| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Sem fyrr eru lánsmenn félagsins að spila reglulega með lánsliðum sínum í neðri deildum Englands sem og á meginlandi Evrópu. Það er kominn tími til að fara yfir gengi þeirra undanfarið.

Vængmaðurinn Ryan Kent spilar með Barnsley í næst efstu deild og í liðinni viku tók hann þátt í tveim leikjum með liðinu.  Í fyrra skiptið var það endurtekinn leikur í FA bikarnum gegn Blackpool sem eru í League Two.  Barnsley töpuðu leiknum 2-1 og spilaði Kent í 76 mínútur og átti erfitt uppdráttar eins í raun allir liðsfélagar sínir í þeim leik.

Um helgina var svo nágrannaslagur við Leeds í deildinni þar sem góður 3-2 sigur vannst og Kent spilaði mjög vel.  Hann spilaði sem fyrr á vinstri kanti og skoraði mjög flott mark sem kom Barnsley í 2-1 forystu.  Kent fékk boltann frá hægri og sneri baki í markið, hann var fljótur að snúa sér við og þruma boltanum efst í markhornið.  

Góður sigur hjá Kent og félögum kom þeim í 8. sæti deildarinnar með 41 stig og liðið er enn í baráttu um að komast í umspil um laust sæti í Úrvalsdeildinni.

Við höldum áfram í næst efstu deild Englands þar sem Danny Ward hélt markinu hreinu í 2-0 sigri Huddersfield á Ipswich.  Ward hafði lítið að gera í markinu í leiknum en greip þó vel inní á köflum þegar á þurfti að halda.  Huddersfield sitja í 3. sæti deildarinnar með 49 stig og eru í harðri baráttu um að halda sér í umspilssæti.  Efstu tvö lið deildarinnar, Newcastle og Brighton virðast vera að stinga af en þau eru með 58 og 57 stig þegar þetta er skrifað.

Í deildinni þar fyrir neðan, League One eða þriðju efstu deild Englands hélt markvörðurinn Ryan Fulton einnig markinu hreinu í markalausu jafntefli Chesterfield við Wimbledon.  Fulton stóð sig vel í leik sem þótti ekki mikið fyrir augað en hann hafði meira að gera en markvörður Wimbledon samkvæmt fréttum.  Chesterfield sitja í 22. sæti deildarinnar sem er fallsæti en baráttan er hörð og ekki þarf mikið til að þeir lyfti sér upp í örugg sæti.

Í sömu deild spilaði varnarmaðurinn Lloyd Jones með Swindon sem tapaði 1-0 fyrir Peterborough, Jones spilaði allan leikinn og þótti standa sig vel þrátt fyrir tapið.  Swindon sitja í 19. sæti deildarinnar og eru líkt og Chesterfield í fallbaráttu en sitja þó ekki í fallsæti sem stendur.

Jon Flanagan hefur ekki mikið verið að spila með Burnley það sem af er tímabilinu en hann lék þó allan leikinn í endurteknum leik gegn Sunderland í FA bikarnum í síðustu viku.  Hann spilaði sem vinstri bakvörður og líklega má segja að þetta hafi verið hans besti leikur fyrir Burnley á tímabilinu en liðið vann öruggan 2-0 sigur.  Hann hélt þó ekki sæti sínu í liðinu um helgina og sat á varamannabekknum þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Arsenal á útivelli.

Pedro Chirivella er nýjasti lánsmaður félagsins en hann gekk til liðs við Go Ahead Eagles fyrr í þessum mánuði.  Hann hefur strax látið til sín taka því hann skoraði mark í miklum fallbaráttuslag gegn Excelsior en leikurinn endaði 1-1.  Fyrsti leikur hans með liðinu þar á undan endaði hinsvegar ekki vel þar sem liðið tapaði 3-1 fyrir AZ Alkmaar.  

Chirivella og félagar sitja í næst neðsta sæti hollensku úrvalsdeildarinnar með 13 stig og þurfa nauðsynlega á fleiri stigum að halda í næstum leikjum ætli liðið að halda sér uppi.

Taiwo Awoniyi spilar einnig í hollensku deildinni en hann sat á bekknum annan leikinn í röð og kom ekki við sögu þegar NEC Nijmegen unnu Roda JC 2-0.  NEC eru í 9. sæti deildarinnar og sigla þar lygnan sjó.

Brasilíumaðurinn Allan Rodrigues er svo sem fyrr á mála hjá Hertha Berlin í þýsku deildinni en þar hefur hann ekki spilað undanfarið því hann er í brasilíska U-20 ára landsliðshópnum sem spilar nú á Suður-Ameríkumótinu í knattspyrnu.

Andre Wisdom er í Austurríki hjá Red Bull Salzburg en þar er ennþá vetrarhlé og varnarmaðurinn því enn í fríi.

Að lokum eru það svo fréttir af Lazar Markovic en hann hefur ekki átt góðu gengi að fagna með Sporting Lissabon og nú berast af því fréttir að liðið vilji losa sig við hann í mánuðinum og þar er helst rætt um að Hull City vilji fá hann til sín á láni.  Við sjáum til hvað gerist í þeim málum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan