| Grétar Magnússon

Ótrúleg endurkoma gegn Stoke

Gríðarlega mikilvæg þrjú stig komu í hús í dag þegar Liverpool náði að sigra Stoke City á útivelli 1-2 eftir að hafa verið undir í hálfleik.  Byrjunarlið Jurgen Klopp gaf heldur ekki mikið tilefni til bjartsýni á góð úrslit.

Þeir Joel Matip, Trent Alexander-Arnold og Ben Woodburn komu inní byrjunarliðið að þessu sinni á kostnað Roberto Firmino, Philippe Coutinho og Lucas Leiva.  Woodburn var þarna í fyrsta sinn í byrjunarliði félagsins í deildinni og Alexander-Arnold aðeins í annað sinn.  Coutinho var nógu frískur til að setjast á bekkinn eftir veikindi í miðri viku og að öðru leyti var bekkurinn nokkuð sterkur með þá Firmino, Sturridge, Lucas, Grujic og Moreno og að sjálfsögðu Karius sem varamarkvörð.

Fyrri hálfleikur var kannski ekki mikið fyrir augað og bæði lið náðu aldrei að sækja hratt upp völlinn þó svo að tækifæri til þess hafi verið fyrir hendi.  Xherdan Shaqiri skoraði mark snemma leiks en það var dæmt af vegna rangstöðu og það voru klárlega heimamenn sem voru líklegri til að skora.  Marko Arnautovic skaut að marki fyrir utan teig en skotið var laust og beint á Mignolet.  Hann fékk svo úrvals færi ekki svo löngu síðar þegar Dejan Lovren tæklaði sendingu innfyrir beint í hlaupaleiðina en Arnautovic þrumaði sem betur fer í hliðarnetið.  Gestirnir reyndu þó hvað þeir gátu til að setja mark sitt á leikinn og undir lok fyrri hálfleiks hefði átt að dæma vítaspyrnu þegar Woodburn var felldur í teignum.  En viti menn, Mike Dean dómari leiksins sá ekki ástæðu til að flauta og heimamenn brunuðu upp völlinn í sókn.  Það endaði með því að Shaqiri komst upp að endamörkum hægra megin og sendi fyrir markið, þar var Jonathan Walters óvaldaður á markteig og það var lítið mál fyrir hann að skalla boltann í markið.  Staðan var semsagt 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn og ekkert benti til þess að leikmenn Liverpool myndu ógna markinu mikið þar sem þeir höfðu ekki átt skot á markið allan fyrri hálfleikinn.

Klopp gerði tvær breytingar strax í hálfleik og tók þá Alexander-Arnold og Woodburn útaf og setti þá Coutinho og Firmino inná.  En heimamenn byrjuðu betur og eftir hornspyrnu skallaði Wijnaldum boltann beint fyrir fætur Charlie Adam sem var í dauðafæri en Mignolet varði einstaklega vel.  Eftir þetta má kannski segja að leikmenn Liverpool hafi heldur betur stigið upp og þeir Firmino og Coutinho ógnuðu markinu og eftir hornspyrnu skallaði Dejan Lovren boltann í þverslána.  Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn leit nú samt allt út fyrir að heimamenn í Stoke myndu sigla þessum sigri heim.  Á 68. mínútu gerði Klopp síðustu breytinguna á liðinu þegar Sturridge kom inná fyrir Origi og aðeins tveim mínútum síðar var staðan orðin jöfn.  Emre Can fékk boltann fyrir utan vítateig, sneri sér í átt frá marki og virtist vera kominn í vandræði en náði frábærri sendingu fyrir markið.  Þar náðu varnarmenn Stoke að komast fyrir boltann en hann barst beint fyrir fætur Coutinho á miðjum teignum og hann þrumaði boltanum í vinstra markhornið.  Hafi menn verið ánægðir með þetta mark má væntanlega segja að næsta mark hafi hreinlega lyft mönnum uppí hæstu hæðir !  Ekki voru liðnar nema 2 mínútur frá marki Coutinho þegar Wijnaldum sendi háan bolta innfyrir vörn Stoke á Firmino sem hafði tekið hlaupið innfyrir.  Hann tvínónaði ekki við hlutina og þrumaði boltanum í markið fyrir utan vítateig, gersamlega óverjandi og staðan skyndilega orðin 1-2 !


Skömmu síðar bjargaði Simon Mignolet svo aftur með frábærri markvörslu frá Berahino.  Flestir voru væntanlega með hjartað í buxunum að fylgjast með lokamínútunum því okkar menn hafa oftar en ekki misst niður forystu á ögurstundu.  Sem betur fer náðu þeir að halda þetta út að þessu sinni og tryggja sér þrjú mikilvæg stig í baráttunni um eitt af fjórum efstu sætum deildarinnar.  Virkilega kærkominn sigur eftir vonbrigðin gegn Bournemouth í miðri viku.

Stoke City:  Grant, Johnson, Shawcross, Martins Indi, Pieters, Shaqiri, Cameron, Allen (Adam, 27. mín., Sobhi, 81. mín.), Arnautovic, Walters (Whelan, 68. mín.), Berahino.  Ónotaðir varamenn:  Given, Muniesa, Diouf, Crouch.

Mark Stoke: Walters (44. mín.).

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Lovren, Matip, Klavan, Alexander-Arnold (Coutinho, 45. mín.), Milner, Can, Wijnaldum, Woodburn (Firmino, 45. mín.), Origi (Sturridge, 68 mín.).  Ónotaðir varamenn:  Karius, Moreno, Lucas, Grujic.

Mörk Liverpool:  Philippe Coutinho (70. mín.) og Roberto Firmino (72. mín.).

Gul spjöld:  Klavan og Firmino.

Áhorfendur á bet365 leikvanginum:  27.568.

Maður leiksins:  Simon Mignolet bjargaði í raun þremur stigum með virkilega góðum vörslum í dag þegar á þurfti að halda.  Eftir þá gagnrýni sem hann hefur fengið á sig á þessu tímabili verður að segjast að hann hefur stigið upp og komið sterkari til baka.  Það er óskandi að hann haldi áfram að spila vel.

Jurgen Klopp:  ,,Philippe Coutinho hefur misst þrjú kíló síðustu þrjá daga, fyrir suma eru það góðar fréttir en fyrir Coutinho var það ekki alveg nógu gott.  Simon Mignolet bjargaði lífi okkar.  Við unnum gott verk, okkur líður vel, veðrið er gott, 63 stig og mér gæti ekki liðið betur.  Núna eigum við viku hvíld.  Ekkert lið í heiminum vinnur frábæru leikina.  Stundum þarf að vinna leiki eins og þennan."

Fróðleikur:

- Liverpool er það lið sem hefur náð í flest stig eftir að hafa lent undir í deildinni eða alls 18 talsins.

- Aðeins 126 sekúndur liðu á milli marka Coutinho og Firmino í leiknum.

- Þetta var fyrsti sigur á útivelli í deildinni á þessu ári.

- Roberto Firmino skoraði sitt 10. deildarmark á tímabilinu og 11 markið alls.

- Philippe Coutinho skoraði sitt 9. deildarmark og 10. í öllum keppnum.

- Coutinho er núna markahæsti Brasilíumaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar með 30 mörk.

Hér má sjá myndir úr leiknum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan