| Sf. Gutt

Bayern átti ekki möguleika í München

Bayern átti ekki möguleika í München þegar Liverpool vann öruggan sigur 0:3 og tryggði sér sæti í úrslitum Audi bikarsins. Það er ekki á hverjum degi sem Bayern fær skell á  Allianz Arena og þó svo að um æfingaleik hafi verið að ræða þá lofar leikur Liverpool góðu fyrir komandi leiktíð.

Liverpool fékk óskabyrjun í grenjandi rigningu og yfir 30 stiga hita með því að skora strax á 7. mínútu. Roberto Firmino vann boltann við miðju lék fram að vítateignum þar sem hann renndi boltanum til hliðar á Sadio Mané. Senegalinn skoraði með öruggu skoti úr í fjærhornið. Mjög vel gert hjá báðum. Rétt á eftir fékk Mohamed Salah sendingu yfir til hægri en markmaður Bayern varði vel frá honum neðst í horninu.

Liverpool var miklu betri aðilinn og það var í raun skrýtið að sjá hversu illa Bayern spilaði. Þýsku meistararnir voru linir og komust ekkert áleiðis þrátt fyrir að vera mikið með boltann. Um miðjan hálfleikinn fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Alberto Moreno tók hana og hitti boltann vel en markmaðurinn varði naumlega.

Liverpool skoraði svo aftur á 34. mínútu. Aftur skapaði hröð sókn Liverpool usla. Sadio lék að markinu og sendi svo snjalla hælsendingu út til vinstri á Alberto. Það var ekki gott að segja hvort hann væri að senda fyrir eða skjóta en hvað sem var þá náði markmaðurinn ekki að stöðva boltann sem barst yfir á fjærstöng þar sem Mohamed Salah skallaði í markið af stuttu færi. Enn ein leiftursóknin en þær voru margar.

Yfirburðir Liverpool héldust í síðari hálfleik og Bayern komst ekkert áleiðis. Þegar um 20 mínútur voru eftir plataði varamaðurinn Ryan Kent varnarmann bayern upp úr skónum, lék upp á endamörkum og sendi út í vítateiginn á Marko Grujic. Hann skoraði með skoti í stöng og inn en markið var dæmt af. Adam Lallana var talinn trufla markmanninn ef rétt var skilið en þó var erfitt að sjá það.

Þriðja mark Liverpool varð þó ekki umflúið. Þegar sjö mínútur voru eftir slapp Daniel Sturridge sem kom inn á sem varamaður í gegn og lyfti boltanum glæsilega yfir markmanninn. Snillarafgreiðsla en Daniel fór í strax út af eftir að hafa skorað vegna þess að hann fann fyrir eymslum. Ekki er vitað hvort hann er alvarlega meiddur. 

Sigur Liverpool var sannfærandi og liðið spilaði stórvel. Bayern var með flesta sína bestu menn og það á heimavelli. Þó svo að þetta hafi verið æfingaleikur þá er ekki annað hægt að segja en leikur Liverpool lofi góðu og vonandi heldur það áfram á sömu braut.

Liverpool: Karius, Alexander-Arnold (Flanagan 79), Lovren, Matip (Klavan 67), Moreno, Henderson (Sturridge 67 (Firmino 86)), Can (Wijnaldum 45), Coutinho (Woodburn 79), Mane (Lallana 45), Salah (Grujic 67) og Firmino (Kent 67).

Mörk Liverpool: Sadio Mané (7. mín.), Mohamed Salah (34. mín.) og Daniel Sturridge (83. mín.).

Liverpool mætir Atletico Madrid í úrslitaleik á morgun. Madrid vann 2:1 sigur á Napoli í fyrri leik dagsins. Fernando Torres skoraði fyrra mark Madrid en Jose Reina var í liði Napoli.







TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan