| Sf. Gutt

Sadio ánægður með æfingarbúðirnar



Sadio Mané er ánægður með æfingabúðirnar á Spáni. Hann vonast til að þar hafi verið lagður grunnur að góðum endaspretti í deildinni sem geti skilað góðri niðurstöðu í vor. Senegalinn hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.com.

,,Allt gekk mjög vel. Við skemmtum okkur. En við lögðum mjög hart að okkur, æfðum saman og við spiluðum líka vináttuleik okkar á milli. Veðrið var ekki eins og best var á kosið en heldur betra en hér. Það var gott að fá liðið aftur saman því við fengum frí eftir leikinn á móti Tottenham. Við deildum herbergjum og eyddum tíma saman svo við náðum að kynnast utan vallar auk þess að æfa."


Næsta verkefni Liverpool er að spila við Englandsmeistara Leicester City á mánudagskvöldið. Sadio segir að síðustu vikur hafi verið erfiðar en vonar að liðið hafi snúið gengi sínu til betri vegar með sigrinum á Tottenham.

,,Síðustu vikur hafa verið býsna erfiðar af augljósum ástæðum. En við héldum alltaf áfram vinnunni okkar og það var mikilvægt. Á móti Tottenham fundum við fjölina okkar og hvernig við spiluðum gefur okkur trú á að við séum aftur komnir í okkar fyrra form. Núna verðum við að halda áfram á sömu braut og sýna sama viðhorf þegar við mætum Leicester."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan