| Heimir Eyvindarson

Við urðum að selja Salah

Ramon Rodriguez Verdejo yfirmaður íþróttamála hjá Roma segir að hann skilji vel að stuðningsmenn félagsins séu súrir yfir því hvað félagið fékk lítinn pening fyrir Mohamed Salah í sumar. 

Verdejo, eða Monchi eins og hann er kallaður, biður stuðningsmennina samt um að reyna að skilja það að aðstæður félagsins hafi verið með þeim hætti að liðið hafi einfaldlega lítið annað getað gert en að selja Salah fyrir 30. júní. Félagið hafi átt yfir höfði sér refsingu frá UEFA vegna financial fair play reglunnar og til þess að rétta af reikningshaldið og koma málunum í skikk hafi félagið neyðst til að taka tilboði Liverpool. 

Liverpool fékk Salah fyrir 37 milljónir punda í sumar, sem er auðvitað hlægileg upphæð miðað við frammistöðu Egyptans í vetur, en það verður þó að segjast alveg eins og er að hann hefur komið öllum á óvart með snilli sinni.  

,,Við urðum að ná í pening fyrir 30. júní og það kom tilboð frá Liverpool. Við vissum að sjálfsögðu að við vorum að láta frá okkur mjög góðan leikmann, en það datt líklega engum í hug að hann myndi slá þvílíkt í gegn sem hann hefur gert. Hann hafði jú spilað með Chelsea í ensku deildinni og ekki gengið vel, en nú lenti hann hjá liði sem hentaði hans leikstíl og þjálfara sem hafði virkilega trú á honum og hann hefur aldeilis blómstrað", segir Monchi. 

..Það verður líka að hafa það í huga að við seljum Salah áður en Neymar er seldur til PSG fyrir metfé og verðið á stórstjörnum hækkaði í einu vetfangi, eins og sölurnar á Mbappe, Dembele og Coutinho vitna um." 

Salan á Salah voru fyrstu stóru viðskiptin sem Monchi átti þátt í sem yfirmaður íþróttamála hjá Roma, en hann hefur gegnt þeirri stöðu í u.þ.b. 12 mánuði. Hann hefur þurft að þola mikla gagnrýni fyrir söluna á Salah og þrálátur orðrómur um að félagið ætli að selja markmanninn Allison í sumar hefur ekki hjálpað honum, en Allison hefur m.a. verið orðaður við Liverpool. 

,,Fólk talar um að við séum útungunarklúbbur sem hugsi bara um að græða á leikmannasölu en vilji ekki ná árangri. Ég mótmæli því harðlega. Það voru fyrst og fremst aðstæður sem réðu því að við létum Salah fara, í tilfelli Allison er staðan allt önnur. Við þurfum ekki að selja hann. Við erum himinlifandi yfir því að vera með einn af bestu markmönnum í heimi í liðinu. Það hvarflar ekki að okkur að selja hann."   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan