| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool ferðast á morgun til hafnarborgarinnar Plymouth á suðvestur strönd Englands, til að etja kappi við heimamenn í FA bikarnum. Sæti í 4. umferð er í húfi. 

Plymouth Argyle leikur í League 2, sem er fjórða deildin á Englandi. Flestir áttu því von á því að liðið yrði auðveld bráð fyrir Liverpool þegar liðin drógust saman í 3. umferð FA bikarsins. En annað kom á daginn, Plymouth gerði afskaplega góða ferð á Anfield og dreymir nú um að slá okkar menn út á heimavelli sínum, Home Park, annað kvöld.

Það er í sjálfu sér ekkert óskaplega margt að segja um þennan leik á morgun. Plymouth er augljóslega talsvert verra lið en Liverpool og átti í rauninni ekki neitt í leiknum á Anfield, en færanýting okkar manna var nógu léleg til að tryggja Plymouth annan leik. 

Það er alveg pottþétt að Klopp mun hvíla flesta ef ekki alla byrjunarliðsmenn á morgun, enda er áherslan varla mjög mikil á FA bikarinn. Í það minnsta er örugglega meiri áhersla lögð á deildina í herbúðum Liverpool. 

Loris Karius verður væntanlega í markinu á morgun. Hann hefur spilað undanfarna bikarleiki og staðið sig ágætlega. Kannski er samkeppnin um markvarðarstöðuna loksins að skila einhverjum árangri. Hinn ungi Trent Alexander-Arnold fékk aldeilis eldskírn á Old Trafford um helgina. Það er ekki ólíklegt að hann verði aftur í byrjunarliðinu á morgun því síðustu fregnir herma að Clyne verði orðinn klár fyrir leikinn gegn Swansea og þessvegna er engin ástæða til að hvíla strákinn. 

Joe Gomez verður að öllum líkindum í byrjunarliðinu, en hann er óðum að komast á skrið eftir erfið meiðsli. Það er óskandi að hann nái fyrri styrk, gríðarlega efnilegur strákur. Lucas verður held ég ekki tilbúinn á morgun, sem þýðir að líklega þarf Klopp að fórna annaðhvort Klavan eða Lovren í þennan leik. Vonandi verður ruglið í kringum Matip komið á hreint fyrir helgi þannig að hægt verði að stilla upp óþreyttri vörn um helgina. Hafandi sagt það reikna ég að sjálfsögðu með því að Moreno leysi Milner af hólmi í Plymouth. Eins gott að hann nýti sjénsinn betur en í síðasta leik.

Ég verð að viðurkenna að mér er nokkuð sama hvort við komumst áfram í FA bikarnum, fyrir mér er gott sæti í deildinni markmið númer 1, 2 og 3 í vetur. Það er hinsvegar alveg klárt að ekkert annað en sigur á morgun er ásættanlegt. Jafnvel þótt Klopp stilli upp algjöru varaliði. Gæðin í leikmannahópi Liverpool eiga einfaldlega að vera nægileg til þess að leggja fjórðu deildarlið að velli. Það er svo einfalt.

YNWA! 

Fróðleikur:

-Þetta verður í 11. sinn sem Plymouth tekst að ná fram endurteknum leik í FA bikarnum gegn liði úr efstu deild. Hingað til hefur liðinu þó aldrei tekist að slá neina stórlaxa úr keppninni. 

-Að sama skapi hefur Liverpool aldrei tapað fyrir liði úr fjórðu deild eða neðar í FA bikarnum, þannig að sagan er svo sannarlega með okkur í liði. Eins og oft áður. 



  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan