| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v Tottenham Hotspur

Margir töldu kannski að slæmt gengi Liverpool væri á enda um leið og sá mánuður rann sitt skeið. En fyrsti leikurinn í febrúar tapaðist og enn er það mörgum hreinast ráðgáta hvernig liðið hefur hrunið á þessum rúma mánuði sem liðinn er frá því að Liverpool vann Manchester City á gamlársdag. En hvað gerðist eftir þann leik?


Sparkspekingar eru búnir að liggja yfir því og skrifa endalaust um hvað hafi farið úrskeiðis hjá Jürgen Klopp en það er ekki gott að segja hvaða ástæður eru helstar fyrir því hvers vegna liðið hefur ekki unnið deildarleik á árinu og fallið úr báðum bikarkeppnunum. Liverpool er sannarlega ennþá með í baráttunni um fjögur efstu sætin í deildinni en það er ömurlegt að vera ekki að bíða eftir úrslitaleik í Deildarbikarnum og vera ekkert meira með í FA bikarnum. En svona er staðan og ekkert breytir henni!


Það er að æra óstöðugan að fara enn einu sinni í gegnum líklegar ástæður fyrir því hvers vegna liðið er búið að spila svona illa síðustu vikurnar. En aðalástæðan er sú að lykilmenn hafa ekki verið að spila vel. Til að liðið snúi blaðinu við þurfa menn að fara að spila vel á nýjan leik. En hvernig komast menn á borð við Philippe Coutinho aftur í gang? Það er hlutverk Jürgen Klopp að blása mönnum baráttuanda í brjóst og fá þá til að öðlast trú á málstaðinn á nýjan leik því menn virðast rúnir sjálfstrausti. Hann getur það og vonandi hafa skammir hans eftir leikinn í Hull haft sitt að segja.



Liðið lék prýðilega á móti Chelsea en svo kom skellurinn gegn Hull. Reyndar endurspegla þessir tveir leikir svolítið hvernig Liverpool hefur spilað á leiktíðinni. Liðið hefur nefnilega náð prýðilegum árangri á móti bestu liðunum en gefið frá sér alltof mörg stig á móti liðunum í neðri hluta deildarinnar.

Það er því kannski góð von til þess að Liverpool spili vel á morgun því mótherjinn er eitt af bestu liðunum. Tottenham Hotspur hefur mjög góðu liði á skipa og stefnir á að ná einu af fjórum efstu sætunum. Spurs voru talsvert á eftir Liverpool en nú þarf Liverpool að passa sig að missa Hanana ekki of langt frá sér. Með sigri verður Liverpool einu stigi á eftir en fari allt á versta veg munar sjö stigum. Það má ekki gerast!


Ég spái því að fyrsti deildarsigur Liverpool á þessu Herrans ári komi á morgun. Það segir sig sjálft að það styttist í næsta sigur! Liverpool vinnur 2:1. Sadio Mané og Philippe Coutinho skora mörkin. Þetta hlýtur að fara að koma!

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan