| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Það er kominn tími til að flytja fréttir af gengi lánsmanna félagsins en eins og venjulega áttu þeir misjöfnu gengi að fagna með liðum sínum í liðinni viku.

Lazar Markovic skoraði sitt fyrsta mark fyrir Hull City í mikilvægum fallbaráttu sigri á Middlesbrough miðvikudaginn 5. apríl síðastliðinn.  Hull City unnu 4-2 og skoraði Markovic fyrsta mark Hull í leiknum er hann jafnaði metin 1-1.  Á laugardaginn var hann svo í byrjunarliðinu gegn Manchester City á útivelli.  Sá leikur tapaðist 3-1 og hafði Serbinn sig lítið í frammi í leiknum enda voru Hull að mestu í vörn og sóknarleikurinn ekki mikið í fyrirrúmi.  Hull sitja í 17. sæti úrvalsdeildarinnar með 30 stig og eru rétt fyrir ofan fallsætin þrjú.

Mamadou Sakho heldur áfram að spila í hjarta varnarinnar hjá Crystal Palace sem einnig eru í fallbaráttu í deildinni.  Eftir fjóra sigurleiki í röð, þar af einn mjög góðan sigur á útivelli gegn Chelsea lenti liðið á vegg á útivelli gegn Southampton á miðvikudaginn var.  Palace tapaði leiknum 3-1 og þótti Sakho spila vel þrátt fyrir tapið en síðustu tvö mörk Southampton komu í lok leiksins.  Sakho hjálpaði svo sínum mönnum á mánudagskvöldið gegn Arsenal á heimavelli þar sem mjög góður 3-0 sigur vannst.  Sakho spilaði mjög vel í leiknum og stýrði vörninni vel.  Palace fjarlægjast aðeins botninn og eru með 34 stig í 16. sæti deildarinnar og eiga leik til góða á flest liðin fyrir ofan sig og neðan.

Jon Flanagan heldur svo áfram að vera á varamannabekknum eða utan hóps hjá Burnley.  Það er ljóst að dagar hans hjá Liverpool eru taldir og ólíklegt verður að teljast að Burnley vilji kaupa hann í lok tímabilsins en það kemur allt í ljós.  Burnley eru í 12. sæti deildarinnar með 36 stig og hafa ekki enn tryggt sæti sitt í deildinni.

Í næst efstu deild Englands var Ryan Kent á bekknum þegar liðið mætti Cardiff um þarsíðustu helgi en kom inná þegar 20 mínútur voru eftir.  Leikurinn endaði með markalausu jafntefli 0-0 en frammistaða Kent dugði til þess að hann var í byrjunarliðinu í næsta leik gegn Blackburn.  Þar stóð hann sig mjög vel í vinstri vængbakvarðastöðunni og Barnsley vann góðan 2-0 sigur.  Kent lagði upp fyrra mark leiksins með góðri hornspyrnu á nærstöngina, boltinn var svo skallaður yfir á fjær og þar skoraði einn samherji Kent.  Kent fór af velli þegar tvær mínútur voru til leiksloka við mikið lófatak stuðningsmanna Barnsley.  Liðið siglir nokkuð lygnan sjó um miðja deild, er í 13 sæti með 56 stig.

Markvörðurinn Danny Ward átti svo misjöfnu gengi að fagna með Huddersfield í sömu deild.  Á miðvikudaginn var hélt hann markinu hreinu í 10. skipti á leiktíðinni í góðum 3-0 sigri á Norwich.  Á laugardaginn var gekk hinsvegar ekki eins vel þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Nottingham Forest, Ward var hinsvegar ekki sekur um mörkin en tvisvar sinnum í leiknum gerði hann sig hinsvegar sekan um mistök sem næstum því kostuðu mark.  Huddersfield eru í þriðja sæti deildarinnar og eru næsta öruggir um að komast í umspil um sæti í úrvalsdeildinni, liðið er með 74 stig og á leik til góða á liðin fyrir neðan sig.

Í neðri deildum Englands spiluðu lánsmenn félagsins ekkert með liðum sínum.  Cameron Brannagan var ekki í leikmannahóp Fleetwood í miðri viku í sigri gegn Oxford og sat á varamannabekknum allan leikinn gegn Oldham í leik sem tapaðist.  Fleetwood eru í þriðja sæti League One og ættu að öllu óbreyttu að komast í umspil um sæti í næst efstu deild Englands.  Ryan Fulton spilaði svo ekkert með Chesterfield, Lloyd Jones var ekki í leikmannahóp Swindon Town og Jack Dunn á við meiðsli að stríða og hefur ekkert spilað með Tranmere undanfarið.

Aldrei þessu vant spiluðu svo lánsmenn Liverpool utan Englands meira með liðum sínum en vant er en gengi þeirra var þó æði misjafnt.  Andre Wisdom er að gera góða hluti með Red Bull Salzburg og liðið hefur ekki tapað í síðustu 14 leikjum.  Góður 1-0 sigur vannst á Sturm Graz og var Wisdom í byrjunarliðinu þriðja leikinn í röð en hann hafði ekki náð því til þessa á tímabilinu.  En hann ætti að halda sæti sínu í liðinu því að þessir þrír leikir hafa allir unnist og Salzburg hefur jafnframt haldið markinu hreinu.

Í bandarísku MLS deildinni er nýr lánsmaður Liverpool á ferðinni ef svo má að orði komast.  Sóknarmaðurinn Brooks Lennon byrjaði hjá Real Salt Lake þegar liðið vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu 3-0 gegn Vancouver Whitecaps.  Lennon spilaði hægra megin í þriggja manna sóknarlínu og átti góðan leik við erfiðar aðstæður en mikil snjókoma var á meðan leik stóð.  Til þessa hefur Lennon spilað fjóra leiki og á enn eftir að skora eða leggja upp mark.

Taiwo Awoniyi er svo aftur kominn á ferðina með NEC Nijmegen og hefur byrjað síðustu tvo leiki með liðinu, það hefur ekki gerst síðan í nóvember í fyrra.  Þessir tveir leikir enduðu þó ekki vel fyrir Awoniyi sem leiddi sóknarlínu liðsins í 2-0 og 5-1 tapi.  Hann kom sér þó í fín færi og hefði átt að skora að minnsta kosti eitt mark þegar hann komst einn í gegn en skaut beint á markvörðinn.  NEC eru í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 28 stig eftir 30 leiki og eru í harðri fallbaráttu.

Höldum okkur áfram í Hollandi þar sem Pedro Chirivella átti martraðar viku með Go Ahead Eagles sem sitja sem fastast á botni deildarinnar með 23 stig.  Liðið tapaði illa gegn Feyenoord 8-0 og þar var Chirivella í byrjunarliðinu, næsti leikur tapaðist 4-1 gegn Heracles og þar spilaði Chirivella allan leikinn einnig.

Í Þýskalandi fékk Allan Rodrigues loksins tækifæri með Hertha Berlin þegar hann kom inná síðustu 10 mínúturnar gegn Augsburg.  Hertha unnu leikinn 2-0 og eru í fimmta sæti deildarinnar með 43 stig eftir 28 leiki.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan