| Grétar Magnússon

Æfingasvæði félagsins flytur

Fréttir bárust af því í gær að Liverpool FC hyggst flytja æfingasvæði sitt frá Melwood og byggja nýtt æfingasvæði í hæsta klassa þar sem Akademía félagsins er nú til húsa í Kirkby.  Um er að ræða verkefni sem kostar um það bil 50 milljónir punda.

Staðarblaðið Liverpool Echo flutti fréttir af málinu og birtu í gær ágæta frétt sem útskýrir málið vel fyrir okkur stuðningsmönnunum.

Jurgen Klopp hefur talað um það nánast frá komu sinni til félagsins að hann vill sameina Melwood æfingasvæðið þar sem aðalliðið æfir daglega og Kirkby æfingasvæðið þar sem Akademía félagsins er staðsett.  Í október bárust fréttir af því að Liverpool væri farið að skoða aðra möguleika en Melwood þegar eigendur félagsins virtust vera komnir á sömu blaðsíðu og Klopp í þessum málum.


Félagið hefur staðið í samningaviðræðum síðustu mánuði við Knowsley Metropolitan Borough Council um umfang verkefnisins og fjármögnun og nú virðist sem svo að samkomulag hafi náðst.  Félagið mun kaupa 14 ekrur af landi í Simonswood Playing Fields (sjá mynd) til þess að stækka núverandi svæði sem Akademían er með til umráða og þar með verður heildarstærð svæðisins um 60 ekrur eða rúmlega 24 hektarar.  Teikningar hafa verið lagðar fram af sama arkitekta fyrirtæki og hannaði nýju stúkuna á Anfield.

Núverandi byggingar á svæði Akademíunnar munu standa en verða teknar algjörlega í gegn og æfingaaðstaða fyrir aðallið félagsins verður byggð frá grunni ekki langt frá.  Meðal annars verður byggður nýr gervigrasvöllur, sundlaug með öllum helstu nútíma þægindum, æfingasalur og eins og gefur að skilja verður sérstaklega byggð endurhæfingaaðstaða fyrir þá leikmenn sem eru að glíma við meiðsli.

Félagið mun leitast eftir því að selja Melwood æfingasvæðið og er það mikilvægur hluti af fjármögnun verkefnisins.  Það ætti ekki að reynast mjög erfitt þar sem svæðið er mjög vinsælt.  Árið 2007 fluttu Everton æfingasvæði sitt um set í Liverpool borg og þá seldu þeir sitt gamla æfingasvæði.

Næstu skref í málinu eru þau að íbúar í Kirkby og Melwood fá bréf þar sem þeir munu geta kynnt sér betur áætlanir félagsins.  Væntanlega fer eitthvað athugasemdaferli í gang í kjölfarið og ætti því að vera lokið í marsmánuði ef ekkert óvænt kemur uppá.  Áætlanir um skipulag svæðiðins verða lagðar fram á næstu mánuðum og ef þær fá grænt ljós munu framkvæmdir hefjast í ársbyrjun 2018.  Ekki er búið að semja við neinn byggingarverktaka á þessu stigi málsins.

En gæti eitthvað óvænt komið uppá ?  Það veltur auðvitað á því eins og áður sagði hvað gerist í athugasemdaferlinu og þá aðallega frá íbúum Kirkby svæðisins.  Þar sem félagið er að kaupa upp landsvæði sem er að einhverjum hluta útivistarsvæði í dag gæti verið að einhver mótmæli munu koma fram en félagið hefur þó góða trú á því að til þess komi ekki.  Félagið kynnti breytingar á Anfield og byggingu nýju stúkunnar vel fyrir íbúum í kringum leikvanginn og munu útskýra í þaula hvað þetta hefur í för með sér fyrir íbúana.  Samkvæmt því sem hefur komið fram hyggst félagið byggja upp knattspyrnuvelli í kringum Kirkby sem ætlaðir eru fyrir almenning sem og stór bílastæði.  Einnig munu verða lagðir nýir hjóla- og göngustígar á svæðinu.

Ef allt gengur svo að óskum mun framkvæmdum verða lokið árið 2019 og leikmenn félagsins munu þá halda til æfinga á glænýju æfingasvæði á undirbúningstímabilinu sumarið 2019 og búa sig undir komandi átök fyrir tímabilið 2019-2020.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan