| Grétar Magnússon

Landsleikjafréttir

Hér eru síðbúnar landsleikjafréttir af gengi okkar manna með landsliðum sínum í nýliðinni landsleikjatörn.

Á sunnudaginn spilaði Andy Robertson með Skotum gegn Slóveníu á útivelli.  Skotar þurftu að vinna leikinn til að komast í umspil um sæti á HM en þeim tókst það því miður ekki en lokatölur voru 2-2.  Skotar komust yfir eftir hálftíma leik en Slóvenar svöruðu með tveim mörkum.  Skotar jöfnuðu metin tveim mínútum fyrir leikslok en þeim tókst ekki að skora sigurmarkið mikilvæga sem þýddi að þeir lentu í þriðja sæti F-riðils.  Robertson spilaði allan leikinn í vinstri bakvarðastöðunni.

Englendingar mættu Litháum á útivelli og þar spilaði Jordan Henderson allan leikinn.  Daniel Sturridge kom inná á 72. mínútu og Alex Oxlade-Chamberlain sat á varamannabekknum allan tímann.  Lokatölur voru 0-1 fyrir England þar sem Harry Kane skoraði markið.  Englendingar unnu F-riðil og fara beint á HM eins áður hefur komið fram.

Þjóðverjar mættu Aserbaídsjan á heimavelli og unnu öruggan 5-1 sigur, þar með unnu þeir alla sína leiki í undankeppninni.  Emre Can var í byrjunarliðinu og skoraði síðasta mark leiksins með þrumuskoti af 25 metra færi.  Þjóðverjar fara að sjálfsögðu á HM með fádæma yfirburðum.

Mohamed Salah varð þjóðhetja í Eyptalandi þegar hann skoraði bæði mörkin í 2:1 sigri á Kongó. Sigurmarkið skoraði hann af miklu öryggi úr vítaspyrnu þegar komið var fram í viðbótartíma. Sigurinn tryggði Egyptalandi farseðil í úrslitakeppni HM í fyrsta sinn frá 1990. Mohamed var borinn á gullstóli eftir leikinn!

Mánudagurinn var dagurinn sem allir Íslendingar biðu eftir og að sjálfsögðu tryggði íslenska landsliðið sér þátttökurétt til að spila á HM í fyrsta sinn í sögunni eftir 2:0 sigur á Kósóvó á Laugardalsvelli.

Dejan Lovren og félagar hans í Króatíu sigruðu svo Úkraínu á útivelli 0-2 í úrslitaleik um hvort liðið næði öðru sæti riðilsins á eftir Íslandi.  Lovren spilaði allan leikinn í vörninni.

Það var hinsvegar ekki fögnuður fyrir Ben Woodburn og Walesverja þegar þeir mættu Írlandi á heimavelli.  Leikurinn var úrslitaleikur um hvort liðið kæmist í umspil og það voru Írar sem sigruðu 0-1.  Woodburn kom inná á 64. mínútu og náði ekki að setja mark sitt á leikinn eins og áður í þessari undankeppni.

Corey Whelan, fyrirliði U-23 ára liðs félagsins spilaði svo allan leikinn fyrir U-21 árs landslið Írlands sem sigruðu Ísrael 4-0 í Dublin.

Á þriðjudagskvöldið mættust Holland og Svíþjóð í Amsterdam þar sem Gini Wijnaldum spilaði í 71 mínútu.  Hollendingar sigruðu 2-0 en það dugði ekki til að komast í umspilssæti, sigurinn hefði þurft að vera mun stærri og möguleikarnir voru því ekki miklir.

Simon Mignolet og Divock Origi voru ónotaðir varamenn þegar Belgar sigruðu Kýpur 4-0 á heimavelli.

Fyrr um daginn mætti U-21 árs landslið Englands Andorra og sigruðu þeir 1-0.  Dominic Solanke kom inná sem varamaður á 79. mínútu og Trent Alexander-Arnold og Joe Gomez sátu á bekknum allan tímann.

Að lokum eru svo fréttir af þeim félögum Roberto Firmino og Philippe Coutinho en Brasilíumenn spiluðu á heimavelli við Chile og sigruðu 3-0.  Brasilíumenn voru fyrir leikinn öryggir með sæti á HM.  Coutinho byrjaði leikinn og var skipt útaf fyrir Firmino á 87. mínútu.







TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan