| Sf. Gutt

Til hamingju með daginn Roy!


Gérard Houllier varð sjötugur á árinu en þeim aldri náði líka annar fyrrum framkvæmdastjóri Liverpool. Um er að ræða Roy Hodgson sem varð sjötugur 9. ágúst. Hér á Liverpool.is var minnst á afmæli Frakkans og til að jafnræðis sé gætt skal líka senda Roy afmæliskveðju. 

Roy Hodgson fæddist í Croydon í London á Englandi þann 9. ágúst 1947. Hann æfði með unglingaliði Crystal Palace en komst aldrei í aðallið félagsins. Síðar kom hann við sögu hjá Tonbridge, Gravesend and Northfleet, Maidstone, Ashford Town, Berea Park í Suður Afríku og Carshalton Athletic. Hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 1976 og hóf þá þjálfaraferil sem stendur enn. Hér að neðan er listi yfir þau félagslið og landslið sem Roy hefur þjálfað.

1976-1980. Halmstad (Svíþjóð) 
1982. Bristol City 
1983-1985. Örebro (Svíþjóð) 
1985-1990. Malmö FF (Svíþjóð) 
1990-1992. Neuchâtel Xamax (Sviss) 
1992-1995. Landslið Sviss 
1995-1997. Inter Milan (Ítalía) 
1997-1998. Blackburn Rovers 
1999. Inter Milan (Ítalía) 
1999-2000. Grasshopper (Sviss) 
2000-2001. F.C. Kaupmannahöfn (Danmörk) 
2001. Udinese (Ítalía) 
2002-2004. Landslið Sameinuðu arabísku furstadæmana 
2004-2005. Viking (Noregur) 
2006-2007. Landslið Finnlands



2007-2010. Fulham


 
2010-2011. Liverpool 



2011-2012. West Bromwich Albion.


2012-2016. Landslið Englands.
2017-???? Crystal Palace. 


Titlar sem Roy Hodgson hefur unnið á ferli sínum.

Halmstad: Svíþjóðarmeistari 1976 og 1979.
Malmö FF: Svíþjóðarmeistari 1986 og 1988. Bikarmeistari 1986 og 1989.
F.C. Kaupmannahöfn: Danmerkurmeistari 2001. Stórbikar Danmerkur 2001.
 Svissneska landsliðið: Kom liðinu í úrslitakeppni Heimsmeistarakeppninnar í Bandaríkjunum 1994.
Enska landsliðið: Stýrði landsliðinu í úrslitakeppni EM 2012. Kom Englendinum á HM 2014 og EM 2016.

Framkvæmdastjóri ársins á Englandi 2010.
 



Stjórnartíð Roy Hodgson hjá Liverpool var mislukkuð frá upphafi og má segja að hann hafi verið rangur maður á röngum tíma. Hann tók við í byrjun júlí 2010 og var með liðið þar til í byrjun janúar árið eftir þegar hann vék úr starfi og Kenny Dalglish tók við. Aðstæður hjá Liverpool þegar hann tók við voru mjög erfiðar og um haustið var félagið á barmi gjaldþrots. Litlir peningar voru til að kaupa góða leikmenn og allt í upplausn. Roy átti að lægja öldur og byggja upp en það tókst honum ekki. Kannski hefði hann getað gert betur með tíð og tíma en hann hefur þó aldrei stjórnað stórliði á borð við Liverpool nema Inter Milan. Hann er betri með minni félög eins og komið hefur í ljós á ferli hans.  



Síðan hefur Roy þjálfað W.B.A. og enska landsliðið. Ferill hans með því endaði þegar íslenska landsliðið sló það enska út eftir frækilegan sigur í Nice í fyrrasumar. Hann sagði af sér eftir ófarirnar í Frakklandi. Segja má að ferill Roy sé nú kominn í hring því hann er nú orðinn framkvæmdastjóri Crystal Palace þar sem hann hóf knattspyrnuferil sinn. 

Við óskum Roy Hodgson til hamingju með afmælið þó seint sé. 

 



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan