gersamlega óverjandi fyrir Courtois í markinu.  Staðan því orðin 0-2 og heimamenn í Chelsea hreinlega yfirspilaðir það sem af var leiknum.  Fátt markvert gerðist eftir þetta í fyrri hálfleik.


Engin breyting var gerð á liðunum í hálfleik en heimamenn höfðu sennilega fengið góða ræðu frá Antonio Conte í hléinu og þeir mættu grimmari til leiks.  Þeir voru virkari í pressu sinni hátt uppi á vellinum en sköpuðu sér svosem engin hætuleg færi uppúr þeirri pressu.  Sadio Mané gerði vel í varnarvinnu á 56. mínútu þegar hann stöðvaði líklegt skot frá Eden Hazard í vítateignum, heimamenn héldu áfram sókn sinni og Ivanovic hugðist leika inná teiginn á hægri kanti framhjá Milner en báðir féllu við og boltinn fór aftur fyrir endamörk og markspyrna dæmd.  Ivanovic var ekki sáttur og taldi vera brotið á sér, hann hafði kannski eitthvað til síns máls en dómarinn var ekkert að hlusta á það.  Fjórum mínútum síðar minnkaði svo Diego Costa muninn eftir að Matic fékk sendingu inná teiginn vinstra megin, hann lék uppað endamörkum og náði að koma boltanum fyrir markið.  Costa lúrði á markteig og skoraði nokkuð auðveldlega.  Þarna var nóg eftir og flestir bjuggust við mikilli pressu frá Chelsea núna.  Costa átti fast skot að marki frá vítateigslínu skömmu síðar en sem betur fer var skotið beint á Mignolet í markinu.

Þar með eru helstu færi Chelsea manna upptalin en þeir náðu ekki að ógna markinu mikið eftir þetta.  Á 57. mínútu kom Divock Origi inná fyrir Daniel Sturridge, margir héldu að Sturridge væri eitthvað meiddur en sú var ekki raunin.  Liverpool fengu aukaspyrnu á vinstri kanti á 69. mínútu og Milner sendi boltann fyrir.  Sendingin var góð en Ivanovic skallaði boltann aftur fyrir endamörk, hefði hann ekki náð til boltans hefði hann sennilega endað í markinu.  Á 78. mínútu fékk Coutinho sendingu inná teiginn frá Clyne og hann þrumaði að marki en Cahill varð fyrir skotinu.  Ef eitthvað var þá voru gestirnir líklegri til að bæta við marki þarna.  Örskömmu síðar fékk Origi frábært skallafæri eftir sendingu frá Milner sem varnarmaður skallaði óvart áfram inná teiginn.  Origi var óvaldaður á fjærstöng og náði góðum skalla en Courtois varði mjög vel.  Þarna hefði Belginn getað gert útum leikinn en landi hans sá til þess að svo varð ekki.

Tveim mínútum fyrir leikslok fengu heimamenn aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn en spyrnan frá Fabregas, sem hafði komið inná sem varamaður var beint í varnarvegginn.  Þrem mínútum var bætt við og lokaflauti dómarans var svo fagnað gríðarlega á varamannabekk gestanna, þrjú stig í húsi á erfiðum útivelli !

Chelsea:  Courtois, Ivanovic, Cahill, Luiz, Azpilicueta, Kante, Matic (Fabregas, 84. mín.), Oscar (Pedro, 84. mín.), Willian (Moses, 84. mín.), Hazard, Costa.  Ónotaðir varamenn:  Begovic, Alonso, Batshuayi, Aina.

Mark Chelsea:  Diego Costa (61. mín.).

Gult spjald:  Willian.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Lovren, Matip, Milner, Wijnaldum (Stewart, 90. mín.), Henderson, Lallana, Coutinho (Lucas, 82. mín.), Mané, Sturridge (Origi, 57. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Karius, Moreno, Grujic, Ejaria.

Mörk Liverpool:  Dejan Lovren (17. mín.) og Jordan Henderson (36. mín.).

Gult spjald:  Lucas.

Áhorfendur á Stamford Bridge:  41.514.

Maður leiksins:  Fyrirliðinn Jordan Henderson var flottur á miðjunni og skoraði flottasta mark leiksins.  Hann virðist vera að komast aftur í sitt besta form og það er gríðarlega mikilvægt fyrir liðið að fá þennan sterka leikmann til baka eftir erfið meiðsli á síðasta tímabili.

Jurgen Klopp:  ,,Þetta var auðvitað ánægjulegur sigur.  Frá fyrstu sekúndu vorum við ótrúlega hreyfanlegir.  Við vorum snöggir að hugsa og gerðum allt vel.  Við verðskulduðum þessa forystu í hálfleik.  Við verðum svo að læra hvernig við stjórnum okkar leikjaplani.  Það hefur oft gerst á þessu tímabili að Chelsea skora í lok leikja og þeir voru mjög beinskeittir á síðustu mínútunum.  En ég man hinsvegar ekki eftir mörgum góðum færum hjá þeim.  Við áttum nokkrar stundir þar sem við vorum ekki alveg nógu góðir en það er eðlilegt gegn svona góðu liði."

,,Við spiluðum knattspyrnu af miklum ákafa.  Það var gaman að horfa á leikinn.  Í seinni hálfleik var þetta aðeins erfiðara en eftir markið þeirra þá stjórnuðum við leiknum vel."

Fróðleikur:

- Jordan Henderson og Dejan Lovren skoruðu sín fyrstu mörk á leiktíðinni.

- Liverpool hefur unnið fimm af síðustu níu leikjum sínum á Stamford Bridge eftir að hafa aðeins náð einum sigri í 16 leikjum þar á undan.

- Síðan Jurgen Klopp tók við hefur ekkert lið skorað fleiri mörk fyrir utan teig en Liverpool, alls 15 talsins sem er fimm mörkum meira en næsta lið.

- Dejan Lovren skoraði sitt fyrsta deildarmark í 64 leikjum en síðast skoraði hann í deildinni fyrir Southampton.

- Liverpool hefur ekki haldið hreinu á útivelli í níu síðustu leikjum en það gerðist síðast árið 2005.

- James Milner spilaði sinn 50. leik fyrir félagið í öllum keppnum og Philippe Coutinho sinn 150. leik sömuleiðis í öllum keppnum.


Hér má sjá myndir úr leiknum.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan