| Sf. Gutt

Þrjú stig sótt til Wales

Liverpool sneri tapstöðu í sigur í Wales og kom heim með þrjú stig eftir 1:2 sigur í Swansea. Liverpool komst með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar.

Ein breyting var gerð á liðinu frá stórsigrinum á móti Hull City um síðustu helgi. Dejan Lovren kom inn í liðið og Ragnar Klavan fór á bekkinn.

Stuðningsmenn Liverpool telja almennt að liðið þeirra geti hert harða atlögðu að efstu sætunum í deildinni því liðið er ekki í Evrópukeppni og komi því oft úthvílt til leikja þegar Evrópuleikir eru á dagskrá. Sú var nú aldeilis ekki raunin í Swansea. Heimamenn byrjuðu miklu betur og leikmenn Liverpool voru syfjulegir. Heimamenn fengu tvö færi með stuttu millibili á fyrstu mínútunum og á 8. mínútu tóku þeir forystu. Gylfi Þór Sigurðsson tók hornspyrnu frá vinstri yfir á fjærstöng. Þar var boltinn skallaður til baka fyrir markið og Leroy Fer stýrði boltanum í markið við marklínuna. Ekki var laust við að stuðningsmönnum Liverpool fyndist að byrjun leiksins væri svipuð eins og í Burnley um miðjan ágúst. 

Heimamenn héldu áfram á sömu braut og um miðjan hálfleikinn skallaði  Borja Bastón rétt framhjá eftir aukaspyrnu. Aftur hætta á ferðum eftir fast leikatriði hjá andstæðingum Liverpool. Eftir þetta fór leikur Liverpool heldur batnandi en Swansea leiddi verðskuldað í hálfleik. Liverpool varð fyrir áfalli í hálfleiknum þegar Adam Lallana fór meiddur af velli meiddur í nára. Daniel Stuttidge kom í hans stað. 

Það var allt annað yfirbragð á leik Liverpool strax eftir leikhlé. Nú könnuðust stuðningsmenn liðsins við sína menn. Miklu meiri hraði var á leikmönnum og þeir pressuðu leikmenn Swansea nú við hvert tækifæri og boltinn vannst hvað eftir annað. Eftir níu mínútur í síðari hálfleik var staðan orðin jöfn. Philippe Coutinho tók aukaspyrnu sem fór í varnarvegginn og hrökk út til hægri þar sem Jordan Henderson sendi strax fyrir markið. Sendignin hitti beint á Roberto Firmino og skalli Brasilíumannsins hafnaði í markinu alveg úti við stöng óverjandi. 

Liverpool réði nú lögum og lofum. Á 58. mínútu átti Philippe skot frá vítateignum, eftir gott samspil, sem fór rétt framhjá. Um 11 mínútum seinna náði James Milner boltanum af varnarmanni og braust inn í vítateiginn. Hann kom boltanum á Sadio Mané en varnarmaður komst fyrir skot hans á síðustu stundu.

Þegar sex mínútur voru til leiksloka komst Liverpool yfir. Agel Rangel stjakaði þá klaufalega við Roberto sem féll við og dómarinn dæmdi víti. James Milner sendi boltann í mitt markið þegar hann sá að markmaðurinn henti sér til hægri. Geysilega vel tekið víti og nú var Liverpool komið í kjörstöðu.

Heimamenn voru ekki líklegir til að jafna þar til komið var fram í viðbótartíma. Sending kom inn í vítateiginn. Loris Karius stóð grafkyrr á línunni og boltinn féll fyrir fótum Mike van der Hoorn á markteginum en hann hitti ekki boltann. Algjört dauðafæri en sem betur fer náðist ekki að nýta það.

Liverpool hafði því þrjú stig heim frá Wales og það var magnað að ná sigri í síðasta leik fyrir landsleikjahlé. Áhyggjuefni var að Liverpool byrjaði mjög illa og á móti sterkari mótherja hefði getað farið illa. En hvatningarræða Jürgen Klopp í leikhléinu skilaði því að liðið hafði hamskipti og vann!     

Swansea City: Fabianski, Rangel, Amat, Van der Hoorn, Naughton, Britton (Ki 63. mín.), Routledge (Barrow 62. mín.), Fer (Fulton 72. mín.), Cork, Gylfi Þór og Borja. Ónotaðir varamenn: Nordfeldt, Taylor, Mawson og McBurnie

Mark Swansea: Leroy Fer (8. mín.).

Gult spjald: Jack Cork. 

Liverpool: Karius, Clyne, Matip, Lovren, Milner, Henderson, Lallana (Sturridge 23. mín.), Wijnaldum (Can 85. mín.), Mane, Coutinho og Firmino (Origi 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Klavan, Moreno og Leiva.

Mörk Liverpool: Roberto Firmino (54. mín.) og James Milner, víti, (84. mín.).

Gul spjöld: Jordan Henderson og Daniel Sturridge.

Áhorfendur á Liberty leikvanginum: 20.862.

Maður leiksins: Jordan Henderson. Fyrirliðinn var kannski ekki endilega besti leikmaðurinn á vellinum en hann dreif liðið sitt áfram þegar það var ekki að spila vel í fyrri hálfleik. 

Jürgen Klopp: Mér fannst við verðskulda sigurinn þó svo að ef Swansea hefði jafnað á lokamínútunni úr færinu sem þeir fengu þá hefði það verið okkur að kenna og þeir átt stig skilið. En við vorum betri allan síðari hálfleikinn og þess vegna verðskulduðum við að vinna. 

Fróðleikur.

- Roberto Firmino og James Milner skoruðu báðir í annað sinn á leiktíðinni. 

- Þetta er í annað sinn sem James skorar sigurmark Liverpool úr víti á móti Swansea. Á síðustu leiktíð gerði hann það á Anfield í 1:0 sigri.

- Í fyrsta sinn á valdatíð Jürgen Klopp vann Liverpool fjóra deildarleiki í röð. 

- Sigurinn var sá fimmti í röð í öllum keppnum hjá Liverpool.

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Jürgen Klopp af vefsíðu BBC.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan