| Grétar Magnússon

Fyrstu kaup sumarsins staðfest

Liverpool hefur komist að samkomulagi við ungan enskan framherja, Dominic Solanke að nafni, um að hann gangi til liðs við félagið þegar samningur hans við Chelsea rennur út í sumar.

Solanke er 19 ára gamall og hefur verið frá sjö ára aldri hjá Chelsea, hann hefur ekki náð samkomulagi við Lundúnaliðið um nýjan samning og fær því frjálsa sölu til Liverpool þegar samningurinn rennur út þann 1. júlí.  Hinsvegar mun sérstök nefnd innan enska knattspyrnusambandsins ákveða hvaða upphæð Liverpool þarf að borga til Chelsea þar sem Solanke er uppalinn þar.  Sú upphæð er talin vera í kringum 3 milljónir punda.

Solanke er gríðarlega efnilegur sóknarmaður og spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið Chelsea þegar hann kom inná sem varamaður í Meistaradeildinni á heimavelli gegn Maribor.  Þar með varð hann yngsti leikmaðurinn í sögu Chelsea til að spila í Meistaradeildinni.  Hann var svo lánaður til Vitesse Arnhem tímabilið 2015-16 þar sem hann skoraði sjö mörk í 25 leikjum á tímabilinu og liðið endaði um miðja deild.

Hann hefur spilað fyrir yngri landslið Englands frá U16 ára upp í U21 og er sem stendur með U20 ára landsliðinu að keppa á Heimsmeistaramótinu í Suður-Kóreu.  Til þessa hefur hann spilað alla þrjá leiki liðsins og skorað eitt mark úr vítaspyrnu.  Liðið spilar í dag við Kosta Ríka í 16-liða úrslitum keppninnar.

Þess má svo einnig geta að Solanke vann FA Youth Cup tvisvar sinnum með Chelsea sem og UEFA Youth League einu sinni og hann spilaði með U-17 ára landsliði Englands þegar þeir urðu Evrópumeistarar árið 2014.

Jurgen Klopp hugsar Solanke ábyggilega sem efnilegan leikmann uppá framtíðina að gera og ekki er víst að hann spili mikið á næsta tímabili með aðalliðinu en hann verður væntanlega fastamaður í U-23 ára liði félagsins.  Það má þó svo líklega búast við því að hann fái einhver tækifæri með aðalliðinu þar sem leikjaálagið kemur til með að aukast komist okkar menn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan