| Sf. Gutt

James Milner setti met


James Milner setti met þegar hann skoraði úr vítinu á móti Manchester City á dögunum. Hann skoraði þá í 47. leik sínum án þess að vera í tapliði. Reyndar hefur James skorað 50 mörk í þessum 47 leikjum. Alls hafa 12 af mörkunum komið hjá Liverpool og sjö á þessari leiktíð. Hin mörkin hefur hann skorað fyrir Leeds United, Newcastle United, Aston Villa og Manchester City. 



Þetta er met frá því Úrvalsdeildin var stofnsett 1992. Gamla metið, 46 leiki, átti framherjinn Darius Vassell. Cesc Fabregas hefur skorað í 42 taplausum leikjum og getur bætt við. Salomon Kalou skoraði í 32 taplausum leikjum og Norðmaðurinn Öyvind Leonhardsen, sem lék með Liverpool, skoraði í 28 leikjum án taps. 


Þess má geta að James Milner var aðeins 16 ára þegar hann lék sinn fyrsta leik með Leeds United í nóvember 2002 á móti West Ham United. Á öðrum degi jóla það ár varð hann yngsti markaskorari í Úrvalsdeildinni þegar hann skoraði í 2:1 sigri á Sunderland. Hann varð þá aðeins 16 ára og 356 daga gamall. Metið hans stendur ekki lengur en það er nú í eigu James Vaughan sem var 16 ára og 271 daga gamall þegar hann skoraði fyrir Everton á móti Crystal Palace í apríl 2005. 


James Milner hefur reynst Liverpool prýðilega eftir að hann kom frá Manchester City sumarið 2015. Hann er búinn að skora 14 mörk og hefur verið sérlega örugg vítaskytta. Hann hefur spilað eins og herforingi sem vinstri bakvörður á þessari leiktíð og leyst Jordan Henderson af sem fyrirliði. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan