| Grétar Magnússon

2-0 sigur á Newcastle

Nokkuð öruggur sigur vannst á Newcastle United í lokaleik laugardagsins í deildinni.  Mörkin komu úr kunnuglegum áttum.

Jürgen Klopp gerði tvær breytingar á liðinu frá leiknum við West Ham.  Inn kom fyrirliðinn Jordan Henderson og Dejan Lovren í vörnina í stað þeirra James Milner og Joel Matip.  Newcastle menn áttu í einhverjum meiri meiðslavandræðum og bar þar helst að nefna að Jonjo Shelvey gat ekki spilað vegna meiðsla.

Eins og við var að búast byrjaði leikurinn þannig að Liverpool menn voru meira með boltann og reyndu að opna glufur á ansi þéttum varnarvegg gestanna.  Nokkur hálffæri litu dagsins ljós en leikmenn Liverpool voru aðeins mislagðir fætur og misstu stundum boltann frá sér.  Snemma leiks fékk Mané fína sendingu frá Alexander-Arnold innfyrir en hann náði ekki að leggja boltann fyrir sig og varnarmenn gestanna bægðu hættunni frá.  Mohamed Salah sýndi svo það sjálfstraust sem í honum býr þegar hann þrumaði að marki vinstra megin úr vítateigshorninu en skotið fór í hliðarnetið.  Dejan Lovren fékk svo tvö skallafæri eftir hornspyrnu út við fjærstöng en kom boltanum ekki í netið fyrir þéttum varnarmúr.  Skömmu síðar fékk Salah svo gott færi á teignum, hann ætlaði að leggja boltann fyrir sig á hægri fót en þegar skotið reið af komst varnarmaður Newcastle enn og aftur fyrir boltann.  Salah hefði þar eftirá að hyggja átt að þruma strax að marki með sínum eitraða vinstri fæti.

Það kom þó að því að ísinn brotnaði og var það eftir 40 mínútna leik.  Oxlade-Chamberlain vann boltann á miðjunni og skeiðaði í átt að marki, lagði boltann út til hægri á Salah sem hikaði nú ekki neitt og sendi boltann á milli fóta markvarðar Newcastle og í netið.  Fyrri hálfleikur endaði svo á því að Newcastle fengu sitt besta færi þegar gott samspil uppvið vítateiginn endaði með góðu skoti frá Diame sem stefndi upp í markhornið.  Karius var hinsvegar vel á verði og varði glæsilega með hægri hendi.


Seinni hálfleikur var svo nánast sama uppskrift og í þeim fyrri.  Heimamenn gerðu tilkall til vítaspyrnu þegar skot frá Salah virtist vera varið með hendi varnarmanns en dómarinn sá ekki ástæðu til að flauta.  Það þurfti svo ekki að bíða í aðrar 40 mínútur eftir næsta marki Liverpool en það kom á 55. mínútu.  Firmino lék uppað vítateig og renndi boltanum inn á Mané sem þrumaði boltanum snyrtilega í netið.  Eftir þetta má segja að sigrinum hafi verið landað á öruggan hátt.  Newcastle menn reyndu að skapa sér færi en tókst það ekki þar sem van Dijk og félagar voru fastir fyrir í vörninni.  Á lokamínútum leiksins hefði svo Salah átt að fá víti þegar hann komst einn í gegn en Lascelles, fyrirliði Newcastle, braut á honum.  Nokkuð augljós vítaspyrna þar en dómarinn dæmdi ekki neitt, Klopp til mikillar furðu á hliðarlínunni.  Skömmu síðar var svo flautað til leiksloka og fyrsti sigur Liverpool á liði undir stjórn Rafa Benítez leit loksins dagsins ljós.

Liverpool:  Karius, Alexander-Arnold, van Dijk, Lovren, Robertson, Henderson, Can, Oxlade-Chamberlain (Milner, 79. mín.), Mané (Lallana, 74. mín.), Salah, Firmino (Matip, 88. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Mignolet, Moreno, Gomez, Solanke.

Mörk Liverpool:  Mohamed Salah (40. mín.) og Sadio Mané (55. mín.).

Newcastle:  Dubravka, Lejeune, Lascelles, Dummett, Yedlin, Diamé, Merino (Hayden, 73. mín.), Kenedy, Atsu, Murphy (Pérez, 84. mín.), Gayle (Joselu, 66. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Darlow, Clark, Ritchie, Manquillo.

Maður leiksins:  Allir leikmenn liðsins voru flottir í þessum leik og gerðu það sem til þurfti.  Alex Oxlade-Chamberlain er valinn maður leiksins að þessu sinni þar sem hann átti stóran þátt í því að brjóta ísinn og koma sínum mönnum á bragðið.

Jürgen Klopp:  ,,Ég gleymi stundum stöðu leiksins á meðan honum stendur og þó svo að við höfum verið 2-0 yfir þá fannst mér við getað stjórnað leiknum betur.  En þegar ég fór svo út á völlinn eftir leik og fann fyrir vindinum þá gat verið erfitt að gera rétta hlutinn á réttum tíma.  Við skoruðum tvö góð mörk og hefðum svo sannarlega átt að fá víti en fengum ekki."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt 24. deildarmark á leiktíðinni og jafnaði þar með Harry Kane í keppninni um markakóngstitilinn.

- Sadio Mané skoraði sitt 8. deildarmark á leiktíðinni.

- Mohamed Salah hefur nú skorað í sjö leikjum í röð í öllum keppnum.

- Liverpool hafa nú skorað 200 mörk undir stjórn Jürgen Klopp í 97 leikjum.

Hér má sjá myndir úr leiknum.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan