| Grétar Magnússon

Tap í vítaspyrnukeppni

Liverpool tapaði fyrir Atlético Madrid í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Audi Cup í Þýskalandi.  Lokatölur eftir venjulegan leiktíma voru 1-1.


Jürgen Klopp stillti upp töluvert breyttu byrjunarliði í þessum leik en það var þannig skipað:  Danny Ward, Jon Flanagan, Joe Gomez, Ragnar Klavan, James Milner, Emre Can, Gini Wijnaldum, Adam Lallana, Ben Woodburn, Sadio Mane og Dominic Solanke.  Þeir James Milner og Joe Gomez höfðu jafnað sig af meiðslum sem hafa hrjáð þá á undirbúningstímabilinu og markvörðurinn ungi, Danny Ward, fékk tækifæri á milli stanganna.

Á varamannabekknum sátu: Loris Karius, Simon Mignolet, Roberto Firmino, Jordan Henderson, Marko Grujic, Andy Robertson, Joel Matip, Ryan Kent, Ovie Ejaria, Trent Alexander-Arnold og Divock Origi.  Þeir Philippe Coutinho, Dejan Lovren, Mohamed Salah og Alberto Moreno fengu svo allir frí frá verkefni kvöldsins.

Það verður að segjast að leikurinn í heild sinni var ekki upp á marga fiska og fá færi litu dagsins ljós.  Liverpool skapaði þó fyrsta færi leiksins þegar Solanke skallaði boltann framhjá eftir fína fyrirgjöf frá Ben Woodburn á vinstri kanti.  Woodburn átti svo flott skot eftir góða sendingu frá Lallana en boltinn fór framhjá markinu.

Á 27. mínútu skoruðu svo Atlético fyrsta mark leiksins.  Sending frá hægri kom fyrir markið þar sem Correa var nánast óvaldaður í teignum og náði skoti á markið.  Danny Ward gerði mjög vel í að verja það skot en boltinn fór í þverslána og Bare var fyrstur til að átta sig á frákastinu og skallaði boltann í vinstra hornið.  Fátt markvert gerðist eftir þetta og staðan því 0-1 í hálfleik fyrir Spánverjana.



Klopp gerði sex breytingar á liðinu í hálfleik, inná komu þeir Firmino, Henderson, Grujic, Robertson, Matip og Kent í stað Milner, Mane, Lallana, Can, Flanagan og Woodburn.

Liverpool var mun meira með boltann í seinni hálfleik en sköpuðu fá færi gegn þéttri vörn Atlético.  Á 64. mínútu komu þeir Ovie Ejaria og Divock Origi inná fyrir Dominic Solanke og Gini Wijnaldum og tíu mínútum síðar kom Trent Alexander-Arnold inná fyrir Joe Gomez.  Undir lok leiksins gerðu Liverpool menn sig líklegri uppvið markið og Grujic átti skot úr ágætis færi en það fór yfir markið.  Átta mínútum fyrir leikslok var svo brotið á Origi í vítateignum og Firmino fór á punktinn og skoraði örugglega.

Bæði lið hefðu getað skorað áður en leiknum lauk en Danny Ward var vel á verði þegar hann varði vel skalla eftir hornspynu og hinumegin átti Andy Robertson flott skot að marki sem fór rétt framhjá.

Staðan 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og því var farið beint í vítaspyrnukeppni þar sem Atlético hafði sigur.  Þeir skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum á meðan Jordan Henderson misnotaði sína spyrnu.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan