| Heimir Eyvindarson

15. leikurinn í röð án taps

Liverpool tók á móti Leicester á Anfield í dag. Eftir hörmulega byrjun náðu okkar menn að enda árið með stæl og landa 2-1 sigri, þökk sé egypska hálfguðinum Mo Salah. 

Klopp gerði fimm breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum við Swansea á annan dag jóla. Mesta athygli vakti að Karius stóð í markinu í stað Mignolet. Klopp vildi lítið gefa út á markmannsskiptin fyrir leik, talaði bara um eðlilega róteringu, en sjálfsagt er hann hægt og rólega að gera Karius að markverði númer eitt. Aðrir sem komu inn voru Gomez, Milner, Lovren og Mané. 

Virgil Van Dijk sat í stúkunni og fylgdist með leiknum, sem byrjaði ekki gæfulega því eftir þrjár mínútur voru gestirnir komnir yfir. Matip átti feilsendingu á miðjum vallarhelmingi Liverpool og á augabragði var búið að spila okkar menn sundur og saman. Vissulega klaufalegt, en það verður samt ekki af Leicester tekið að sóknin var ansi vel útfærð. Jamie Vardy, hver annar, skoraði markið og þar með hefur hann skorað 7 af síðustu 9 mörkum sem Leicester hefur skorað gegn Liverpool. Einum of impressive tölfræði fyrir minn smekk. Staðan 0-1 og Anfield í nettu sjokki. 

Liverpool sótti af miklu kappi næstu mínúturnar og Salah misnotaði eitt mjög gott færi og annað býsna gott á næstu 7-8 mínútum. Milner var líka nálægt og svo skoraði Mané á 19. mínútu, en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Tveimur mínútum síðar var Salah nálægt því að skora, mikill kraftur í Liverpool og jöfnunarmarkið lá í loftinu.

Smám saman dró af okkar mönnum og síðustu 15-20 mínútur fyrri hálfleiks var svo sem ekkert voðalega mikið að gerast. Staðan 0-1 í leikhléi. 

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og eftir 5 mínútna leik vildu okkar menn fá víti þegar Salah féll í teignum, en það hefði verið ansi billegt. Tveimur mínútum síðar var Egyptinn ótrúlegi búinn að jafna og þvílík afgreiðsla! Mané sendi hælsendingu inn á Salah sem sneri varnarmenn Leicester af sér í rólegheitunum og afgreiddi boltann af öryggi í netið framhjá Schmeichel. Alveg hrikalega vel gert. Staðan 1-1. 
Á 65. mínútu skoraði Mané annað mark sem réttilega var dæmt af vegna rangstöðu. Mjög lagleg sókn hjá Liverpool og allt að gerast fram á við. 

Sigurmarkið kom svo á 76. mínútu. Aftur var hælsending í aðdragandanum, nú frá Milner, og aftur var afgreiðslan hjá Salah í hæsta gæðaflokki. Ennþá betur klárað en fyrra markið ef eitthvað var.

Egyptinn fékk heiðursskiptingu á 83. mínútu við dynjandi fagnaðarlæti á Anfield, þvílíkur leikmaður og þvílík innkoma í liðið. Takk Salah, takk. 

Síðustu mínúturnar voru eðlilega nokkuð taugatrekkjandi en okkar menn héldu haus og lönduðu mikilvægum þremur stigum. 15. leikurinn í röð án taps og liðið hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk á Anfield það sem af er leiktíðinni. Það er ansi gott. Það gerði daginn svo ekkert leiðinlegri að Manchester United gerði 0-0 jafntefli við Southampton í seinnipartsleiknum, þannig að nú munar bara þremur stigum á liðunum. Eitt stig í viðbót í Chelsea í 2. sætinu, en City er í órafjarlægð á toppnum. 

Liverpool: Karius, Gomez, Matip, Lovren, Robertson, Can, Milner, Coutinho (Klavan á 88. mín.), Mané, Firmino (Oxlade-Chamberlain á 72. mín.), Salah (Wijnaldum á 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, TAA, Lallana og Solanke. 

Maður leiksins: Salah, Salah, Salah! Þessi leikmaður er svo frábær að maður á ekki orð. Við getum þakkað honum fyrir öll stigin í dag. Takk Salah, takk. 

Jürgen Klopp: ,,Það er engin óskastaða að lenda 1-0 undir eftir þrjár mínútur en það var frábært að sjá liðið snúa leiknum sér í vil. Við börðumst og börðumst og sköpuðum og sköpuðum. Við spiluðum frábæran bolta á köflum og sýndum mikinn karakter. Allir á vellinum, leikmenn sem áhorfendur, lögðust á eitt og lönduðu þremur stigum í dag. Ég er ótrúlega stoltur og ánægður, þetta var frábært." 

Fróðleikur: 

-Mo Salah er nú kominn með 23 mörk á leiktíðinni í öllum keppnum. Enginn leikmaður í sögu LFC hefur skorað svona mikið fyrir áramót. 

-Salah hefur átt beinan þátt í 22 mörkum Liverpool í 21 deildarleik (17 mörk og 5 stoðsendingar). Það er impressive tölfræði. 

-Þetta var í fyrsta sinn sem Claude Puel stjóri Leicester tapar leik á Anfield. 

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com 

  


  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan