| Grétar Magnússon

Jafntefli gegn Wigan

Annar leikur liðsins á undirbúningstímabilinu endaði með jafntefli en leikið var við Wigan Athletic á heimavelli þeirra.  Mohamed Salah spilaði í fyrsta sinn með liðinu og skoraði jafnframt sitt fyrsta mark.

Byrjunarliðið var þannig skipað:  Simon Mignolet, Trent Alexander-Arnold, Joel Matip, Ragnar Klavan, Jon Flanagan, Gini Wijnaldum, Adam Lallana, Ben Woodburn, Mohamed Salah, Philippe Coutinho og Roberto Firmino.  Upphaflega átti Jordan Henderson að byrja leikinn en Wijnaldum kom inn fyrir hann á síðustu stundu.  Margir héldu þá að fyrirliðinn væri enn og aftur meiddur en svo var ekki og skiptingin var bara útaf taktískum ástæðum.  Henderson hóf seinni hálfleikinn í staðinn.

Leikurinn var ekki mínútu gamall þegar Mohamed Salah sýndi okkur hversu miklum hraða hann býr yfir.  Hann brunaði upp hægri kantinn og þrumaði að marki en skotið hitti ekki markið.  Skömmu síðar varði markvörður Wigan skot frá Alexander-Arnold og Lallana átti svo einnig skot framhjá markinu.

Góðri byrjun gestanna var svarað af heimamönnum og Omar Bogle átti skot rétt framhjá stönginni og Gilbey hefði sennilega átt að gera betur þegar boltinn hrökk til hans á vítateignum en skot hans hitti ekki markið.  Gilbey gerði hinsvegar engin mistök á 21. mínútu þegar leikmönnum Liverpool tókst ekki að hreinsa almennilega frá marki sínu eftir aukaspyrnu.  Bogle átti misheppnað skot en boltinn barst til Gilbey úti á teignum og nú hitti hann markið án þess að Mignolet kæmi neinum vörnum við.

Gestirnir brugðust við þessu og Firmino fékk tvö fín færi.  Í því fyrra varði Walton, markvörður Wigan, frá honum af stuttu færi og stuttu síðar skaut Firmino framhjá úr úrvals færi eftir frábært samspil upp völlinn hjá Coutinho, Salah og Lallana.  Lallana átti svo skalla að marki en áfram hélt markvörður heimamanna að verja vel.

Það tókst þó að brjóta ísinn rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.  Coutinho pressaði einn af varnarmönnum Wigan vel og vann af honum boltann.  Hann sendi innfyrir á Firmino sem átti gott hlaup inn á teiginn og skyndilega var hann kominn einn gegn markmanni.  Í stað þess að skjóta á markið renndi hann boltanum til hægri þar sem Salah átti auðvelt verk fyrir höndum og hann sendi boltann í netið.  Það er alltaf gott að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið og Salah og liðsfélagar hans fögnuðu markinu vel.


Skömmu síðar var flautað til hálfleiks og þá sendi Klopp þetta lið út á völlinn:  Loris Karius, Joe Gomez, Kevin Stewart, Dejan Lovren, James Milner, Jordan Henderson, Marko Grujic, Pedro Chirivella, Dominic Solanke, Daniel Sturridge og Divock Origi.

Seinni hálfleikur hófst á sama hátt og sá fyrri en Divock Origi komst ansi nálægt því að skora áður en að hálfleikurinn var mínútu gamall.  Skot hans úr þröngu færi rúllaði meðfram marklínunni en því miður ekki innfyrir hana.

Það verður að segjast að seinni hálfleikur var ekki mikið fyrir augað og ansi lítið markvert gerðist eftir þetta.  Það ber þó helst að nefna að Dejan Lovren komst næst því að skora þegar hann skallaði fyrirgjöf frá Milner í utanverða stöngina.  Þeir Sturridge og Milner reyndu svo sitt besta til að skora einnig en tókst það ekki og niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

Næsti leikur liðsins er gegn Crystal Palace í Premier League Asia Trophy.  Sá leikur fer fram næstkomandi miðvikudag, 19. júlí kl. 12:30 að íslenskum tíma.

Hér má sjá myndir úr leiknum.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan