| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Eftir ömurlegt tap fyrir Leicester í síðasta leik mæta okkar menn Arsenal á Anfield laugardaginn 4. mars og hefjast leikar klukkan 17:30.

Það er ekkert grín að vera stuðningsmaður okkar ágæta félags það sem af er ári og úrslitin hafa verið oftast nær hörmuleg.  Það hefur þó tekist að mæta almennilega til leiks þegar lið í efri hluta deildarinnar eru á dagskrá og vonandi verður það staðan á morgun.  Arsenal sitja í 4. sæti deildarinnar fyrir þennan leik með 50 stig, stigi meira en Liverpool og eiga auk þess leik til góða.  Það væri því afskaplega slæmt að tapa leiknum á morgun og hleypa þeim fjórum stigum uppfyrir sig sem gæti endað sem sjö stiga munur.  Auk þess anda Manchester United ofaní hálsmálið á Liverpool og þar sem að þeir eiga leik fyrr um daginn er ekki ólíklegt að þeir verði komnir uppfyrir Liverpool í stigatöflunni þegar flautað verður til leiks á Anfield.

Jurgen Klopp hefur sætt þónokkurri gagnrýni að undanförnu og er það svosem ekki að ósekju því honum hefur ekki tekist að finna lausn á þessu stóra vandamáli sem liðið stendur frammi fyrir þegar svokölluð minni lið mæta Liverpool.  En það er ekki við hann einan að sakast og það er alveg hreint ótrúlegt að fylgjast með leikmönnum liðsins mæta gersamlega andlausir til leiks eins og gerðist á  mánudagskvöldið síðasta.  Það er auðvitað týpískt að menn mæti svo í þennan Arsenal leik klárir frá fyrstu mínútu og vinni sína vinnu almennilega en það verður auðvitað að koma í ljós þegar þar að kemur.  Klopp heldur þó áfram að segja að sínir menn læri af þessu öllusaman og vonandi fer það nú að síast inní hausinn á mönnum að það þýðir ekki lengur að bjóða okkur stuðningsmönnum uppá þessa vitleysu sem hefur verið í gangi á árinu 2017.

Það eru ekki góðar fréttir af okkar mönnum þegar kemur að meiðslavandræðum og fyrirliðinn Jordan Henderson verður ekki með gegn Arsenal.  Það vantar mikið á miðjuna þegar hann er ekki með.  Dejan Lovren er tæpur en hann hefur eitthvað æft í vikunni, Daniel Sturridge veiktist heiftarlega í æfingaferðinni á Spáni og í ofanálag meiddist hann svo í mjöðm og verður ekki með.  Sem fyrr eru svo þeir Ovie Ejaria, Marko Grujic, Danny Ings og Adam Bogdan á meiðslalistanum.  Í liði Arsenal er hinsvegar allt í blóma eða því sem næst því þeir Lorent Koscielny og Aaron Ramsey verða með eftir að hafa misst af síðustu leikjum vegna meiðsla.  Mesut Özil veiktist svo í vikunni en fastlega er búist við því að hann verði með.  Það eru því aðeins þeir Elneny og Santi Cazorla sem eru á meiðslalistanum þar á bæ.

Síðustu leikir liðanna á Anfield hafa verið fjörugir og miklir markaleikir.  Í síðustu þrem leikjum liðanna á Anfield hafa verið skoruð alls 16 mörk, síðustu tveir leikir hafa endað með jafntefli 2-2 og 3-3 þar sem okkar menn jöfnuðu seint í leiknum í báðum tilfellum og fyrir þrem árum síðan vannst stórkostlegur 5-1 sigur á Arsenal.  Flestir muna svo eftir opnunarleik tímabilsins í ágúst í fyrra þar sem fínn 3-4 sigur vannst.  Sú staðreynd að bæði lið eru svo frekar slök varnarlega á tímabilinu ætti að gefa góð fyrirheit um mörk í leiknum.  Síðan Úrvalsdeildin var sett á laggirnar hafa liðin mæst 24 sinnum á Anfield, Liverpool hafa unnið tíu leiki, átta hafa endað með jafntefli og sex sinnum hafa Arsenal menn unnið.  Þess ber þó að geta að í síðustu níu leikjum liðanna á Anfield hafa Liverpool aðeins unnið einn leik en Arsenal þrjá og fimm leikir hafa endað með jafntefli.

En hvað skal segja þegar kemur að því að spá fyrir um leikinn ?  Er ekki líklegt að leikmenn Liverpool mæti dýrvitlausir til leiks og sýni sitt rétta andlit gegn liði í toppbaráttunni og vinni góðan sigur ?  Eða er kannski kominn tími á að Jurgen Klopp tapi leik fyrir liði í toppbaráttunni ?  Fyrri kosturinn er auðvitað líklegastur en það er eitthvað sem segir mér að léttleikandi leikmenn Arsenal komi til með að verða ansi erfiðir í leiknum.  Eigum við ekki að segja að þriðja jafnteflið við Arsenal í röð á Anfield líti dagsins ljós og að leikar fari 2-2.

Fróðleikur:

- Liverpool hefur ekki tekist að halda hreinu í síðustu 10 leikjum á Anfield gegn Arsenal.

- Aðeins tveir leikir af tólf hafa unnist í öllum keppnum það sem af er ári hjá Liverpool.

- Sadio Mané er markahæstur leikmanna félagsins það sem af er tímabilinu með ellefu mörk og öll hafa þau komið í úrvalsdeildinni.

- Alexis Sánchez er markahæstur leikmanna Arsenal og í deildinni allri með 17 mörk það sem af er tímabili.  Reyndar hafa þeir Harry Kane og Romelu Lukaku skorað jafnmörg mörk en Sánchez er með fleiri stoðsendingar.

- Þeir Roberto Firmino og Nathaniel Clyne hafa tekið þátt í flestum deildarleikjum til þessa á tímabilinu eða alls 25 talsins og hafa því aðeins misst af einum leik hvor.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan