| Grétar Magnússon

Sérstök vika fyrir mig

Ragnar Klavan skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í síðustu viku og lék jafnframt sinn fyrsta leik á Anfield.  Hann segir að þetta hafi verið mjög sérstök vika í sínu lífi.

Fyrsta mark Klavan kom í 0-3 deildarbikarsigri á Derby County í miðri síðustu viku og fjórum dögum síðar var hann í byrjunarliðinu á Anfield í 5-1 sigrinum á Hull City.

,,Þetta var eitthvað sérstakt í mínu lífi enn á ný," sagði Klavan í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.  ,,Að skora mark er alltaf gaman sem varnarmaður og það gerist því kannski ekki svo oft.  Það mátti kannski sjá þetta í því þegar ég fagnaði markinu, fagnið var kannski ekki svo flott !"

,,Eftir deildarbikarleikinn spilaði ég í fyrsta sinn á Anfield og það var alveg stórkostlegt vegna þess að tveim vikum fyrr var ég á varamannabekknum í fyrsta leik liðsins á Anfield (gegn Leicester), ég var með gæsahúð þá.  Að fara svo út á völlinn og spila fyrir þessa stuðningsmenn gerði þetta að enn betri viku."

Sigurinn á Hull var fjórði sigur liðsins í röð og undirstrikar það enn frekar þá góðu tilfinningu sem umlykur allt í kringum Anfield.  Klavan segir að hann hafi strax fundið fyrir þessari tilfinningu þegar hann mætti á sína fyrstu æfingu á undirbúningstímabilinu í sumar og er því vongóður um að tímabilið verði vel heppnað.

,,Þegar ég kom fyrst til æfinga með liðinu í Ameríku á undirbúningstímabilinu mátti strax sjá hvað þjálfararnir vildu og hversu vel gíraðir leikmenn voru í verkefnið.  Maður fékk það á tilfinninguna að við værum að byggja upp eitthvað gott og sterkt."

,,Nýja stúkan er að taka sig mjög vel út á Anfield.  Við höfum bara spilað tvo leiki á heimavelli það sem af er tímabilinu og þeir hafa verið virkilega góðir.  Stuðningsmennirnir hafa verið frábærir og ég vona að þetta haldi áfram út tímabilið."

Næsti leikur liðsins er gegn Swansea City á útivelli í hádeginu á laugardaginn kemur.  Swansea sitja í 17. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fyrstu sex leikina en Klavan telur að stigafjöldinn segi ekki alla söguna um gengi þeirra á tímabilinu.

Hann sagði:  ,,Þeir eru bara með fjögur stig en það sýnir ekki þau gæði sem þeir búa yfir í leikmannahópnum.  Þeir eru með gott lið og spila góða knattspyrnu.  Úrslitin hjá þeim hafa kannski verið svolítið óheppileg fyrir þá en það þýðir ekki að þeir eru með lélegt lið.  Í mínum huga eru þeir með mjög gott lið."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan