| Grétar Magnússon

Landsleikjahlé

Síðasta landsleikjahlé tímabilsins fer nú í hönd og sem fyrr eru nokkrir leikmenn liðsins í verkefnum með landsliðum sínum á meðan restin af leikmannahópnum heldur í æfingabúðir til Tenerife.

Lengsta ferðalagið eiga þeir félagar í brasilíska landsliðinu, Philippe Coutinho og Roberto Firmino en þeir eru í mæta Úrúgvæ á útivelli á fimmtudagskvöldið og Paragvæ á heimavelli næstkomandi miðvikudag, 29. mars.  Coutinho og Firmino mæta því væntanlega ekki aftur til Englands fyrr en fimmtudaginn 30. mars en þá eru aðeins tveir dagar þangað til að stórleikur er við nágrannana í Everton á Anfield.

Englendingar mæta Þjóðverjum í vináttuleik á miðvikudagskvöldið í Þýskalandi og á sunnudaginn mæta þeir svo Litháen á Wembley.  Nathaniel Clyne og Adam Lallana eru í landsliðshópnum að þessu sinni en þeir Jordan Henderson og Daniel Sturridge eru ekki með vegna meiðsla.

Joe Gomez er í U-21 árs landsliðshópi Englendinga en liðið leikur tvo vináttuleiki við Þýskaland og Danmörku og Trent Alexander-Arnold er svo með U-19 ára hópi Englands en liðið leikur þrjá leiki gegn Noregi, Spáni og Hvíta-Rússlandi.

Simon Mignolet og Divock Origi eru sem fyrr með Belgum en á laugardag mæta þeir Grikkjum á heimavelli og svo Rússum í vináttuleik þrem á útivelli þrem dögum síðar.

Ragnar Klavan leiðir Eistlendinga sem fyrirliði en þeir mæta mæta Kýpverjum á útivelli á laugardaginn og Króötum í vináttuleik á heimavelli á þriðjudagskvöldið.

Senegalar með Sadio Mané innanborðs mæta Nígeru á fimmtudagskvöldið en sá leikur fer fram á heimavelli Barnet FC í Englandi og á mánudagskvöldið mæta þeir Fílabeinsströndinni í París í Frakklandi.

Gini Wijnaldum er í hollenska landsliðinu sem mætir Búlgaríu á útivelli á laugardaginn kemur og svo Ítölum í vináttuleik þrem dögum síðar.

Emre Can er kominn í þýska landsliðið á ný en þeir mæta Englendingum eins og áður sagði á miðvikudaginn en næsti leikur er svo í undankeppni HM gegn Azerbaidjan á sunnudaginn.

Ben Woodburn, Harry Wilson og Danny Ward eru í landsliðshóp Wales. Danny er auðvitað leikmaður Liverpool en hann er sem stendur í láni hjá Huddersfield. 

Það eru því bara þeir Joel Matip og James Milner úr byrjunarliði síðasta leik liðsins sem ekki eru í landsliðsverkefnum en þeir tveir hafa lagt landsliðsskóna á hilluna.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan