| Sf. Gutt

Vill Naby Keita fara til Liverpool?

Margir fjölmiðlar telja að Naby Keita sé búinn að ákveða að yfirgefa Leipzig og vilji fara til Liverpool. Það hefur þó ekkert komið fram um þetta í áreiðanlegustu fjölmiðlunum. 

Samkvæmt fréttum Liverpool Echo þá er talið að forráðamenn Liverpool séu búnir að setja Naby í sigtið og ætli að láta á það reyna hvort Leipzig vilji selja hann núna í sumar. Hann gæti kostað hátt í 70 milljónir sterlingspunda. 

Tekið var eftir því þegar Leipzig kynnti nýja búninginn sinn fyrir komandi leiktíð að Naby var ekki meðal leikmanna sem klæddust búningnum. Hvort það þýðir eitthvað sérstakt skal ósagt látið. 

Titi Camara, fyrrum leikmaður Liverpool, sem er frá Gíneu eins og Naby lét hafa eftir sér að landi sinn væri búinn að ákveða að hann vildi spila með Liverpool á næsta keppnistímabili. Hann væri meira að segja búinn að ákveða að sækjast eftir treyju númer 8!

Oliver Mintzlaff, forstjóri Leipzig, segist á hinn bóginn vera orðinn þreyttur á öllum þessum kjaftasögum um Naby. Hann hnykkti á því að ekki stæði til að selja neina af bestu mönnum félagsins.

Við sjáum hvað setur!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan