| Sf. Gutt

Landsleikjafréttir


Undanfarna viku eða svo hafa farið fram fjöldi landsleikja. Landsliðsmenn Liverpool hafa víða komið við sögu og einn skoraði mark fyrir sþjóð sína. Georginio Wijnaldum lék með Hollendingum þegar þeir unnu Fílabeinsströndina 5:0 í æfingaleik. Hann gerði svo gott betur og skoraði þegar Holland vann aftur 5:0 sigur og nú á Luxemburg í forkeppni HM.

Emre Can bætti tveimur landsleikjum í safn sitt. Fyrri leikurinn var 1:1 jafntefli við Dani í Kaupmannahöfn. Sá leikur var æfingaleikur. Sá seinni var við San Marínó í forkeppni HM. Heimsmeistararnir unnu stórsigur 7:0.


Philippe Coutinho var í liði Brasilíu sem tapaði 1:0 í vináttuleik við Argentínu. Leikurinn fór fram í Ástralíu. Brasilía lék annan vináttuleik í gær og nú við heimamenn. Philippe leiddi liðið sem fyrirliði í 4:0 sigri.  

Adam Lallana var eini leikmaður Liverpool í landsliðshópi Englands sem lék tvo leiki. Fyrst í forkeppni HM á laugardaginn í Bretlandsorrustu við Skota norðan landamæra. Adam þótti með betri leikmönnum enska liðsins. Alex Oxlade-Chamberlain leikmaður Arsenal, sem hefur verið orðaður við Liverpool í sumar, kom Englandi yfir. Alex kom inn á sem varamaður. Allt stefndi í sigur Englands þangað til Leigh Griffiths, leikmaður Celtic, skoraði tvívegis beint úr aukaspyrnum á síðustu fjórum mínútum leiksins. Nú var sigur innan seilingar hjá Skotum en það var ekki allt búið enn því Harry Kane, framherji Tottenham, jafnaði 2:2 þegar komið var fram í viðbótartíma. Enskir sluppu vel með jafnteflið og léku ekki vel. Í gær tapaði England 3:2 í vináttuleik fyrir Frökkum í París. Harry skoraði bæði mörkin. Adam kom inn á sem varamaður. 

Ragnar Klavan var í vörn Eistlands sem tapaði 0:2 heima fyrir Belgum. Simon Mignolet og Divock Origi voru varamenn og komu ekki við sögu hjá belgíska liðinu. 

Svo er rétt að rifja upp að þeir Sheyi Ojo, Ovie Ejaria og Dominic Solanke voru í heimsmeistarliði Englands sem vann HM undir 20 ára liða í Suður Kóreu! Það verður gaman að sjá hvort þeir ná að verða aðallandsliðsmenn á komandi árum. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan