| Grétar Magnússon

Æfingaleikur í Ástralíu í lok maí

Um helgina var tilkynnt að liðið heldur til Ástralíu í lok maí og spilar æfingaleik við Sydney FC.

Leikurinn fer fram miðvikudaginn 24. maí og verður þetta í fyrsta skiptið sem liðið spilar í þessari víðfrægu borg.  Það er því ljóst að leikmenn og þjálfarateymi félagsins fá ekki langþráð frí eftir að deildarkeppninni lýkur í vor.

Ian Rush sem er einn af sendiherrum félagsins var staddur í Sydney um helgina þar sem hann tilkynnti þetta.  ,,Við eigum ótrúlega marga stuðningsmenn í Ástralíu og það er alltaf gríðarlega góð stemmning þegar við spilum hér," sagði Rush.

,,Þetta verður í fyrsta sinn sem liðið spilar í Sydney og þeim hlakkar öllum til að spila við eitt af bestu liðum Ástralíu."

Stutt verður í 125 ára afmæli félagsins þegar leikurinn fer fram en þann 3. júní á félagið afmæli.  Þessum áfanga verður fagnað mikið í Ástralíu og verða allskonar uppákomur tengdar félaginu í borginni dagana í kringum leikinn.

Talið er að rúmlega 2.3 milljón stuðningsmenn félagsins séu í Ástralíu og þegar liðið hefur spilað æfingaleiki í Ástralíu hefur myndast virkilega góð stemmning, margir muna eftir því árið 2013 þegar liðið spilaði í Melbourne og 95.000 manns sungu You'll never walk alone fyrir leik.  Heimsóknir til Brisbane og Adelaide hafa einnig verið eftirminnilegar.

Jurgen Klopp er spenntur fyrir ferðinni og hafði þetta að segja:  ,,Þetta verður í fyrsta sinn sem ég fer til Ástralíu og okkur hlakkar öllum mikið til.  Þegar við spilum á útivelli í deildinni eru ávallt margir stuðningsmenn okkar á vellinum og það gefur manni vissulega góða hugmynd um hversu stórt þetta félag er."

,,Við vorum svo í Bandaríkjunum síðasta sumar og þá hugsaði ég með mér, já það eru svo sannarlega margir stuðningsmenn hér líka.  Þetta er eitthvað sem maður verður að upplifa.  Starfsmenn félagsins sem hafa farið í svona ferðir í gegnum tíðina sögðu allir við mig að ég þyrfti að fara til annars lands til að upplifa hversu stórt félagið er."

,,Fyrir okkur alla verður spennandi að sjá hversu margir stuðningsmenn félagsins eru í Ástralíu.  Ég veit að það er erfitt fyrir þá sem eru þarna að horfa á leikina okkar útaf miklum tímamismuni og fólk þarf að vaka um miðjar nætur til að sjá leikina oft á tíðum."

,,En þetta fólk vill vera nálægt félaginu og sýna stuðning sinn þannig að það er í okkar verkahring að mæta og þakka fyrir stuðninginn."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan