| Sf. Gutt

Stórfenglegt sigurmark!

Stórfenglegt sigurmark Emre Can á Vicarage Road tryggði Liverpool 0:1 sigur á Watford. Um leið náði Liverpool tökum á örlögum sínum, í baráttunni um Meistaradeildarsæti, í eigin hendur.

Jürgen Klopp ákvað að breyta liðinu sínu ekki frá tapleiknum á móti Crystal Palace eins og kannski hefði verið tilefni til því liðið lék illa í þeim leik. Adam Lallana kom aftur í liðshópinn eftir meiðsli síðustu vikna. 

Það voru þó bara liðnar örfáar mínútur af leiknum þegar ljóst var að það þyrfti að breyta liðinu. Philippe Coutinho fékk högg á annað lærið eftir samstuð við einn mótherja sinna og náði ekki að hrista afleiðingar þess af sér. Adam Lallana leysti hann af hólmi. 

Liverpool hafði boltann lengst af fyrri hálfleiks en heimamenn voru fastir fyrir og gáfu fá færi á sér. Fyrsta góða marktilraun leiksins kom eftir 20 mínútur en þá átti Emre Can fast langskot sem Heurelho Gomes varði. Þegar fjórar mínútur voru til leikhlés fékk Liverpool horn. Heurelho sló boltann frá. Hann fór út fyrir vítateiginn þar sem Adam Lallana skaut honum fallega til baka en boltinn small í þverslánni. 

Þegar komið var fram í viðbótartíma urðu áhorfendur vitni að stórkostlegum tilþrifum. Lucas Leiva sendi langa sendingu fram völlinn í átt að vítateig Watford. Boltinn átti að fara til Emre Can en það var ekki gott að segja hvernig Þjóðverjinn gæti náði valdi á boltanum. Emre leysti málið með þvi að henda sér á loft og klippa boltann aftur fyrir sig með glæslegri hjólhestaspyrnu. Boltinn þaut í markið út við stöng! Við tók gríðarlegur fögnuður Rauðliða innan vallar sem utan. Stórfenglegt mark og um leið og boltinn fór inn fyrir marklínuna er hægt að segja að keppni um mark keppnistímabilsins hjá Liverpool og víðar hafi lokið!

Það var mun betri staða að geta varið mark og það svona fallegt í síðari hálfleiknum. Reyndar munaði tvívegis litlu á fyrstu mínútum síðari hálfleiks að Liverpool bætti við. Fyrst varði Heurelho  aukaspyrnu frá James Milner og svo varði hann skot frá Divock Oigi. Skot Belgans utan teigs var býsna gott.

Það var ekki fyrr en á 68. mínútu sem Geitungarnir náði sínu fyrsta almennilega markskoti. Etienne Capoue átti þá gott skot sem Simon Mignolet sló yfir. Dómarinn dæmdi markspyrnu og skiljanlega urðu heimamenn fjúkandi reiðir. Etienne hafði bara gult spjald upp úr krafsinu og ekki minnkaði óánægjan með óréttlætið. Leikmenn Liverpool kærðu sig kollótta og líklega voru þeir ánægðir með að þurfa ekki að verjast horni. Ekki löngu seinna var Simon vel á verði þegar  Daryl Janmaat  átti lúmskt skot utan teigs. Belginn var mjög öruggur í markinu. 

Undir lokin gat allt gerst enda bara eitt mark sem skildi að. Á lokamínútunni var varamaðurinn Daniel Sturridge nærri búinn að innsigla sigurinn þegar hann náði boltanum utan við vítateginn. Hann lék inn í teiginn en Heurelho  skultaði sér niður og varði í horn. Í viðbótartímanum fékk Watford færi á að jafna. Eftir aukaspyrnu barst boltinn til Sebastian Prodl en skot hans fór í slá og yfir. Það var því þetta stórglæsilega sigurmark Emre Can sem réði úrslitum. Sigur Liverpool var verðskuldaður þó ekki væri nema út af glæsimarki Emre Can!

Markið færði Liverpool yfirráð á örlögum sínum í baráttunni um Meistaradeildarsætin. Betri gerist staðan ekki. En Rauði herinn þarf að komst í gegnum þær þrjár orrustur sem eftir eru og tryggja markmiðið!

Watford: Gomes, Mariappa, Prodl, Britos (Kabasele 19. mín.), Janmaat, Cleverley, Doucoure, Capoue (Success 73. mín.), Amrabat (Okaka 85. mín.), Deeney og Niang. Ónotaðir varamenn: Pantilimon, Behrami, Zuniga og Eleftheriou.

Gul spjöld: Sebastian Prodl, Etienne Capoue og Isaac Success.

Liverpool: Mignolet, Clyne, Matip, Lovren, Milner, Leiva, Can, Wijnaldum, Coutinho (Lallana 13. mín. (Klavan 86. mín.)), Firmino og Origi (Sturridge 84. mín.). Ónotaður varamaður: Karius, Moreno, Grujic og Alexander- Arnold.

Mark Liverpool: Emre Can (45. mín.).

Gul spjöld: Lucas Leiva.

Áhorfendur á Vicarage Road:
20.959.

Maður leiksins: Emre Can. Stórkostlegt mark Þjóðverjans dugði alveg til að krýna hann besta leikmanna vallarins. En fyrir utan markið lék hann mjög vel. Hann barðist vel og var duglegur eins og jafnan.

Jürgen Klopp: Ég sagði leikmönnum mínum eftir leikinn að þetta væri fín aðgferð ef þeim langaði til að ganga frá mér. Watford gafst aldrei upp í 97 mínútur. Við gerðum ein mistök og þau hefðu getað kostað mark. Stundum þarf maður smá heppni. Við áttum ekki fullkominn leik á móti Watford. Það hefði verið erfitt að sætta sig við jafntefli en við náðum stigunum þremur og strákarnir áttu þau skilin. 

Fróðleikur

- Emre Can skoraði fimmta mark sinn á sparktíðinni.

- Fyrir leikinn hafði Watford haldið hreinu í síðustu þremur heimaleikjum. 

- Þetta var 16. deildarmarkið sem Liverpool skorar á síðustu 15 mínútum fyrri hálfleiks. Ekkert lið í deildinni hefur skorað jafn oft á þessum tíma.

- Liverpool vann þriðja útileik sinn í röð.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér má horfa á viðtal sem tekið var við Jürgen Klopp eftir leikinn.  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan