| Sf. Gutt

Gott að hann var ekki góður hjá Chelsea!


Liverpool mætir Englandsmeisturum Chelsea á Anfield undir kvöld á laugardaginn. Mohamed Salah spilar þá í fyrsta sinn á móti Chelsea eftir að hann yfirgaf félagið eftir stuttan tíma þar. Jürgen Klopp segir að Mohamed þurfi ekki að sanna neitt fyrir Chelsea í leiknum en fjölmiðlamenn gera því skóna að egyptinn vilji sýna Chelsea að þar á bæ hafi menn gert mistök í að hafa ekki notað hann meira. Reyndar hafa sumir leikmenn Chelsea ýjað að þessu nú þegar dregur að leiknum.

Jürgen sagði á blaðamannafundi í dag að Mohamed hefði verið ungur og óreyndur leikmaður þegar hann var hjá Chelsea. Fleiri ungliðar hafi ekki náð að festa sig í sessi hjá Chelsea síðustu árin. Hann nefndi Kevin De Bruyne í þessu sambandi en hann var um tíma hjá Chelsea. Belginn fór svo til Wolfsburg í Þýskalandi þaðan sem Manchester City keypti hann og nú er hann einn besti leikmaður ensku deildarinnar. 


Mohamed var keyptur frá Basel til Chelsea í janúar 2014 en Liverpool sóttist mjög eftir honum á sama tíma. Hann spilaði aðeins 19 leiki áður en hann var lánaður til Fiorentina og svo Roma áður en hann var seldur þangað. 


Jürgen sagði það hið besta mál að Mohamed skyldi ekki ganga betur hjá Chelsea. Hann hefði þá kannski aldrei komið til Liverpool!

,,Honum hefur farið mikið fram og sérstaklega er hann orðinn líkamlega sterkari. Ég sá hann fyrst spila þegar hann var hjá Basel og hann var þá þegar eldfljótur. Ég held að hann hafi ekkert að sanna. Ég held að hann horfi ekki þannig á það. Þetta er bara eðlileg staða. Það endaði með því að hann náði að sanna sig og nú er hann kominn til Liverpool. Ef hann hefði spilað betur hjá Chelsea hefðum við líklega ekki náð í hann. Ég er þess vegna mjög ánægður með þetta allt saman!"


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan