| Grétar Magnússon

Stúka nefnd eftir Kenny Dalglish

Liverpool FC tilkynnti í dag að Centenery stand stúkan muni fá nýtt nafn og verður héðan í frá nefnd The Kenny Dalglish Stand til heiðurs þjónustu Kenny Dalglish við félagið í 40 ár eða því sem næst.

Félagið fagnar einnig 125 ára afmæli á þessu ári og er þetta hluti af þeim hátíðarhöldum.  Það voru eigendur félagsins, með John W Henry í fararbroddi sem tóku þessa ákvörðun og tilkynntu með stolti í dag.

Árið 1977 gekk ungur Skoti að nafni Kenny Dalglish til liðs við félagið og síðan þá hefur saga félagsins og hans verið samofin.  Félagið hefur notið þeirrar blessunar í gegnum söguna að hafa notið þjónustu margra ótrúlegra manna og kvenna en það þykir hinsvegar sérstök ástæða til þess að heiðra Dalglish sérstaklega því saga hans hefur spannað svo langt tímabil og snert á mismunandi flötum.

Knattspyrnulega séð var hann stjóri liðsins á níunda áratug síðustu aldar sem og á árunum 2011 til 2012 og fyrir félagið spilaði hann sjálfur 515 leiki og skoraði 172 mörk.  Alls lyfti hann átta deildarmeistaratitlum, þremur Evrópubikurum, tveimur FA bikurum, fimm Deildarbikurum og einum Ofurbikar Evrópu.

Utan vallar hefur framlag hans verið ómetanlegt og þeir leiðtogahæfileikar sem hann sýndi í kjölfar Hillsborough slyssins fyrir félagið og í raun fyrir Liverpool borg í heild voru hreint magnaðir.  Hann sýndi fjölskyldum fórnarlamba mikinn stuðning og var ávallt tilbúinn að liðsinna þeim sem um sárt áttu að binda.  Árið 2005 stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni "Marina Dalglish Appeal" en það er styrktarsjóður ætlaður þeim sem veikjast af krabbameini og er hugsaður fyrir fjölskyldur á Merseyside.

John W Henry sagði af þessu tilefni:  ,,Það er staðfesting á mikilli sögu félagsins að okkur vantar vissulega ekki goðsagnir sem auðveldlega gætu verið með nafn sitt á stúkunum á Anfield.  En í Kenny Dalglish erum við með persónu sem er svo gríðarlega samofinn félaginu, það er því í raun okkar skylda að heiðra þennan mann með þessum hætti.  Hann er einstakur, ekki bara fyrir Liverpool, heldur fyrir knattspyrnuna á Englandi í heild, hann áorkaði svo miklu sem leikmaður og sem knattspyrnustjóri.  Þau verðlaun sem hann hefur unnið segja allt sem segja þarf."

,,Framlag Kenny til Liverpool nær hinsvegar langt út fyrir mörk skoruð, fengin stig eða bikara sem standa í skápum á Anfield.  Hans gildi eru gildi Liverpool - hann stendur fyrir allt það sem er gott við þetta félag.  Leiðtogahæfni hans og samúð sem hann sýndi einstaklingum, félaginu og borginni allri þegar allir voru í sárum eftir Hillsborough slysið var hreint ótrúlegt.  Nafn hans er samofið félaginu, heimili okkar á Anfield og Liverpool borg í heild.  Nú verður þetta eins sýnilegt og það getur orðið."


Sérstök athöfn verður á Anfield af þessu tilefni síðar á árinu og verður dagsetningin tilkynnt í náinni framtíð.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan