| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er ekki bjart yfir okkur Liverpool mönnum þessa dagana og eftir þrjá tapleiki í röð á heimavelli er komið að fjórða leiknum þar sem topplið Chelsea mætir í heimsókn.  Leikurinn fer fram þriðjudagskvöldið 31. janúar og hefst kl. 20:00.

Það er klárlega mikið undir á Anfield í þessum leik og ef liðið ætlar að halda sér áfram í baráttunni um topp fjögur sætin í deildinni má það illa við því að tapa leiknum.  Chelsea eru á mikilli siglingu eins og allir vita og eru með 8 stiga forystu á toppnum og 10 stiga forystu á Liverpool.  Þeir hafa þó tapað jafnmörgum leikjum og Liverpool til þessa, eða þremur leikjum, en munurinn á milli liðanna liggur í því að okkar menn hafa gert 6 jafntefli á meðan Chelsea hafa bara gert eitt.  Eins og áður sagði eru Chelesa á toppnum með 55 stig eftir 22 leiki á meðan okkar menn sitja í 4. sæti með 45 stig.

Sadio Mané snýr aftur í liðið eftir að hafa lokið keppni á Afríkumótinu um helgina þar sem hann skoraði ekki úr síðustu vítaspyrnu Senegal gegn Kamerún á meðan Kamerúnar nýttu allar sínar spyrnur.  Það er auðvitað alltsaman gott og blessað en einhver ferðaþreyta hlýtur að vera í kappanum og ekki er búist við því að hann byrji leikinn heldur setjist á bekkinn.   Jurgen Klopp sagði svo á blaðamannafundi fyrr í dag að Adam Lallana er klár í slaginn en Nathaniel Clyne verður líklega ekki með þar sem hann hefur ekki hafið æfingar að fullu eftir meiðsli og þá eru þeir Ovie Ejaria, Marko Grujic og Danny Ings enn meiddir.  Það er svo skemmst frá því að segja að Chelsea menn glíma ekki við nein einustu meiðsli þessa stundina og hvíldu marga af sínum bestu mönnum um helgina í bikarleik sem vannst auðveldlega.

Það er orðið ansi langt síðan að sigur vannst á Chelsea á Anfield en síðast gerðist það 8. maí árið 2012 með góðum 4-1 sigri.  Var þetta fyrsti leikur liðanna eftir bikarúrslitin helgina á undan þar sem Chelsea báru sigurorð af Liverpool 2-1.  Okkar menn hefndu þar með fyrir tapið í þessum leik þó svo að engin bikar hafi nú verið í boði.  Þeir sem skoruðu mörkin voru Jordan Henderson, Daniel Agger og Jonjo Shelvey en fyrsta mark Liverpool var sjálfsmark Michael Essien.  Síðan þá hafa liðin mæst fjórum sinnum á Anfield og þar hafa Chelsea sigrað tvo leiki og tveir hafa endað með jafntefli.  Á síðasta tímabili gerðu liðin 1-1 jafntefli þar sem allt stefndi í sigur gestanna eftir að Eden Hazard kom þeim yfir í fyrri hálfleik en Christian Benteke jafnaði metin nánast með síðustu snertingu leiksins.  Það er því fyrir lifandis löngu kominn tími til að sigra þetta Chelsea lið á Anfield.

Það er virkilega erfitt að spá í þennan leik, það hlýtur nú að fara að styttast í eitthvað annað en tap hjá Liverpool en það þarf þó að hafa það í huga að liðið virðist vera gersamlega laust við alla sköpunargleði já og bara leikgleði almennt.  Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar toppliðið mætir í heimsókn og Antonio Conte, stjóri Chelsea, hlýtur að horfa til þess að spila þéttan varnarleik og beita skyndisóknum og það þarf ekkert að fjölyrða hvað það verður erfitt að brjóta þetta Chelsea lið á bak aftur þegar lið eins og Plymouth hafa mætt á Anfield og haldið hreinu.  Skyndisóknir gestanna með Eden Hazard fremstan í flokki hlýtur að vera eitthvað sem Conte horfir til.  Hvað Jurgen Klopp gerir skal ósagt látið en hann verður vonandi með eitthvað óvænt í pokahorninu sem gæti nýst okkar mönnum.  Það er ljóst að allur leikur liðsins þarf að vera hraðari og ekki mun þýða að dæla boltum inní teig eins og í undanförnum leikjum gegn hávöxnum varnarmúr gestanna.

Maður heldur helst í vonina um að liðið haldi áfram að spila vel í stórleikjum undir stjórn Klopp en þar hefur Þjóðverjinn gert vel til þessa.  Reyndar væri það ansi týpískt að liðið geri vel gegn Chelsea en hrynji svo í næsta leik sem er gegn Hull á útivelli.  En tökum bara einn leik í einu og einbeitum okkur að næsta verkefni.  Spáin er sú að þessu sinni að taphrinunni verður slegið á frest en við fáum þó ekki að upplifa sigurtilfinninguna alveg strax og jafntefli verður niðurstaðan.  Eigum við ekki að segja að lokatölur verði 1-1 þar sem okkar menn komast yfir en gestirnir jafna fljótt.  Eftir það reyna okkar menn allt hvað þeir geta til að skora sigurmarkið en gestirnir verða sáttir með stigið.

Fróðleikur:

- Þeir Roberto Firmino og Sadio Mané eru markahæstir leikmanna liðsins á tímabilinu með 9 mörk hvor.

- Öll mörk Mané hafa komið í deildinni á meðan Firmino hefur skorað eitt í deildarbikarnum.

- Divock Origi hefur komið við sögu í flestum leikjum liðsins á tímabilinu til þessa eða alls í 28 leikjum.

- James Milner mun væntanlega spila sinn 70. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Dejan Lovren spilar sömuleiðis væntanlega sinn 70. deildarleik fyrir félagið og jafnframt sinn 100. í öllum keppnum.

- Diego Costa er markahæstur Chelsea manna á tímabilinu með 15 mörk í deildinni og hann er jafnframt markahæstur í deildinni ásamt Alexis Sanchéz.

- Liverpool hafa skorað 51 mark í deildinni til þessa en Chelsea 47.

- Liverpool hafa fengið á sig 27 mörk á meðan Chelsea hafa fengið liða fæst mörk á sig til þessa eða alls 15.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan