| Heimir Eyvindarson

Svona verður dagurinn á Melwood

Leikmenn Liverpool mættu margir hverjir til starfa á Melwood í morgun eftir stutt sumarfrí. Dagskrá dagsins er stíf og ströng.
                                   
Þeir sem mæta til æfinga í dag eru: Karius, Grabara, Gomez, Matip, Milner, Moreno, Randall, Alexander-Arnold, Henderson, Lucas, Stewart, Mane, Firmino, Chirivella, Kent, Flanagan, Sakho, Markovic, Clyne, Sturridge, Bogdan og Ings.

Mohamed Salah, Adam Lallana, Philippe Coutinho, Emre Can, Georginio Wijnaldum, Simon Mignolet og Dejan Lovren fá aðeins lengra frí, en þeir hafa verið á ferð og flugi með landsliðum í sumar.

Dagskrá dagsins er stíf og ströng. Hópnum verður skipt í tvennt, en í stuttu máli fara allir í vigtun og allskonar mælingar og svo verður tekið á því í tækjasalnum á þremur stöðvum þar sem eitt og annað verður mælt, mjúkleiki, liðleiki, viðbragð og ég veit ekki hvað og hvað. Allt verður tekið upp á myndband og greint af sjúkraþjálfaragenginu.  

Eftir létta hressingu fer hópurinn svo út að hlaupa. Fyrst á að hlaupa á 8 kílómetra hraða, svo 10 kílómetra hraða og að lokum á 20 kílómetra hraða. Tveggja mínútna pása á milli hraðabreytinga og allsherjar mjólkursýrumælingar og fleira.

Eftir hádegið verður svo farið í einhverjar hoppæfingar þar sem viðbragð, snerpa og fjaðurmagn leikmanna verður skoðað gaumgæfilega.  

Á Liverpoolfc.com
er hægt að fylgjast með live bloggi frá Melwood. Meðan ekkert er að frétta af Keita er fátt betra að gera í rigningunni.  


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan