| Sf. Gutt

Enn viðurkenning fyrir Steven Gerrard


Nú í kvöld hlaut Steven Gerrard enn eina viðurkenninguna fyrir feril sinn. Steven var útnefndur Knattspyrnugoðsögn fyrir árið tvöþúsund og seytján. Viðurkeningin var veitt á sérstakri samkomu og allur ágóði af henni rann til Nordoff Robbins sem vinnur að því að nota tónlist sem meðhöndlun við ýmsum sjúkdómum og eins fyrir einstæðinga. Gérard Houllier, fyrrum framkvæmdastjóri Liverpool, veitti Steven viðurkenninguna og voru meðal annars fyrrum félagar hans Jamie Carragher, Xabi Alonso og Sami Hyypia meðal gesta. Kenny Dalglish og Péle eru meðal þeirra sem hafa fengið þessa viðurkenningu. Steven taldi sig varla eiga heim á meðal slíkra stórmenna. 


,,Ég er ekki alveg viss um að ég eigi heima í slíkum félagsskap en ég þigg viðurkenninguna með þökkum. Það snýst allt um mig í kvöld og ég tek auðmjúkur og þakklátur við viðurkenningunni en mestu skiptir að gott málefni nýtur góðs af. Ég náði að upplifa drauminn sem ég átti um að spila fyrir Liverpool og verða fyrirliði liðsins."Aðspurður sagði Steven að Evrópubikarsigurinn í Istanbúl hafi verið hápunkturinn á knattspyrnuferlinum. Hann segist enn stefna að ákveðnum markmiðum þó svo að hann sé búinn að leggja skóna á hilluna. 

,,Vonandi á ég eftir að verða framkvæmdastjóri og þjálfa lið í fremstu röð og geti á þeim vettvangi bætt við þá hápunkta sem ég náði sem leikmaður!"Steven er auðvitað búinn að taka fyrstu skrefin á nýjum ferli en hann er núna þjálfari undir 18 ára liðs Liverpool. 

Það skal tekið fram að efsta myndin var tekin þegar Steven Gerrard var tekinn inn í Heiðurshöll Þjóðarknattspyrnuminjasafnsins í síðasta mánuði.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan