| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool ferðast til höfuðborgarinnar á morgun og mætir lærisveinum Alan Pardew í Crystal Palace á Selhurst Park. 

Það hefur gengið vel hjá Liverpool undanfarið. Liðið er á góðri siglingu, er ósigrað í 7 leikjum í röð í deildinni og í bullandi toppbaráttu. Það er hinsvegar full ástæða til þess að hafa áhyggjur af leik morgundagsins því Crystal Palace á það alveg til að vera bananahýði fyrir okkar menn, enda hefur Tony Pulis stjórnað liðinu. 

Liverpool sigraði Crystal Palace 2-1 á Anfield s.l. vor, en tapaði 2-1 á Selhurst Park. Tímabilið þar á undan vann Crystal Palace báða leikina 3-1 og við munum öll eftir leiknum á "næstum því" leiktíðinni 2013-2014 þegar Palace náði að snúa gjörtöpuðum leik í 3-3 jafntefli á 15 ömurlegum mínútum. Þannig að það hefur ekkert alltaf verið gaman að mæta Crystal Palace á síðustu árum. 

Það er athyglisvert, þegar rýnt er í tölfræðina að Crystal Palace vinnur ekki leik nema Jason Puncheon sé í liðinu, þannig hefur það verið frá því að hann kom til félagsins árið 2013. Puncheon hefur verið meiddur en Alan Pardew er með allt sjúkrastaffið á tvöföldum vöktum til að koma honum í stand fyrir morgundaginn. Skiljanlega. 

Christian Benteke er í herbúðum Palace og fer vel af stað. Hann hefur skorað 3 mörk í 7 leikjum með félaginu, en brenndi reyndar af víti gegn Leicester um daginn. Spilið hjá Palace gengur líka töluvert út á það að dæla fyrirgjöfum inn í teig utan af kanti, sem hentar Belganum vel. Liðið er með öfluga kantmenn og sterka skallamenn, blanda sem hefur oft reynst eitruð fyrir Liverpool liðið. Sex af tólf mörkum Palace á leiktíðinni hafa verið skoruð með skalla.

Það er slatti af fínum leikmönnum í þessu Palace liði. Wilfried Zaha, sem eitt sinn var kallaður nýi Ronaldo er til að mynda á kantinum og hann er einn af þessum leikmönnum sem geta átt stórkostlega leiki inn á milli og sólað heilu og hálfu liðin upp úr skónum. Andros Townsend er á hinum kantinum og hann kann alveg fótbolta líka. Fyrrnefndur Puncheon er öflugur og svo er Scott Dann betri en enginn á miðjunni - og auðvitað Benteke frammi. Okkar fyrrum leikmaður Martin Kelly hefur síðan verið í vinstri bakverðinum í síðustu leikjum, en hann telst nú seint með betri mönnum á fótboltavelli. 

Eins og áður segir er gott skrið á okkar mönnum. Liðið vann góðan sigur á WBA um síðustu helgi og svo gerði varaliðið vel að leggja varalið Tottenham að velli á þriðjudaginn. Sóknarleikurinn hefur verið góður og Klopp glímir við hálfgert lúxusvandamál að hafa Daniel Sturridge sjóðheitan eftir 2 mörk gegn Tottenham. Það að hvorki Sturridge né Origi komist í liðið þessa dagana segir töluvert um ástandið fram á við.

Ég reikna ekki með miklum breytingum á liðinu frá því sem verið hefur að undanförnu, ef Tottenham leikurinn er undanskilinn. Karius fer aftur í markið og vörnin helst óbreytt. Lallana hlýtur að byrja, líklega ásamt Henderson og Can og Firmino, Mané og Coutinho verða frammi. Þess má geta að Mané hefur kunnað ágætlega við að leika gegn C.Palace, en þegar hann var hjá Southampton skoraði hann 3 mörk og átti 2 stoðsendingar í 5 leikjum gegn Palace.

Ég er leiðinlega svartsýnn fyrir morgundaginn og reikna með 2-2 jafntefli. Mörkin frá Palace koma bæði með skalla eftir föst leikatriði. Vonandi hef ég rangt fyrir mér. 

YNWA!

 



 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan