| Heimir Eyvindarson

Steindautt jafntefli og áfram í 8-liða

Liverpool og Porto gerðu tiltölulega dautt 0-0 jafntefli á Anfield í gærkvöldi. Liverpool vann einvígið 5-0 samanlagt og er komið áfram í 8 liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Báðir stjórar gerðu talsverðar breytingar á byrjunarliðunum frá síðasta leik, enda var svosem bara formsatriði að klára leikinn fyrir bæði liðin og engin ástæða til að leggja líf og limi í hættu. 

 Fyrir leikinn var mínútu þögn, til minningar um Davide Astori fyrirliða Fiorentina, sem lést á sunnudaginn. 

Það verður að segjast eins og er að leikurinn var ekki mikið fyrir augað en Liverpool var þó klárlega betra liðið á vellinum og spilaði leikinn í raun mjög skynsamlega. Vinnslan á miðjunni var góð, Can, Henderson og Milner allir öflugir og varnarlínan og Karius í góðu lagi. 

Mané var tvisvar nálægt því að skora í fyrri hálfleik, seinna færið var sýnu betra en þá skaut hann í innanverða stöngina. Lovren átti síðan ágætan skalla rétt yfir markið eftir hornspyrnu. 

Ég man ekki til þess að Porto hafi fengið eitt einasta færi í fyrri hálfleiknum, en kannski dottaði ég aðeins á köflum. 

Í seinni hálfleik gerðist ekki mikið meira, Salah kom reyndar inná og var í fantastuði. Mjög gaman að fylgjast með honum. Eins kom Danny Ings sterkur inn, en hann átti besta færi okkar í seinni hálfleik þegar hann skallaði að marki frá markteig. Til allrar ólukku var Porto búið að skipta um markmann frá síðasta leik og meistari Iker Casillas varði frábærlega. 


Ég hef eiginlega ekkert meira að segja um þennan leik. Hann var fagmannlega leikinn af hálfu Liverpool, menn pössuðu vel upp á að hleypa leiknum ekki í neina vitleysu, héldu haus allan tímann og kláruðu verkefnið með sóma. Nú þurfum við bara að bíða í viku eftir því að sjá hvaða mótherja við fáum í 8-liða úrslitunum. Ljómandi verður gaman þá.


Liverpool: Karius, Gomez, Lovren, Matip, Moreno, Milner, Can (Klavan á 80. mín.), Henderson, Firmino (Ings á 62. mín.), Lallana, Mané (Salah á 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Van Dijk, TAA, Oxlade-Chamberlain.

Porto: Casillas, Pereira, Felipe, Reyes, Dalot, Torres, André (Oliveira á 62. mín.), Costa, Corona, Waris (Ricardo á 68. mín.), Aboubakar (Paciencia á 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Sá, Otavio, Brahimi, Mata

Maður leiksins: James Milner fær mitt atkvæði í dag. Miðjan var öll góð, en hann var sprækastur og áræðnastur fannst mér. Mikill kraftur í honum, bæði fram og aftur.  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan