| Grétar Magnússon

Lijnders yfirgefur Liverpool

Hollenski þjálfarinn Pepijn Lijnders hefur hætt störfum hjá félaginu og tekið við sem yfirþjálfari hjá hollenska félaginu NEC Nijmegen sem eru í öðru sæti í næst efstu deild Hollands.


Lijnders kom til félagsins árið 2014 eftir að hafa starfað áður hjá PSV Eindhoven í heimalandinu og FC Porto í Portúgal, hóf hann störf hjá Liverpool sem stjóri U-16 ára liðsins.  Sumarið 2015 var hann svo settur í nýja stöðu hjá Liverpool sem svokallaður þróunar þjálfari aðalliðsins og eftir að Jürgen Klopp kom til starfa síðar það ár varð hann mikilvægur hluti af þjálfarateymi hans.

En nú hefur hann semsagt hætt störfum hjá félaginu til að róa á ný mið og verður klárlega eftirsjá af honum og hæfileikum hans sem þjálfari.

,,Ég gæti skrifað þakkarorð í marga klukkutíma til þeirra sem hafa hjálpað mér hjá Liverpool síðan ég kom hingað til starfa og ákvörðunin um að hætta hér var ekki auðveld," sagði Lijnders í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.

,,Heilt yfir vill ég þakka öllum leikmönnum og þjálfaraliðinu á Melwood sem og í Akademíunni í Kirkby samstarfið en ég naut þeirra forréttinda að vinna með þeim öllum.  Vinna mín fór einnig fram á Anfield og það er ótrúlega sérstakur staður með einstöku fólki og ég tók því aldrei sem sjálfsögðum hlut að vinna á einum frægasta leikvangi knattspyrnunnar í annari hverri viku.  Félagið er svo heppið að hafa mann eins og Jürgen við stjórnvölinn því hann er vissulega í heimsklassa.  Ég vonast til þess að nýta reynslu mína af því samstarfi, sem og samstarfinu með Zeljko Buvac, Peter Krawietz og John Achterberg til þess að þjálfa önnur lið í framtíðinni."


,,Að vinna með leikmönnunum í aðalliðinu var töfrum líkast.  Þeir staðfestu þá trú mína á því að allt byrjar og endar á ástríðunni fyrir leiknum.  Með þeim gæðum sem þetta félag hefur yfir að ráða nú þegar og er að byggja upp er það aðeins tíminn sem mun leiða í ljós hvað verður.  Maður kveður í raun aldrei Liverpool Football Club því maður mun ávallt endurspegla þann heiðarleika og ástríðu sem félagið býr yfir hvar sem maður fer.  Maður er kominn með stimpilinn fyrir lífstíð."

,,Ég er stoltur af hverjum degi sem ég starfaði fyrir félagið og ég mun reyna að halda áfram góðu starfi mínu í næsta kafla lífs míns.  Vonandi er félagið líka stolt af mér."

Jürgen Klopp sér mikið eftir því að missa Lijnders úr teymi sínu og kvaddi hann með virktum.

,,Það eru virkilega blendnar tilfinningar fólgnar í því að kveðja Pep," sagði stjórinn.  ,,Fyrst og fremst er vont að missa svona mikilvægan liðsmann úr þjálfarateyminu og svona frábæran persónuleika einnig.  En sú tilfinning verður aðeins betri þar sem ég er mjög spenntur fyrir hans hönd og það tækifæri sem hann er að fá núna, þó svo að ég vildi glaður vilja hafa hann áfram hjá okkur þá getum við ekki staðið í vegi fyrir honum."

,,Það er erfitt að færa í orð hvað Pep hefur gert fyrir okkur, hjálpað nýja þjálfarateyminu sem ég kom með inn að aðlagast, mennta okkur í enskum knattspyrnufræðum og að koma með hugmyndir sem hafa hjálpað mikið til í þróun liðsins.  Hann er með ótrúlega knattspyrnuheila, en vilji hans til að læra og taka inn nýjar upplýsingar sem og að leitast sífellt við að bæta sig sem þjálfari gerir það að verkum að hann skarar framúr."

,,Auðvitað verður hans stærsta arfleið hjá félaginu að hann hjálpaði mörgum ungum og spennandi leikmönnum að bæta sig og stíga skrefið upp í aðalliðið.  Hlutverk hans í að láta okkur vita af þessum leikmönnum og aðstoða við að ná því besta útúr þeim mun hafa mikil áhrif eftir að hann hættir störfum hér.

,,Hvað persónulega hluti varðar þá hefur fjölskylda hans einnig orðið hluti af okkur hér og við munum sakna þeirra mikið.  Það verður ekki til meiri stuðningsmaður NEC Nijmegen í Liverpool en ég og ég veit að þetta er byrjunin á löngum ferli hjá Pep þar sem án efa verður mikið um sigra."TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan