| Sf. Gutt

Góður endir á undirbúningstímabilinu

Liverpool endaði undirbúningstímabilið vel með góðum 3:1 sigri á Athletic Bilbao í Dublin höfuðstað Írlands. Um næstu helgi hefst svo alvaran þegar efsta deild á Englandi fer af stað!

Ekki voru allir sterkustu leikmenn tiltækir í Dublin. Adam Lallana meiddist auðvitað í Munchen og verður ekki með næstu mánuði. Jordan Henderson var veikur og Philippe Coutinho stirður í baki. Nathaniel Clyne er búinn að vera meiddur að undanförnu. Allir þessir voru heima og munar um minna. 

Liverpool byrjaði betur gegn spænska liðinu og Divock Origi hefði átt að skora eftir tæpar níu mínútur þegar hann komst í dauðafæri eftir snöggt spil en hann skaut framhjá. Liverpool komst yfir á 21. mínútu. Roberto Firmino braust inn í vítateginn þar sem brotið var á honum. Hann skoraði sjálfur úr vítinu.

Níu mínútum seinna jafnaði Bilbao. Dejan Lovren virtist vera búinn að koma boltanum frá eftir sókn spænska liðsins. En boltinn hrökk af honum fyrir fætur Williams. Hann lék inn í vítateiginn, kom sér í betri stöðu og skoraði af öryggi framhjá Simon Mignolet. Eftir þetta var Bilbao heldur sterkara liðið fram að hléi en staðan var jöfn 1:1 þegar hléið hófst. 

Aðeins Simon hóf síðari hálfleikinn af þeim sem voru í byrjunarliðinu. Lið síðari hálfleiks spilaði betur en það sem lék fyrri hálfleik. Á 56. mínútu sendi Ryan Kent vel fyrir á Sadio Mané en markmaður Bilbao varði meistaralega með því að slá boltann yfir. Þremur mínútum seinna náði Liverpool forystu. Dominic Solanke gaf fyrir frá vinstri á Ben Woodburn. Hann tók vel við boltanum rétt utan við vítateiginn, lék framhjá varnarmanni og þrumaði boltanum svo út við stöng. Glæsilegt skot hjá Ben sem sýndi hvað í honum býr. 

Liverpool hafði öll tök á leiknum til loka leiks og þegar tíu mínútur voru eftir gerði Dominic Solanke út um leikinn. Ragnar Klavan sendi inn í vítateginn og Dominic skallaði fallega í mark. Enn lætur þessi ungi leikmaður að sér kveða. Góður sigur Liverpool sem gerði það að verkum að undirbúningstímabilið endaði eins og best varð á kosið. 

Um næstu helgi hefst keppni í efstu deild á Englandi og þá verða allir í herbúðum Liverpool að vera tilbúnir í slaginn. Það þyrfti nauðsynlega að styrkja hópinn enn frekar en tíminn leiðir í ljós hvort af því verður. Það er líka tími til þess út mánuðinn. Vonandi gengur allt vel þegar á hólminn er komið. Liðið lék á köflum mjög vel á undirbúningstímabilinu og margt í leik þess lofar góðu!

Liverpool: Mignolet, Alexander-Arnold (Flanagan 45), Lovren (Gomez 45), Matip (Klavan 45), Moreno (Robertson 45), Can (Wijnaldum 45), Milner (Ejaria 45), Grujic (Woodburn 45), Salah (Kent 45), Firmino (Solanke 45) og Origi (Mane 45). Ónotaðir varamenn: Karius og Ward.

Mörk Liverpool: Roberto Firmino (21. mín.),  Ben Woodburn (59. mín) og Dominic Solanke (80. mín.).

Mark Bilbao: Williams (30. mín.).

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér eru myndir sem teknar voru eftir leikinn.

















TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan