| Heimir Eyvindarson

Enn einn sigurinn í appelsínugulu

Leikmenn Liverpool klæddu sig í appelsínugulu búningana í kvöld og unnu þriggja marka sigur á Stoke. Þar með hefur liðið skorað 14 mörk í 3 leikjum í appelsínugulu í vetur.
Jürgen Klopp gerði 6 breytingar á liðinu frá leiknum við Chelsea um helgina. Mesta athygli vakti að Solanke byrjaði í framlínunni. Við hlið hans frammi voru Mané og Firmino, sem voru settir á bekkinn eftir jafnteflið við Sevilla. Can og Wijnaldum komu inn á miðjuna og Lovren tók sæti Klavan, sem var ekki í hóp vegna veikinda. Adam Lallana var ekki heldur í hóp, en hann er að glíma við smávægilega vöðvatognun og verður frá í 4-5 daga. Simon Mignolet var fyrirliði í fjarveru Henderson og Milners.

Liverpool byrjaði leikinn vel og var betra liðið svo að segja allan fyrri hálfleikinn.

Fyrsta markið kom á 17. mínútu, það gerði Mané eftir góðan undirbúning Gomez og Solanke. Gomez sendi boltann fyrir á Solanke sem nikkaði honum laglega á Mané sem vippaði yfir Grant í markinu. Firmino hefði getað ýtt boltanum yfir línuna og stolið markinu af Senegalanum, en lét það eiga sig. Var kannski hræddur um að vera rangstæður.

Heimamenn voru ósáttir við dómaratríóið, töldu að boltinn hefði verið kominn aftur fyrir endamörk í aðdraganda marksins.  

Síðasta korterið í fyrri hálfleik komust heimamenn meira inn í leikinn og á 39. mínútu var Mignolet kannski svolítið heppinn að fá ekki að líta rauða spjaldið hjá Martin Atkinson eftir að hann straujaði Diouf niður rétt fyrir utan teiginn. Ekki jókst álit Stoke á Atkinson og co. við þá ákvörðun. En Liverpool slapp með skrekkinn.

Á 43. mínútu fékk Mané algjört dauðafæri eftir frábæra sendingu frá Solanke, en setti boltann í stöngina. Þarna hefði staðan algjörlega átt að vera 0-2, en niðurstaðan eins marks forysta í leikhléi og útlitið alveg ágætt.

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti en eftir 10-15 mínútur fjaraði spilið svolítið út og við tók óþægilegur kafli þar sem jöfnunarmark heimamanna lá í loftinu. Joe Allen fékk líklega besta færi Stoke á þessum kafla en sem betur fer hefur hann aldrei verið sérstaklega markheppinn. 

Á 67. mínútu kom svo tvöföld skipting hjá Klopp, Milner og Salah komu inn fyrir Ox og Solanke. 10 mínútum síðar var Salah búinn að koma Liverpool í 2-0 - og þvílíkt mark sem það var.

Mané vann boltann á ótrúlegan hátt fyrir aftan sofandi varnarmenn Stoke, þeyttist í vonlausri stöðu meðfram endalínunni og sendi gullsendingu á fjær þar sem Salah lúðraði boltanum viðstöðulaust upp í þaknetið. Þvílík afgreiðsla!

Á 83. mínútu var Salah svo aftur á ferðinni, Can sendi háan og ekkert sérstakan bolta í átt að Stoke markinu og Salah hljóp ráðvilltan Pieters uppi og komst einn gegn Grant. Eins og Salah misnotaði mörg marktækifæri í byrjun leiktíðar er bara eins og hann geti ekki klikkað á færi núna. Afgreiðslan alveg ísköld og staðan 0-3, ótrúleg innkoma hjá Egyptanum. 

Undir lok leiksins fékk Stoke þrjú dauðafæri í sömu sókninni eftir að Mignolet hafði misst sakleysislegan bolta frá Jesé of langt frá sér, en á einhvern súrrealískan hátt tókst Diouf ekki að skora og var síðan á endanum dæmdur rangstæður. Það átti greinilega ekki fyrir Stoke að liggja að skora í kvöld. Sem betur fer.

Niðurstaðan á bet365 0-3 sigur Liverpool. Í rauninni ekki eins öruggur sigur og tölurnar segja til um því Stoke var eiginlega orðið allsráðandi á vellinum áður en Salah kom inná. Sem betur fer brást Klopp nokkuð fljótt við í þetta skiptið og dýrmæt þrjú stig í höfn og hreint mark í þokkabót, sem er alltaf ánægjulegt.  

Stoke: Lee Grant, Shawcross, Pieters, Shawcross, Zouma, Allen, Shaqiri, Martins-Indi, Fletcher (Adam á 85. mín.), Choupo-Moting (Jesé á 74. mín.), Diouf og Crouch. Ónotaðir varamenn: Haugard, Wimmer, Afellay, Berahino og Bogdan. 

Liverpool: Mignolet, Gomez, Matip, Lovren, Moreno, Wijnaldum, Can, Oxlade-Chamberlain (Milner á 67. mín.), Mané (Henderson á 89. mín.), Solanke (Salah á 67. mín.), Firmino. Ónotaðir varamenn: Karius, TAA, Sturridge, Coutinho. 

Mörk Liverpool: Mané á 17. mín., Salah á 77. og 83. mín.

Gul spjöld: Can, Mignolet, Mané, Oxlade-Chamberlain og Wijnaldum. 

Maður leiksins: Það er mjög erfitt að velja ekki Salah, hann var náttúrulega magnaður, en spilaði ekki nema 25 mínútur þannig að ég kýs að velja Mané. Eitt mark og ein stoðsending af dýrari gerðinni. Firmino var eins og venjulega hrikalega duglegur og svo fannst mér Wijnaldum líka verulega sterkur á miðjunni. Solanke var drjúgur og heilt yfir var liðið nokkuð solid. Kannski helst að Mignolet og Gomez hafi átt í vandræðum.    

Jürgen Klopp: ,,Þetta var góður sigur, en mjög erfiður leikur. Við hefðum getað gert okkur lífið aðeins auðveldara með því að nýta færin í fyrri hálfleiknum betur og svo hleyptum við þeim kannski aðeins of mikið inn í leikinn í seinni hálfleik, en við stóðum í lappirnar og börðumst vel og uppskárum sætan sigur. Ég er mjög ánægður með bæði frammistöðuna og úrslitin." 

Fróðleikur: 

-Mo Salah hefur skorað 8 mörk í nóvember, sem er algjörlega magnað.

-Salah er kominn með 17 mörk í öllum keppnum í vetur, sem er líka magnað. 

-Salah kann vel við sig í appelsínugulu því hann hefur skorað sex mörk í þeim þremur leikjum sem Liverpool hefur spilað í þeim búningum.
                              
-Þetta var í þriðja sinn á leiktíðinni sem Liverpool mætti til leiks í appelsínugulum búningum. Hinir leikirnir voru gegn Maribor (0-7) og West Ham (1-4). 

-Leikurinn í kvöld var 19. leikur Liverpool og Stoke frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992. Liverpool hefur unnið 10, Stoke hefur unnið 4 og 5 hafa endað með jafntefli.

-Jürgen Klopp hefur nú farið þrisvar sinnum með Stoke á bet365 (Brittania) leikvanginn og fagnað sigri í öll skiptin. 

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

-Hér er viðtal við Klopp af sömu síðu. 

  TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan