| Grétar Magnússon

Undirbúningstímabilið byrjar senn

Það styttist í að undirbúningur fyrir komandi tímabil hefjist hjá Liverpool en margir leikmenn mæta til æfinga í þessari viku.  Jürgen Klopp er að sjálfsögðu tilbúinn með æfingaáætlanir sínar.

Klopp og þjálfarateymi félagsins munu láta leikmenn hafa fyrir því að koma sér í form eftir sumarfrí en Þjóðverjinn er þekktur fyrir að byrja æfingar af krafti strax í upphafi undirbúningstímabilsins.  Hann mun að sjálfsögðu horfa til komandi tímabils með það að markmiði að byggja á þeim árangri sem náðist á síðasta tímabili þegar fjórða sætið var tryggt og góður möguleiki á því að liðið fari í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Átta æfingaleikir eru skipulagðir næsta mánuð, allt frá Tranmere Rovers til ferðalags til Hong Kong sem og þátttöku í Audi Cup í Dublin.  Á þessum tíma verður liðið einnig fínstillt hvað taktík varðar og horft til þess að leikmenn bæti sig enn frekar.

,,Yfirleitt vill maður alltaf taka eitt skref áfram frá því árinu á undan," sagði Klopp í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins, aðspurður að því hvernig þetta undirbúningstímabil verður frábrugðið síðasta ári.

,,Maður verður að sjá hvernig hlutirnir passa þegar nýju leikmennirnir koma inn.  Ungu leikmennirnir eru ári eldri, það er kannski ekki stórmunur en þeir byggja þó á þeirri reynslu að hafa verið einu ári lengur með aðalliðinu."

,,Þeir geta tekið stór skref vegna þess að þeir hafa aðlagast betur.  Þeir eru kannski ekki eins spenntir og fyrst þegar þeir mættu til æfinga, hugsandi Guð minn góður, Adam Lallana stendur hér við hliðina á mér og eitthvað svoleiðis.  Það getur auðvitað verið stórmunur þar á."

,,Líklega þurfa menn að taka eitt eða tvö skref afturábak og svo fimm eða sex í rétta átt.  Allir eru með sömu markmið."

Mest allt tímabilið spilaði liðið 4-3-3 leikkerfið en á ýmsum stigum var þessu breytt lítillega og margir muna eftir breytingum á liðinu í síðustu leikjunum þegar fjórða sætið í deildinni var tryggt.

Til dæmis var Philippe Coutinho færður aftar á miðjuna sem gaf mjög góða raun.  Í mikilvægum leik gegn West Ham á útivelli lagði hann upp eitt mark og skoraði tvö og í síðasta leiknum gegn Middlesbrough skoraði hann beint úr aukaspyrnu annað mark liðsins í þeim leik og flestir á Anfield önduðu léttar.

Hvað taktík varðar sagði Klopp þetta um markmiðin á undirbúningstímabilinu:  ,,Við viljum vera sveigjanlegri hvað taktík varðar - það veltur á því hver er til staðar á hvaða tíma - og við munum kynna til leiks ný kerfi.  2015-2016 spiluðum við mest 4-2-3-1, á síðasta tímbili mest 4-3-3 eða 4-5-1.  Að okkar mati passaði það best við þá leikmenn sem við höfðum."

,,Ég er ekki viss um hvað við verðum að spila á næsta tímabili, það verða nokkur mismunandi kerfi.  Við þurfum að undirbúa okkur undir leiki í Evrópu líka, þannig að við þurfum stærri leikmannahóp auðvitað.  Við verðum klárir, ég hlakka mikið til."

Hér er yfirlit yfir þá leiki sem liðið spilar á undirbúningstímabilinu:

Miðvikudaginn 12. júlí gegn Tranmere Rovers.

Föstudaginn 14. júlí gegn Wigan Athletic.

Miðvikudaginn 19. júlí gegn Crystal Palace.

Laugardaginn 22. júlí seinni leikurinn í Asia Trophy, ekki vitað hver mótherjinn verður.

Laugardaginn 29. júlí gegn Hertha Berlin.

Þriðjudaginn 1. ágúst gegn Bayern Munchen.

Miðvikudaginn 2. ágúst seinni leikurinn í Audi Cup, ekki vitað hver mótherjinn verður.

Laugardaginn 5. ágúst gegn Athletic Bilbao.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan