| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool leikur útileik við Southampton seinnipart sunnudags. Það er kannski hættulega nálægt Meistaradeildarleiknum við Porto á miðvikudaginn, en vonandi halda menn fókus.

Mauricio Pellegrino stjóri Southampton, sem spilaði 12 leiki með Liverpool á vorönninni 2005, hefur ekki haft það sérstaklega náðugt á suðurströndinni í vetur. Southampton liðið hefur verið í töluverðu basli og er aðeins tveimur stigum frá fallsæti í 15. sæti deildarinnar. 

Southampton vann Everton 4-1 seinnipartinn í nóvember, í næsta leik eftir 3-0 tapið gegn Liverpool á Anfield. Eftir Everton leikinn komu síðan 12 leikir í röð án sigurs í deildinni, allt þar til liðið lagði WBA að velli um síðustu helgi. Ensku blöðin segja að Pellegrino hafi bjargað starfinu með þeim sigri, að minnsta kosti um stundarsakir. 

Ef rýnt er nánar í úrslit Southampton frá því í nóvember kemur nú samt í ljós að þau eru alls ekki alslæm. Liðið komst áfram í FA bikarnum í janúar, með sigrum á Fulham og Watford, og hefur gert jafntefli við Manchester United, Tottenham og Arsenal í deildinni.

Það eru engin teljandi meiðsli í herbúðum Southampton þannig að Pellegrino á að geta stillt upp sínu sterkasta liði.
Að Liverpool liðinu: Það þarf ekkert að fjölyrða um það hér að okkar lið er fullt af fyrrverandi leikmönnum Southampton, sá nýjasti er Virgil Van Dijk. Eini leikmaðurinn í okkar hópi sem er meiddur, svona af þeim sem eitthvað er varið í, er líka fyrrverandi Southampton maður; Nathaniel Clyne. Joe Gomez er að vísu eitthvað tæpur líka þannig að hann verður trúlega ekki með á morgun, sem segir okkur að TAA verður í hægri bakverðinum. 

Aðrir eru í nokkuð góðu standi, Henderson og Lallana eru að koma til en eru ekki komnir í fulla leikæfingu. Klopp sagði á blaðamannafundi að það væri hæpið að Henderson geti spilað bæði við Southampton og Porto, þannig að sjálfsagt verður hann hvíldur á morgun. Hvort Lallana fær eitthvað að finna fyrir hegðun sinni í vikunni með U-23 liðinu verður svo að koma í ljós, en líklega verður hann allavega til taks á bekknum. 

Klavan og Moreno æfðu síðan báðir með liðinu í gær þannig að þeir virðast vera klárir. 

Ég er frekar svartsýnn fyrir þennan leik. Ég er hræddur um að menn verði komnir með hugann of mikið á kaf í leikinn við Porto á miðvikudaginn. Það er ekkert sérstaklega sniðugt að leika útileik á sunnudagskvöldi á suðurströndinni og þurfa svo að vera mættir og tilbúnir í erfiðan útileik í Portúgal 72 tímum síðar. Ef menn eru enn að tuða yfir óréttlæti heimsins, sem bitnaði á þeim í Tottenham leiknum, gætu þeir auðveldlega látið þetta fyrirkomulag fara í pirrurnar á sér líka. Vonandi halda menn þó haus í báðum leikjunum.   

Ég verð samt að segja að ég er hálf feginn að Southampton er ekki búið að reka Pellegrino, það hefði verið svo dæmigert að liðið hefði fengið nýjan stjóra fyrir leikinn - og tekið upp á því að spila langt yfir getu. Ég er líka frekar sáttur við að Southampton skyldi landa sínum fyrsta sigri í langan tíma um síðustu helgi, það hefði líka verið svo týpískt að fyrsti sigur botnliðs í langan tíma kæmi gegn Liverpool. Við höfum of oft lent í því. 

Ég ætla samt að stilla væntingum í hóf og spá 1-1 jafntefli. Solanke skorar. 

YNWA!

Fróðleikur:

-Southampton er taplaust í síðustu 6 sunnudagsleikjum sínum í deildinni á St. Mary´s

-Í síðustu þremur viðureignum liðanna á St. Mary´s er staðan þannig að Southampton hefur unnið tvo og einu sinni hefur orðið jafntefli. Það er ekkert sérstakt. 

-Southampton er það lið sem Jürgen Klopp hefur oftast mætt frá því að hann tók við Liverpool. Leikurinn á morgun verður 9. viðureign liðanna frá því að Klopp kom til sögunnar. Southampton hefur yfirhöndina hingað til, hefur unnið þrjá leiki gegn tveimur leikjum Liverpool. Tveir leikir hafa endað með jafntefli. 

-Sadio Mané hefur skorað sex mörk í síðustu fimm leikjum á St. Mary´s. Öll fyrir Southampton. 

  

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan