| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er gegn Huddersfield í deildinni og fer leikurinn fram á John Smith's Stadium þriðjudagskvöldið 30. janúar klukkan 20:00.

Staðan er ekki góð hjá Liverpool um þessar mundir, síðustu tveir leikir hafa tapast og það gegn liðunum sem sitja í tveimur neðstu sætum deildarinnar.  Það er þó huggun harmi gegn að þessir leikir komu ekki báðir í deildinni en það er vissulega hundleiðinlegt að hafa dottið út úr FA bikarnum um helgina á heimavelli með sterkt lið.  Það þýðir samt lítið að leggjast í þunglyndi yfir stöðunni, það er stutt á milli leikja og leikmenn hafa nú gott tækifæri til að snúa genginu við gegn Huddersfield.

Það verður hinsvegar ekki auðvelt verkefni því Huddersfield eru í fallbaráttu eins og við mátti búast fyrir tímabilið.  Þeir sitja í 14. sæti deildarinnar með 24 stig og það er stutt í botnliðin sem eru með 20 stig.  Hversu oft höfum við nú séð það að þegar Liverpool mætir fallbaráttuliði á útivelli að þá fer illa ?  Það þarf svo auðvitað ekki að hugsa langt aftur með hryllingi til slíkrar stöðu þegar okkar menn fóru til Wales og töpuðu gegn Swansea.  Stjóri heimamanna er svo einn besti vinur Klopp og þeir félagar þekkja vel inná hvorn annan.  Vonandi verður sú vinátta ekki til þess að Liverpool tapar stigum í leiknum.  Síðasti sigur Huddersfield í deildinni kom á útivelli gegn Watford þann 16. desember, síðan þá hafa þeir gert þrjú jafntefli og tapað þremur, nánar tiltekið hafa þessir þrír tapleikir komið í síðustu þrem leikjum.  Í millitíðinni sigruðu þeir Bolton á útivelli í FA bikarnum og gerðu svo jafntefli við Birmingham heima nú um helgina í þeirri keppni.  Þeirra markahæsti maður í öllum keppnum er Laurent Depoitre með fimm mörk en þeir hafa aðeins skorað 19 mörk í deildinni í 24 leikjum til þessa og fengið á sig 41 mark.  Á meiðslalistanum hjá þeim eru Williams, Cranie, Kachunga og Stankovic og enginn þeirra er líklegur til að ná því að spila leikinn.

Okkar menn þurfa að rífa sig í gang því að nú harðnar baráttan heldur betur í deildinni.  Fjórða sætið er okkar sem stendur en það má ekkert útaf bregða til að það klikki.  Nýjustu meiðslafréttir eru þær að Adam Lallana er aftur mættur á listann, hann spilar ekki þennan leik og óvíst er hvort hann nái næsta leik gegn Tottenham.  Það er skarð fyrir skildi því ákveðin vöntun er á skapandi miðjumönnum eins og staðan er núna.  Ragnar Klavan er svo einnig meiddur og sem fyrr er Clyne meiddur.  Það var svo spilað á sterku liði um helgina og vonandi er enginn þeirra sem spilaði þann leik að glíma við eymsli, nema þá kannski á sálinni eftir lélega frammistöðu heilt yfir.  Liverpool vann fyrri leik liðanna á tímabilinu á Anfield nokkuð örugglega 3-0 þar sem öll mörkin komu í seinni hálfleik en í þeim fyrri misnotaði Salah vítaspyrnu.  Endurtekning á þessum úrslitum væri vel þegin en reyndar má alveg sleppa því að klúðra enn einu vítinu en þau hafa farið nokkur í súginn á þessu tímabili.


Hvernig svo sem Klopp stillir upp liðinu þá gerum við kröfu um það að nú fari liðið á sigurbraut á ný.  Ég held að það takist en auðvitað eru leikmenn Liverpool manna bestir í því að hafa hlutina eins tæpa og hægt er og valda okkur stuðningsmönnum tilheyrandi stressi og hjartsláttartruflunum.  Lokatölur í þessum leik verða 1-2 þar sem gestirnir skora fyrst, heimamenn jafna en það tekst að skora sigurmarkið á síðasta korteri leiksins.  Það er svo sannarlega kominn tími á sigur og við viljum alls ekki endurtaka leikinn frá því í janúar í fyrra þegar þrír tapleikir í röð litu dagsins ljós.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah hefur nú skorað 25 mörk alls á tímabilinu og er sem fyrr markahæstur allra leikmanna liðsins.

- Egyptinn hefur skorað 18 mörk í deildinni til þessa.

- Roberto Firmino er kominn með 10 mörk og 18 alls.

- Firmino spilar líklega sinn 90. deildarleik fyrir félagið.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan