| Sf. Gutt

Jürgen Norbert Klopp fimmtugur!


Jürgen Norbert Klopp framkvæmdastjóri Liverpool er fimmtugur í dag. Þjóðverjinn tók við Liverpool í október 2015 og hefur náð góðum árangri það sem af er. Jürgen Klopp fæddist í Stuttgart í suður Þýskalandi þann 16. júní 1967. Hann ólst upp í Glatten sem er lítill bær í Svartaskógi. Jürgen, sem á tvær eldri systur, hafði gríðarlega mikinn áhuga á knattspyrnu frá því hann var lítill og uppáhaldsliðið hans var Stuttgart. Einn á þeim leikmönnum sem hann hafði mest dálæti á var Ásgeir Sigurvinsson!

 
Jürgen lék allan sinn atvinnumannsferil með Meinz 05 og síðar varð hann framkvæmdastjóri liðsins 2001 til 2008. Þá tók hann við Borussia Dortmund sem hann stýrði til vors 2015. Um haustið lá leiðin til Liverpool. Meinz komst í fyrsta skipti upp í efstu deild í Þýskalandi undir stjórn hans og Dortmund varð tvívegis þýskur meistari og einu sinni bikarmeistari auk þess að vinna þýska Stórbikarinn í tvígang. Jürgen hefur náð góðum árangri hjá Liverpool en mikið vill meira. Eldmóður hans og gleði á vonandi eftir að gera Liverpool enn betra á næstu árum þannig að liðið geti unnið titla. 

Afmælisbarnið er að heiman eða kannski heima ef svo má segja því í gærkvöldi var haldin afmælisveisla í Þýskalandi. Þar skemmti Jürgen  sér með móður sinni, fjölskyldu, vinum og rokkhljómsveit. Hermt er nokkrir af leikmönnum sem hafa spilað undir stjórn hans hafi verið boðnir. Voru Mario Götze og Robert Lewandowski nefndir en þeir léku með Dortmund þegar afmælisbarnið var þar við stjórn. Þýska blaðið Bild greinir frá því að veislan hafi verið hin skemmtilegasta sem er mjög líklegt :)

Liverpool klúbburinn á Íslandi sendir Jürgen Klopp hamingjuóskir með stórafmælið!

Hér er myndasyrpa með framkvæmdastjóranum af Liverpoolfc.com.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan