| Grétar Magnússon

2-1 sigur á Leicester

Úrslitaleikur PL Asia Trophy fór fram í dag þegar Liverpool mætti Leicester City.  Okkar menn sigruðu 2-1 eftir að hafa lent undir snemma leiks.

Byrjunarliðið var þannig skipað:  Karius, Alexander-Arnold, Matip, Lovren, Milner, Wijnaldum, Lallana, Coutinho, Salah, Firmino, Origi.  Varamenn voru:  Mignolet, Gomez, Henderson, Sturridge, Grujic, Klavan, Moreno, Solanke, Flanagan, Kent, Woodburn.


Liverpool byrjuðu betur og Coutinho minnti á sig eftir aðeins þrjár mínútur þegar hann skaut að marki en því miður hitti hann ekki markið.  En gegn gangi leiksins tóku Leicester forystuna eftir 12 mínútur.  Christian Fuchs komst upp að endamörkum vinstra megin og sendi fyrir markið.  Þar mætti Islam Slimani á fjærstönginni og skallaði boltann í netið.

En það leið ekki langur tími þangað til að búið var að jafna metin.  Á 20. mínútu fékk Salah boltann úti hægra megin, sendi hann á Trent Alexander-Arnold og fékk hann svo til baka.  Salah sendi svo á Coutinho sem var fyrir framan vítateiginn og hélt áfram hlaupinu inná teiginn.  Coutinho sendi frábæra sendingu innfyrir beint á kollinn á Salah sem skallaði boltann í netið.

Ekki svo löngu síðar fékk Gini Wijnaldum fínt færi eftir að Schmeichel hafði kýlt boltann burt eftir aukaspyrnu frá Coutinho.  Skot Wijnaldum fór því miður framhjá.

Rétt fyrir hálfleik þurfti svo James Milner að fara meiddur af velli og í hans stað kom Alberto Moreno.  Örskömmu síðar var staðan orðin 2-1 fyrir Liverpool.  Það þarf varla að spyrja að leikslokum þegar Coutinho fær boltann úti vinstra megin fyrir utan vítateig.  Leikmenn Leicester komu engum vörnum við þegar hann lék nær marki og þrumaði svo boltanum upp í fjærhornið, óverjandi fyrir Schmeichel í markinu.

Seinni hálfleikur hófst svo með látum hjá Leicester mönnum þegar Jamie Vardy var tvisvar sinnum nálægt því að skora.  Í fyrra skiptið skapaði hann sér pláss í teignum og skaut að marki en skotið fór framhjá.  Í seinna skiptið komst Vardy nánast einn í gegn en Karius gerði vel út við vítateigslínu.

Marko Grujic átti ágætt skot sem fór yfir markið en það voru Leicester menn sem héldu áfram að ógna og Ragnar Klavan þurfti að hafa sig allan við þegar Vardy gerði sig enn og aftur líklegan til að skora.  Klavan komst sem betur fer fyrir skotið.


Fleiri færi litu ekki dagsins ljós og bæði lið skiptu inn mörgum mönnum í seinni hálfleik.  Niðurstaðan var því 2-1 sigur Liverpool manna og Asíubikarinn fór því á loft að leik loknum við þónokkuð mikinn fögnuð áhorfenda sem voru jú flestir á bandi Liverpool.

Hér má sjá myndir úr leiknum og hér má sjá myndir af því þegar bikarinn fór á loft.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan