| Grétar Magnússon

Knattspyrnumaður ársins í Afríku

Mohamed Salah hlaut í gær útnefningu BBC, breska ríkisútvarpsins, sem besti leikmaður í Afríku árið 2017.

Valið kemur svosem ekki á óvart miðað við frammistöðu hans í ensku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili en engu að síður er útnefningin mikill heiður og hlaut hann fleiri atkvæði en t.d. Pierre-Emerick Aubameyang frá Gabon, Naby Keita frá Gíneu, Sadio Mane frá Senegal og Victor Moses frá Nígeríu.  Gaman er svo að sjá að þrír af þessum leikmönnum munu allir spila saman í búningi Liverpool á næsta tímabili !

,,Ég er mjög ánægður með að vinna þessi verðlaun," sagði hinn 25 ára gamli Salah í viðtali við BBC Sport.

,,Það er alltaf sérstök tilfinning þegar maður vinnur eitthvað, mér finnst ég líka hafa átt mjög gott ár, þannig að ég er mjög ánægður."

Salah, sem hefur skoraði 13 mörk í deildinni til þessa, og er markahæstur, átti frábært ár fyrir landslið sitt sem og Roma fyrri hluta árs og nú hjá Liverpool.  Hann hjálpaði landsliði Egypta að komast á HM í fyrsta sinn síðan 1990 með því að leggja upp tvö mörk og skora fimm, auk þess tryggði hann liðinu þátttökurétt í Rússlandi með því að skora úr vítaspyrnu í uppbótartíma gegn Kongó.

,,Mig langar til að vera besti leikmaður Egyptalands fyrr og síðar þannig að ég legg hart að mér," sagði Salah sem er þriðji Egyptinn til að vinna þessi verðlaun síðan 2008.

,,Ég set mitt fordæmi og vil að allir í Egyptalandi fylgi því einnig.


Með félagsliðum sínum á árinu spilaði hann einnig frábærlega.  Hann skoraði 15 mörk og átti 11 stoðsendingar þegar Roma enduðu í öðru sæti í ítölsku deildinni og var það besti árangur liðsins í sjö ár.  Hjá Liverpool hefur hann svo eins og áður sagði skorað 13 deildarmörk í fyrstu 16 leikjum sínum hjá liðinu og alls 19 mörk í öllum keppnum.

,,Ég vil þakka samherjum mínum hjá Liverpool, ég átti einnig gott tímabil hjá Roma og þakka samherjum mínum þar líka sem og liðsfélögum mínum í landsliðinu," sagði Salah.  ,,Eftir að ég kom aftur til Englands hef ég viljað sýna hvað ég get og hef unnið mikið til þess, ég vildi alltaf snúa aftur í ensku deildina þannig að ég er mjög ánægður með það."

Jürgen Klopp sagði af þessu tilefni:  ,,Hann á þetta svo sannarlega skilið.  Ég er virkilega heppinn manneskja.  Ég hef haft tækifæri til að vinna með nokkrum framúrskarandi leikmönnum og er ánægður að vinna núna með Mo.  Það góða er að hann er enn ungur, það er mikill tími til þess að bæta sig enn frekar, við getum unnið meira með hæfileika hans og þannig ætti það að vera.  Það er mér mikil ánægja að fá að vinna með honum."

Salah bætist í hóp þekktra nafna í knattspyrnuheiminum sem hafa unnið til þessara verðlauna áður og má þar nefna Jay-Jay Okocha frá Nígeríu, Didier Drogba frá Fílabeinsströndinni og Michael Essien frá Gana.

,,Ég er mjög ánægður með að komast í þennan hóp," sagði Salah að lokum en þeir Egyptar sem hafa unnið til þessara verðlauna áður eru þeir Mohamed Barakat árið 2005 og Mohamed Aboutrika árið 2008.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan