| Grétar Magnússon

Jafntefli í Sevilla

Liverpool missti niður þriggja marka forystu á Spáni í kvöld þegar þeir heimsóttu Sevilla.  Lokatölur voru 3-3.

Jürgen Klopp stillti upp óbreyttu liði frá leiknum við Southampton fyrir utan eina breytingu sem flestir bjuggust við, Joe Gomez kom inn í stað Trent Alexander-Arnold.  Eftir aðeins 88 sekúndur voru Liverpool menn komnir yfir.  Coutinho tók hornspyrnu og Wijnaldum flikkaði boltanum yfir á fjær þar sem Firmino var mættur og setti boltann snyrtilega í netið úr mjög þröngu færi.  Sevilla menn létu þetta ekki á sig fá og hefðu átt að jafna metin á 19. mínútu þegar Nolito komst innfyrir og skaut að marki úr teignum, Karius varði boltann í stöngina og greip svo boltann sem skoppaði til hans.  Örskömmu síðar fékk Ben Yedder gott skotfæri hægra megin en boltinn fór rétt framhjá.  Tveim mínútum síðar voru gestirnir svo búnir að bæta við öðru marki og aftur eftir hornspyrnu frá hægri.  Að þessu sinni var það Firmino sem skallaði boltann yfir á fjærstöngina þar sem Mané skallaði boltann í fjærhornið.  Eftir hálftíma leik var svo staðan orðin 0-3.  Mané fékk sendingu innfyrir vinstra megin og var nánast kominn einn í gegn.  Hann skaut að marki en skotið var varið, boltinn barst beint til Firmino sem gat ekki klúðrað fyrir opnu marki og allt leit heldur betur vel út fyrir Liverpool menn.


Það var hinsvegar annað uppá teningnum í síðari hálfleik.  Heimamenn mættu grimmir til leiks og eftir aðeins sex mínútur lá boltinn í netinu.  Aukaspyrna var tekin frá hægri eftir að Moreno hafði brotið af sér á afskaplega klaufalegan hátt.  Ben Yedder mætti boltanum og skallaði hann í fjærhornið.  Eftir klukkutíma leik var staðan orðin 2-3 þegar vítaspyrna var dæmd fyrir ansi litlar sakir að því er virtist.  Dómarinn lét Ben Yedder taka spyrnuna tvisvar en honum brást ekki bogalistin.  Heimamenn ætluðu að láta kné fylgja kviði þarna en náðu þó ekki að ógna mikið eftir þetta og oftar en ekki var dæmd rangstaða á þá í sóknaraðgerðum sínum.  Klopp gerði tvær breytingar, setti Can og Milner inná fyrir Coutinho og Moreno til að reyna að stilla sína menn af.  Það virtist hafa tilætluð áhrif en í uppbótartíma fengu heimamenn hornspyrnu sem þeir skoruðu úr.  Lokatölur 3-3.

Sevilla:  Rico, Mercado, Geis, Lenglet, Escudero, N'Zonzi (Vázuez, 45. mín.), Banega, Pizarro, Sarabia, Ben Yedder (Correa, 81. mín.), Nolito (Muriel, 73. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Corchia, Krohn-Dehli, Soria, Jesús Navas.

Mörk Sevilla:  Ben Yedder (51. og 60. mín. (víti)) og Pizarro (90. mín.).

Gul spjöld:  Mercado og Banega.

Liverpool:  Karius, Moreno (Milner, 63. mín.), Klavan, Lovren, Gomez, Henderson, Wijnaldum, Coutinho (Can, 63. mín.), Mané, Salah (Oxlade-Chamberlain, 87. mín.), Firmino.  Ónotaðir varamenn:  Mignolet, Alexander-Arnold, Sturridge, Solanke.

Mörk Liverpool:  Roberto Firmino (2. og 30. mín.) og Sadio Mané (22. mín.).

Gul spjöld:  Moreno, Henderson og Can.

Maður leiksins:  Það er erfitt að velja mann leiksins eftir svona kaflaskiptan leik þar sem liðið var frábært í fyrri hálfleik en svo sannarlega ekki í þeim síðari.  En Roberto Firmin skoraði tvö mörk og heldur áfram að spila vel sem fremsti maður.

Jürgen Klopp:  ,,Það er auðvelt að lýsa þessu - tveir mismunandi hálfleikar.  Stórkostlegur fyrri hálfleikur hjá mínu liði og í seinni hálfleik gerum við mistök og hættum að spila knattspyrnu.  Það er eðlilegt að við reynum að stjórna leiknum þá en okkar lið þarf að stjórna leiknum með boltann - og það var enginn að spila almennilega lengur.  Við vorum of passívir, þeir skora fyrsta mark sitt og þá var augljóst að andrúmsloftið á vellinum breyttist strax."

Fróðleikur:

- Roberto Firmino er markahæstur leikmanna félagsins í Evrópu á tímabilinu með sex mörk.  Hann hefur skorað alls níu mörk á tímabilinu.

- Sadio Mané skoraði sitt fyrsta mark í Evrópukeppni fyrir félagið.  Hann hefur nú skorað þrjú mörk á tímabilinu.

- Liverpool sitja enn á toppi riðilsins eftir leiki kvöldsins.

Hér má sjá myndir úr leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan