| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Á mánudaginn fer fyrri baráttan um Bítlaborgina í deildinni á þessari leiktíð fram, en þá kíkir Liverpool yfir á Goodison Park og tekst á við nágranna sína í Everton. 

Viðureignir þessara liða skipa sérstakan sess hjá öllum Liverpool stuðningsmönnum, enda rígurinn milli liðanna ávallt mjög mikill þótt það sé kannski ekki lengur hægt að tala um Everton sem erkifjendur Liverpool. Einhvernveginn hefur Manchester United tekist að eigna sér þá nafnbót alveg skuldlaust. Ég held að flestum okkar þyki heldur vænna um Everton en Man. U, (ef hægt er að tala um væntumþykju í sömu andrá og þessi tvö félög) en auðvitað viljum við helst af öllu að báðum liðunum gangi hörmulega. 

Leikurinn á mánudaginn verður 227. viðureign Liverpool og Everton og ef við lítum einungis á síðustu 99 viðureignir liðanna í deildakeppni þá hefur það aðeins gerst tvisvar sinnum að Everton hafi náð að skora fleiri en tvö mörk. Það var árið 2006 þegar Everton vann Liverpool á Goodison 3-0 og svo 2013 (líka á Goodison) þegar liðin skildu jöfn 3-3. 
Þetta verður fyrsta heimsókn Jürgen Klopp á Goodison Park. Það var eftir fyrri borgarslaginn á síðustu leiktíð sem Brendan Rodgers var látinn taka pokann sinn og kallað var á Klopp. Í seinni umferðinni kjöldró Liverpool síðan Everton 4-0 á Anfield. 

Sé litið á síðustu 33 viðureignir liðanna í Úrvalsdeild þá hefur Liverpool aðeins tapað þrisvar sinnum. Síðasti sigur Everton kom í október 2010. Það er athyglisvert að frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð hefur Everton sigrað borgarslaginn 9 sinnum og þessir sigurleikir eiga það sameiginlegt að þeir hafa allir farið fram í fyrri umferðinni, þannig að það verður að segjast að tölfræðin er svolítið leiðinleg að þessu leyti fyrir leik morgundagsins. 

Þá má einnig tína það til að Liverpool hefur ekki gengið allt of vel á Goodison Park undanfarin ár. Síðasti sigurleikur okkar manna þar kom 2011 þegar Kenny Dalglish stjórnaði Liverpool í 1-2 sigri þar sem Suarez og Carroll skoruðu. Síðan þá hafa allir leikir liðanna á Goodison endað með jafntefli. Ef við lítum nánar á söguna þá hafa liðin alls mæst 97 sinnum á Goodison og Everton hefur vinninginn, enn sem komið er. Everton hefur unnið 34 leiki, Liverpool 32 og 31 hefur endað með jafntefli. Ef aðeins er litið til áranna í Úrvalsdeild þá er Everton með 9 sigra á Goodison, Liverpool 7 og 8 hafa endað með jafntefli.  

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í Everton liðið, en það er auðvitað klárt að það mun gefa allt í leikinn á morgun. Sé borgarslagurinn stór í augum Liverpool manna er hann mun stærri í augum Everton manna. Það er alltaf efst á óskalistanum hjá Everton að leggja stóra bróður að velli.

Everton byrjaði tímabilið með látum og var í toppbaráttu fyrstu vikurnar en gengið hefur verið dálítið upp og niður að undanförnu. Við verðum reyndar að þakka þeim fyrir magnaðan sigur á Arsenal í síðustu umferð, en vonandi gefur sá sigur engin fyrirheit um gengi liðsins á morgun. 

Ronald Koeman er stjóri Everton og hann er að gera fína hluti með liðið. Hópurinn hjá Everton er ekki sá sterkasti í deildinni en inn á milli eru fínir leikmenn sem geta gert okkar mönnum skráveifu á morgun ef þeir detta í gírinn. 

En að okkar liði. Tímabilið hefur að mestu verið mjög gott hjá Liverpool. Örlítið hikst og meiðslavandræði upp á síðkastið en sigurinn á Boro í vikunni lofaði góðu. Vonandi er liðið búið að hrista af sér slenið frá Bournemouth og West Ham. 

Mignolet er kominn aftur í markið og stóð sig vel á miðvikudaginn. Hann virkaði mjög einbeittur og er greinilega staðráðinn í að halda Karius á bekknum sem lengst. Við sjáum hvað setur með það, en vonum allavega að markvarslan fara að verða í lagi og kosti okkur ekki mörg stig það sem eftir er. 

Matip er tæpur og verður líklega ekki með á morgun. Það þýðir að Lovren og Klavan verða væntanlega í miðju varnarinnar. Klavan hefur verið ágætur í síðustu leikjum og allt annað að sjá til hans en í fyrstu leikjunum í haust. Milner og Clyne verða örugglega á sínum stað og líklega flestir þeir leikmenn sem byrjuðu síðasta leik. 

Ég trúi og ég vona. Ég vona að Jürgen Klopp verði áfram með 100% sigurhlutfall á móti Everton. Ég trúi því líka að liðið sé að finna taktinn aftur eftir höktið gegn Bournemouth og West Ham. Ég spái 3-1 sigri og mörkin koma frá Milner, Wijnaldum og Firmino.
 
YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan