| Grétar Magnússon

Sigur í fyrsta æfingaleik

Fyrsti æfingaleikur undirbúningstímabilsins fór fram í kvöld þegar Liverpool heimsótti Tranmere Rovers.  Þægilegur 4-0 sigur vannst.

Ljóst var fyrir leik að Mohamed Salah myndi ekki spila í þessum leik þar sem atvinnuleyfi fyrir hann er ekki klárt í Englandi.  En Dominic Solanke var í leikmannahópnum og margir voru spenntir fyrir því að sjá hann í fyrsta sinn í treyju félagsins.

Byrjunarliðið í leiknum var þannig skipað:  Loris Karius, Trent Alexander-Arnold, Joel Matip, Lucas, James Milner, Jordan Henderson, Marko Grujic, Gini Wijnaldum, Sheyi Ojo, Roberto Firmino og Daniel Sturridge.

Ánægjulegt var einnig að sjá Jordan Henderson aftur á ferðinni en hann hafði ekkert spilað með liðinu frá því í febrúar.

Sheyi Ojo var næstum því búinn að skora eftir aðeins mínútu leik er hann fékk ágætt færi en skaut framhjá.  Leikurinn var fremur rólegur fyrsta hálftímann en bæði lið voru þó líkleg til að skora.  Ísinn var svo brotinn á 35. mínútu þegar markvörður Tranmere braut á Ojo inní vítateig og vítaspyrna var dæmd.  James Milner fór á punktinn og skoraði en markvörðurinn hefði kannski getað gert betur því hann var í boltanum.  Á 42. mínútu skoraði svo Marko Grujic með flottu skoti fyrir utan teig.  Staðan 0-2 í hálfleik.

Jürgen Klopp gerði svo 10 breytingar á liðinu fyrir seinni hálfleikinn og liðið var þannig skipað:  Loris Karius, Nathaniel Clyne, Joe Gomez, Ragnar Klavan, Jon Flanagan, Kevin Stewart, Pedro Chirivella, Ben Woodburn, Lazar Markovic, Ryan Kent og Dominic Solanke.


Eftir aðeins fimm mínútna leik var staðan orðin 0-3 þegar Pedro Chirivella skoraði.  Solanke fékk boltann í teignum, tók vel á móti honum og sneri sér fljótt og þrumaði að marki.  Skotið var varið en Chirivella var fyrstur til að átta sig og setti frákastið í netið.  Um miðjan seinni hálfleikinn fór svo Loris Karius af velli og í hans stað kom hinn 18 ára gamli Kamil Grabara í markið.

Tíu mínútum fyrir leikslok kom svo fjórða markið þegar brotið var á Ben Woodburn í teignum og önnur vítaspyrna dæmd.  Woodburn tók spyrnuna sjálfur og skoraði.  Öruggur og þægilegur sigur þegar upp var staðið og okkar menn mæta Wigan í næsta leik á föstudagskvöldið.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan