| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næst síðasti leikur okkar manna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar er í kvöld þegar liðið heimsækir Sevilla á Ramón Sánchez Pizjuán leikvanginn.  Leikurinn hefst klukkan 19:45.

Okkar menn eru á góðri siglingu um þessar mundir og eftir tapið slæma gegn Tottenham hafa fjórir leikir unnist í röð og liðið haldið hreinu í þremur af þeim, sem verður að teljast nokkuð gott svona miðað við varnarvandræðin framan af tímabili.  En Sevilla menn eru erfiðir heim að sækja og leikurinn er auk þess mikilvægur uppá framhaldið í riðlinum að gera.

Liverpool er á toppi riðilsins með átta stig en Sevilla menn eru þar stigi á eftir, leikurinn er því nánast úrslitaleikur um toppsætið í riðlinum.  Fyrri leikur liðanna var sá fyrsti í riðlakeppninni á tímabilinu og endaði hann 2-2 þar sem okkar menn fóru illa með færin og gáfu klaufaleg mörk í staðinn.  Roberto Firmino klúðraði vítaspyrnu í fyrri hálfleik og það reyndist dýrt þegar upp var staðið, en leikmenn hafa þó rifið sig í gang eftir þetta og eru í góðri stöðu.

Leikmannahópurinn sem ferðaðist til Spánar í gær er sterkur og engin ný meiðslavandræði hafa komið upp, Joel Matip er enn að glíma við einhver meiðsli en hann ætti að vera klár í stórleik helgarinnar gegn Chelsea á laugardaginn kemur.  Adam Lallana gæti svo fengið að spila einhverjar mínútur í kvöld til að bæta leikæfingu sína fyrir komandi átök.  Loris Karius stendur væntanlega í markinu og vörnin verður að öllum líkindum óbreytt en þó gæti Joe Gomez komið inn í hægri bakvörðinn til að leysa Alexander-Arnold af.  Pilturinn sá spilaði reyndar einn sinn besta leik fyrir Liverpool gegn Southampton um helgina og ætti að mínu mati að halda sæti sínu.  Miðjan er alltaf spurningamerki þar sem margir góðir leikmenn banka fast á dyrnar um sæti í byrjunarliðinu en fremstu þrír ættu að öllum líkindum að vera áfram þeir Salah, Mané og Firmino.  Philippe Coutinho verður því einn af miðjumönnunum og spurningin er hvort að þeir Wijnaldum og Henderson haldi sæti sínu en það kemur allt í ljós.  Jürgen Klopp á því við ákveðin vandamál að etja þegar kemur að því að stilla upp liðinu en loksins er það vandamál þess eðlis að leikmenn eru ómeiddir og það er vel.

Þetta verður erfiður leikur og ég held að Liverpool menn hafi ekki sigur í þessum leik, jafntefli er líkleg niðurstaða og eigum við ekki að segja að lokatölur verði 1-1.  Liverpool skorar fyrst og heimamenn jafna í seinni hálfleik eftir mikla pressu.

Fróðleikur

- Mohamed Salah er markahæstur á tímabilinu með 14 mörk í öllum keppnum.

- Salah hefur skorað fimm mörk í Evrópu á tímabilinu.

- Wissam Ben Yedder er markahæstur Sevilla manna á tímabilinu með 8 mörk í öllum keppnum.

- Bæði lið eru með 22 stig í deildum sínum eftir 12 leiki á tímabilinu.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan