| Heimir Eyvindarson

Rótburst í Slóveníu



Liverpool rótburstaði Maribor í Slóveníu í 3. umferð Meistaradeildar í kvöld. Lokatölur urðu 0-7, sem er stærsti Evrópusigur Liverpool á útivelli í sögunni. 

Jürgen Klopp stillti upp þrælsterku liði í kvöld, gerði einungis 3 breytingar á liðinu frá stórleiknum við United um helgina. Karius kom í markið, TAA í hægri bakvörðinn og Milner á miðjuna fyrir Henderson. Greinilegt að Liverpool tók þennan leik 100% alvarlega, enda mikið í húfi.
Strax á 4. mínútu kom fyrsta mark Liverpool. Það gerði Firmino eftir vandræðagang í vörn Maribor og góða sendingu frá Salah. Staðan 0-1, óskabyrjun Liverpool. 

Á 13. mínútu kom líklega fallegasta mark leiksins. Góð sókn Liverpool endaði með frábærri sendingu fyrir markið frá Milner sem Coutinho afgreiddi snilldarlega í fyrsta, óverjandi fyrir Handanovic í marki heimamanna. 0-2 eftir 13. mínútur. 

Firmino og Moreno voru báðir nálægt því að skora áður en Salah setti þriðja markið. Firmino átti flotta sendingu inn fyrir hripleka vörn Maribor og Salah afgreiddi boltann af óvenju miklu öryggi í fjærhornið. 0-3 eftir tæplega 20 mínútna leik. 

Salah skoraði svo aftur 7 mínútum síðar en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Líklega réttur dómur, en það mátti ekki miklu muna. Liverpool langtum betra lið og bara spurning hversu stór sigurinn yrði. 

Á 39. mínútu var Salah svo enn og aftur á ferðinni þegar hann stal marki af Firmino eftir flottan undirbúning Coutinho og Moreno.

Staðan 0-4 í hálfleik og ljóst að Klopp gæti hvílt einhverja leikmenn fljótlega í síðari hálfleik. Liverpool átti leikinn algjörlega skuldlaust hefði getað skorað nokkur mörk til viðbótar, átti að fá víti og svo framvegis.

Veislan hélt áfram í seinni hálfleik. Wijnaldum og Coutinho hefðu báðir getað skorað áður en fimmta markið leit dagsins ljós. Það gerði Firmino með laglegum skalla eftir aukaspyrnu Coutinho. 

Á 86. mínútu kom Oxlade-Chamberlain Liverpool í 0-6 með marki eftir fáránlega sendingu Suler í vörn Maribor beint á Daniel Sturridge. Sturridge gat valið að senda til vinstri á Coutinho eða til hægri þar sem Chamberlain kom á ferðinni og kláraði færið af mikill fagmennsku. Virkilega vel gert hjá báðum, Ox og Sturridge. Fyrsta mark Oxlade-Chamberlain fyrir Liverpool og örugglega mikill léttir fyrir hann að verða loks að einhverju gagni. 

Undir lokin kom svo meistari Suler í vörn Maribor aftur við sögu þegar hann stýrði föstu skoti TAA með höndinni í markið, óverjandi fyrir Handanovic. Lokatölur í Slóveníu 0-7 fyrir Liverpool. Mjög mikilvægur sigur fyrir Liverpool og ekki skemmdi fyrir að hægt var að hvíla leikmenn í seinni hálfleik. Þeir sem ekki fengu að fara útaf og hvíla spiluðu í mesta lagi á hálfum hraða, sem var feykinóg eftir flugeldasýninguna í fyrri hálfleik.

Það skemmdi ekki heldur fyrir okkar mönnum að Spartak Moskva vann nokkuð óvæntan heimasigur á Sevilla, 5-1. Sem gerir það að verkum að Liverpool er á toppi E-riðils með fimm stig og 10 mörk í plús. Næsti leikur Liverpool í keppninni er einmitt gegn Maribor á Anfield og við hljótum bara að gera ráð fyrir því að Liverpool verði enn á toppi E-riðils eftir þann leik.

Liverpool: Karius, TAA, Matip, Lovren, Moreno, Can, Wijnaldum (Solanke á 76. mín.), Milner, Coutinho, Firmino (Sturridge á 68. mín.), Salah (Oxlade-Chamberlain á 56. mín). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Gomez, Klavan, Henderson. 

Mörk Liverpool: Firmino á 4. og 54. mín., Salah á 20. og 39. mín., Coutinho á 13. mín., Oxlade-Chamberlain á 86. mín. og Alexander-Arnold á 90. mín.

Maður leiksins: Það koma vitanlega nokkuð margir til greina eftir 7-0 sigur. Það áttu allir góðan dag að þessu sinni, en ef á að taka einhvern út þá eru það kannski helst Salah og Milner. Salah lét varnarmenn Maribor hvað eftir annað líta út eins og viðvaninga (sem þeir voru reyndar á vissan hátt) og Milner var skemmtilega sprækur á miðjunni. Ég get ekki gert upp á milli þeirra tveggja. Frábær sigur og nú er það bara Tottenham um helgina, en þeir þurftu að hafa heldur meira fyrir hlutunum í kvöld en okkar menn.

Hér
má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

Hér er viðtal við Klopp af sömu síðu.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan